Hlynur Pálmason: Talað við hina dauðu

Hlynur Pálmason leikstjóri.

Hlynur Pálmason ræðir við Morgunblaðið um Hvítan, hvítan dag.

Úr viðtalinu:

Hlyn­ur leig­ir húsið sem Ingi­mund­ur er að gera upp í mynd­inni, er að byggja það upp og ætl­ar sér að hafa þar eins stór­an hluta af kvik­mynda­eft­irvinnslu og mögu­legt er og stefn­ir líka að því að bjóða þar upp á vinnu­stofudvöl. Í upp­hafi mynd­ar sýn­ir Hlyn­ur með áhuga­verðum hætti hvernig tím­inn líður frá and­láti eig­in­konu Ingi­mund­ar. Húsið er sýnt frá sama sjón­ar­horni í alls kon­ar veðri og árstíðirn­ar líða hjá, hver af ann­arri, með sínu skini, skúr­um og snjó­komu. Hlyn­ur seg­ist kunna bet­ur við þessa aðferð en að birta texta sem segi hversu langt sé um liðið.

Allt jafn­mik­il­vægt

„Ég hef alltaf verið svaka­lega upp­tek­inn af þess­ari bíóupp­lif­un. Þú ert lokaður inni í stóru svörtu rými með risa­stór­um skjá og ert með hljóð allt í kring­um þig. Þannig að þú get­ur búið til rosa­lega kraft­mikla upp­lif­un sem er ekki bara byggð á narra­tíf­um söguþræði held­ur líka hreyf­ingu, birtu, lit­um og fleiru,“ seg­ir Hlyn­ur um kvik­myndalist­ina.

Hann bend­ir á að þeir sem stundi sjón­ræn­ar list­ir, mynd­list og kvik­mynda­gerð, fái oft að heyra að mynd­in skipti mestu máli. „Hún hef­ur aldrei gert það fyr­ir mér,“ seg­ir Hlyn­ur, hon­um hafi alltaf þótt áhuga­verðast að allt sé jafn­mik­il­vægt í kvik­mynda­gerð; hljóðið jafn­mik­il­vægt hinu sjón­ræna, text­inn jafn­mik­il­væg­ur per­són­un­um og per­són­urn­ar jafn­mik­il­væg­ar söguþræðinum. „Ef eitt­hvað virk­ar ekki þá virk­ar ekki heild­in,“ bend­ir hann á.

Leikstjóri, leikarar og aðrir þeir helstu sem komu að gerð ...
Leik­stjóri, leik­ar­ar og aðrir þeir helstu sem komu að gerð mynd­ar­inn­ar á frum­sýn­ingu henn­ar í Cann­es í maí síðastliðnum.

Eng­in end­ur­lit

– Mér finnst frá­sagnaraðferðir þínar áhuga­verðar í mynd­inni, þú sýn­ir til dæm­is nær­mynd­ir af hlut­um sem tengj­ast eig­in­konu Ingi­mund­ar þegar verið er að tala um hana í stað þess að sýna þann sem tal­ar eða mynd­ir af henni. Er þetta eitt­hvað sem þú lærðir í skóla eða tókst upp eft­ir ákveðnum leik­stjór­um? Hvaðan kem­ur þessi aðferð?

„Ég veit það ekki en ég reyndi þessi ár sem ég var í skóla að finna mitt eigið tungu­mál, ef maður get­ur sagt sem svo. Ég komst að því mjög snemma að auðvitað væri ég inn­blás­inn af mörg­um hlut­um, lista­mönn­um og fólki og reyndi virki­lega að finna mitt eigið tungu­mál því ég vissi að það myndi alltaf verða lang­mest spenn­andi ferlið fyr­ir mig og framtíðina. En ég hef alltaf verið mjög upp­tek­inn af hlut­um og hlut­ir hafa áhrif á mig þannig að mér fannst spenn­andi að sýna kon­una hans, sem er far­in, á ein­hvern hátt sem væri áhuga­verður en myndi ekki fel­ast í end­ur­liti,“ út­skýr­ir Hlyn­ur. Hann hafi aldrei upp­lifað sjálf­ur end­ur­lit og telji þá aðferð óá­huga­verða kvik­myndaklisju sem skili litlu. Hann vilji held­ur skapa ákveðinn heim og láta áhorf­end­ur búa til sína eig­in mynd af per­són­unni. „Fólk lif­ir svo ólíku lífi og hef­ur ólík­ar til­finn­ing­ar og til­finn­ingaróf. Það verður að vera pláss fyr­ir ein­stak­ling­inn til að ímynda sér.“

Tvenns kon­ar ást

– Hvaðan kem­ur þessi saga af Ingi­mundi?

