Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason var valin besta leikna kvikmyndin á hinni virtu kvikmyndahátíð í Hamptons í Bandaríkjunum. Þar að auki hlaut Ída Mekkín Hlynsdóttir sérstaka viðurkenningu dómnefndar fyrir leik sinn í myndinni.
Hvítur, hvítur dagur var frumsýnd á Critics‘ Week, hliðardagskrá Cannes hátíðarinnar í maí síðastliðnum, þar sem Ingvar Sigurðsson var valinn besti leikarinn fyrir leik sinn í myndinni. Á dögunum hlaut myndin sérstaka viðurkenningu dómnefndar í flokknum besta alþjóðlega myndin á Zurich Film Festival í Sviss, en myndin hefur nú hlotið alls sex alþjóðleg verðlaun.
Hvítur, hvítur dagur er framlag Íslands til Óskarsverðlauna á næsta ári í flokki kvikmynda á erlendu tungumáli. Þá er hún einnig framlag Íslands til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár, ásamt því að myndin hefur verið valin sem ein af 46 kvikmyndum í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin í ár.