Gamanmyndahátíð Flateyrar verður haldin í fjórða sinn dagana 19.-22. september. Þar verða sýndar gamanmyndir frá öllum heimshornum auk þess sem boðið verður upp á leiksýningar, uppistand, tónleika og matarveislur. Einnig gefst tækifæri til að gera gamanmynd á 48 stundum og sýna hana á hátíðinni.
Í gamanmyndakeppninni fá þátttakendur 48 klst. til að fullgera gamanmynd frá hugmynd að frumsýningu. 48 stunda kvikmyndakeppnir hafa verið haldnar víða um heim, en nú í fyrsta sinn á Íslandi.
Fyrirkomulagið er svona:
- Liðin skulu skipuð þremur þátttakendum, hvert lið fær ókeypis gistingu fyrir þrjá á Flateyri og þrjú hátíðararmbönd á Gamanmyndahátíðina (liðum er þó heimilt að styðjast við fleiri aðstoðarmenn og leikara).
- Miðvikudaginn 18. september verður leikstjórinn Arnór Pálmi Arnarson, leiðbeinandi keppninnar, með örnámskeið í gamanmyndagerð. Að því loknu verður þema ársins kynnt og klukkan byrjar að telja niður. Arnór Pálmi verður liðunum innan handar bæði varðandi handritsgerð, tökur og klippingu á meðan á ferlinu stendur.
- Fullkláruðum gamanmyndum þarf að skila inn föstudagskvöldið 20. september.
- Liðin þurfa sjálf að útvega sér tökubúnað en mögulegt verður að komast í klippitölvur Lýðskóla Flateyrar.
- Myndirnar verða að því loknu sýndar á Gamanmyndahátíðinni þar sem fyndnasta 48 stunda gamanmyndin verður verðlaunuð.
Til að sækja um þátttöku þarf að fylla út umsóknarform hér. Umsóknarfrestur er til 5. september.