Morgunblaðið um „Agnesi Joy“: Horft yfir flóann

„Afar skemmtileg kvikmynd sem fjallar á djúpviturlegan, fallegan og sprenghlægilegan hátt um uppvöxt, eftirsjá og fjölskyldusambönd,“ segir Brynja Hjálmsdóttir meðal annars í umsögn sinni um Agnesi Joy Silju Hauksdóttur í Morgunblaðinu. Brynja gefur myndinni fjóra og hálfa stjörnu.

Brynja skrifar meðal annars:

Handrit myndarinnar er feykilega gott. Það vekur athygli að handritshöfundarnir eru þrír, Gagga Jónsdóttir og Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir auk leikstjórans Silju Hauksdóttur. Í ræðunum sem haldnar voru fyrir frumsýningu á myndinni var gert ljóst að þetta hefði verið mikið samstarfsverkefni og þetta fyrirkomulag hefur greinilega gefist mjög vel, lokaafurðin ber því vitni.

Samtölin eru lipur og snjöll og framvindan heldur manni vel við efnið og þrátt fyrir að efniviðurinn sé hversdagslegur næst að viðhalda húmor og spennu gegnum allt verkið. Persónusköpunin er frábær og minnir að vissu leyti á höfundarverk Woodys Allens, þar sem allar persónur eru svolítið óþolandi en samt fyndnar og brjóstumkennanlegar. Leikur og leikstjórn er ekki síðri og greinilegt að Silja er afskaplega fær í að vinna með leikurum því allir leikararnir eru frábærir, líka þeir sem eru í litlum hlutverkum. Katla Margrét vinnur hér leiksigur, hún gengur algjörlega inn í marglaga persónu Rannveigar sem er allt í senn viðkvæm, kímin og þvermóðskuleg. Donna Cruz, sem leikur Agnesi, ryður sér til rúms með glæsibrag í sínu fyrsta stóra hlutverki. Auðvitað er ánægjulegt að sjá Íslending af erlendum uppruna í svona hlutverki þegar maður hefur ekki tölu á því hversu oft maður hefur séð Íslendingum, sem eru ekki hvítir, skipað í hlutverk glæpamanna og mansalsfórnarlamba.

Í frábæru atriði undir lok myndar, sem er best að spilla ekki alveg fyrir áhorfendum, verður Agnes fyrir því að íslenskur karlmaður dregur vissar ályktanir um hana vegna útlits hennar. Agnes stingur rækilega upp í hann sem er ótrúlega skemmtilegt. Ég efast ekki um að allar konur, sem hafa lent í óviðeigandi athugasemdum frá körlum og óskað sér að þær hefðu svarað með einhverri baneitraðri pillu, upplifi þetta sem mikið siguraugnablik.

Aukapersónurnar eru hver annarri skemmtilegri. Anna Kristín Arngrímsdóttir er alveg dásamleg í hlutverki ömmunnar, sem er stjórnsöm og gríðarlega taktlaus. Þorsteinn Bachmann er að vanda góður en hann leikur Einar, eiginmann Rannveigar, vinalegan en fremur lífsleiðan mann. Björn Hlynur er svo algjörlega kostulegur sem leikarinn Hreinn. Persónan er brjálæðislega fyndin, listakarl sem er við það springa undan eigin egói. Allir halda að hann sé voða næs en almennilegheitin eru augljóslega bara yfirvarp, í raun er honum sama um allt nema að ná sínu fram. Búningavalið fyrir Hrein kórónar svo þetta allt saman og gerir það að verkum að þú veist nákvæmlega hvaða týpa þetta er; manni finnst eins og maður hafi margoft séð þennan gaur á stjákli um bæinn, án þess þó að persónan vísi beint til einhvers ákveðins einstaklings úr veruleikanum.

Myndin hefur marga styrkleika en ef maður ætti að finna helsta styrk myndarinnar þá tel ég að hann felist í gríðarlegri virðingu fyrir smáatriðum. Sem dæmi má nefna að í einni senu tekur pabbinn mjólkurfernu úr ísskápnum, tæmir úr henni í kaffibollann sinn og setur svo tóma fernuna aftur í ísskápinn. Rannveig segir ekki neitt við þessu en lætur vanþóknun sína í ljós með augnagotum og líkamsburði. Fyrir vikið uppskar þetta pínulitla augnablik mikil hlátrasköll og ég heyrði enduróm í kollinum á mér af minni eigin móður að bölsótast yfir tómum fernum í ísskápnum. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum um vönduð smáatriði sem gera myndina extra fyndna og extra sannfærandi.

Tónlistin í myndinni er reglulega góð en hún eftir hina hæfileikaríku tónlistarkonu Jófríði Ákadóttur, sem hefur gefið út tónlist undir listamannsnafninu JFDR og með hljómsveitunum Pascal Pinon og Samaris. Jófríður hefur áður samið tónlist fyrir stuttmyndir en þetta er í fyrsta sinn sem hún semur fyrir mynd í fullri lengd. Þetta tekst virkilega vel og ljóst að Jófríður á framtíðina fyrir sér á þessu sviði.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR