Framleiðandinn Katja Adomeit með fyrirlestur á RIFF

Katja Adomeit framleiðandi.

Katja Adomeit framleiðandi er einn af heiðursgestum RIFF og heldur fyrirlestur í Norræna húsinu föstudaginn 4. október kl. 16. Nokkrir aðrir stíga einnig á stokk á þessari uppákomu sem kallast RIFF Talks.

Katja er þýskur framleiðandi sem býr í Danmörku og Þýskalandi. Hún hefur sérstakt dálæti á þeirri hlið framleiðslunnar sem snýr að sköpun og fjármögnun. Katja er stöðugt á höttunum eftir nýjum hugmyndum og ólíkum aðferðum við þróun og framleiðslu, sem gefa nýja og óvænta niðurstöðu. Katja er meðal annars þekkt fyrir myndirnar Wolf and Sheep, The Orphanage, The Weight of Elephants, Force Majeure og The Square. Hún hefur starfað víða um lönd, þar á meðal í Afganistan, Tadsíkistan, Þýskalandi, Frakklandi, Rússlandi, Úkraínu og á Nýja Sjálandi. Hún stofnaði sitt eigið framleiðslufyrirtæki, Adomeit Film, í Danmörku og Þýskalandi þar sem hún framleiðir alþjóðlegar leiknar kvikmyndir með sérstaka áherslu á listrænar myndir eftir ungt kvikmyndagerðarfólk frá öllum heimshornum. Markmið Kötju er að sameina list og afþreyingu. Á RIFF verða sýndar þrjár myndir úr fórum hennar: The Orphanage (Munaðarleysingjahælið) sem keppir í Vitrunum, Team Hurricane (Stormsystur) og Resin (Kvoða).

Aðrir sem koma fram á RIFF Talks eru Davíð Óskar Ólafsson framleiðandi hjá Mystery, Þórður Pálsson leikstjóri, Zeina Abi Assy sérfræðingur í gagnvirkri miðlun og Nanna Kristín Magnúsdóttir leikstjóri og handritshöfundur.

Sjá frekari upplýsingar um viðburðinn hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR