Gamanmyndin Þorsti eftir Steinþór Hróar Steinþórsson (Steinda jr.) og Gauk Úlfarsson, var frumsýnd í Sambíóunum föstudaginn 25. október s.l. Myndin tengist þáttaröðinni Góðir landsmenn sem sömu aðilar stóðu að og var sýnd á Stöð 2.
Í Góðir landsmenn er því lýst hvernig Steindi kemur saman kvikmyndinni með hjálp ýmissa aðila, en Þorsta er svo lýst:
Kvikmyndin Þorsti gerist í litlum bæ, ekki ólíkum Reykjavík þar sem óöld liggur í loftinu og undarlegir glæpir og hrottaskapur virðast vera daglegt brauð. Myndin Fjallar um Huldu sem er grunuð um að hafa orðið valdur að andláti bróður síns og er því til rannsóknar hjá Jens rannsóknarlögreglu. Móðir Huldu, sem skolar niður pillum með bláum Smirnoff á morgnana trúir því einnig að hún hafi orðið bróður sínum að bana. Eftir að hafa verið sleppt úr varðhaldi vegna ónógra sannana hefur hún í engin hús að venda og þvælist um þar til hún rekst á Hjört, mörg þúsund ára gamla, einmanna og samkynhneigða vampíru sem hjálpar henni að vekja Steinda bróður hennar til lífs aftur með hræðilegum afleiðingum á sama tíma og þau þurfa að verjast ágangi Esterar og Birgittu og sértrúarsöfnuði þeirra, sem virðist elta þau á röndum.
Með helstu hlutverk fara Hjörtur Sævar Steinason, Hulda Lind Kristinsdóttir, Birgitta Jeanne Sigursteinsdóttir, Jens Jensson, Ester Sveinbjarnardóttir og Birna Halldórsdóttir en þau mynda leikhópinn X.