„Þegar ég var bú­inn með Vetr­ar­bræður, fyrstu kvik­mynd­ina mína, sem var saga um vönt­un á ást, að þrá að vera elskaður og þráður en fá þá þrá ekki upp­fyllta, var ég far­inn að fá mik­inn áhuga á tvenns kon­ar ást. Ein gerðin er þessi sak­lausa, ein­falda og skil­yrðis­lausa ást barns eða barna­barns og hin gerðin er miklu flókn­ari, þar er ástríða og hún teng­ist maka. Mig langaði mikið að vinna með þess­ar tvær gerðir af ást og setja þær sam­an, láta þær vinna á móti og með hvor ann­arri. Þá byrjaði hægt og ró­lega að mót­ast þessi saga um Ingi­mund sem var skil­inn eft­ir með fullt af til­finn­ing­um sem hann nær ekki að vinna úr, sorg og reiði og seinna meir þenn­an stóra efa um hvað þau áttu sam­an. Hvort þetta hafi verið ekta eða allt ein­hver svik.“

Hlyn­ur seg­ir fólk oft tala um að tím­inn lækni sár á borð við þau sem hljót­ast af fram­hjá­haldi. „Ég held að þetta sé nokkuð sem við lif­um með og muni aldrei fara og er part­ur af því sem ger­ir okk­ur að áhuga­verðum mann­eskj­um.“

Óþægi­leg­ar spurn­ing­ar

Í mynd­inni fer Ingi­mund­ur til sál­fræðings og greini­lega ekki af fús­um og frjáls­um vilja. Sál­fræðitím­inn minn­ir í raun meira á yf­ir­heyrslu en sam­tal, spurn­ing­arn­ar óþægi­leg­ar og Hlyn­ur er spurður hvaða hlut­verki sál­fræðing­ur­inn gegni í frá­sögn­inni. „Ég held hann hafi komið mér svo­lítið á óvart þegar ég fór að skrifa. Það var eins og hann væri að spyrja sögu­hetj­una alls kyns spurn­inga sem ég var að velta fyr­ir mér og hægt og ró­lega varð hann að karakt­er. Mér fannst eins og því lengra sem maður færi inn í mynd­ina því meira mætti hann segja,“ svar­ar Hlyn­ur.

Ekki er þó allt há­drama­tískt í mynd­inni, sumt býsna spaugi­legt. Hlyn­ur seg­ir það með vilja gert og blaðamaður and­ar létt­ar. „Mér finnst gott að fólki þyki eitt­hvað fyndið og það er mik­ill húm­or í mynd­inni. Ég hef alltaf haft gam­an af því þegar fólk veit ekki hvort það á að hlæja en hlær samt. Þegar al­vara og húm­or er mjög ná­lægt hvort öðru og maður sér ekki mörk­in, ég hef alltaf haft gam­an af þannig húm­or og mér fannst sjálf­um mjög fyndið að taka upp marg­ar sen­ur, fannst ótrú­lega gam­an að gera þær marg­ar,“ seg­ir Hlyn­ur kím­inn.

Ingi­mund­ur ráðgáta

Hlyn­ur skrifaði hand­ritið með Ingvar í huga en Ingvar lék í stutt­mynd sem var loka­verk­efni Hlyns í Danska kvik­mynda­skól­an­um. „Við unn­um rosa­lega vel sam­an og mér fannst eins og það væri svo margt sem við gæt­um gert sem við vær­um ekki bún­ir að prófa,“ seg­ir Hlyn­ur um leik­ar­ann. Mögu­leik­arn­ir hafi verið mikl­ir og hann hafi langað að skrifa lengri mynd fyr­ir Ingvar. „Ég byrjaði að þróa og skrifa hand­ritið með hann í huga og dótt­ur mína, Ídu Mekkín. Ég spurði hann mjög snemma hvort hann væri til í þetta og hann var 100% með. Það gef­ur manni mikið að vita að ein­hver sé að skoða og lesa og sé með manni í þessu. Það gef­ur manni ákveðinn kraft.“

Hlyn­ur seg­ir að sér þyki mest spenn­andi ef eitt­hvað sé falið og þess virði að kanna frek­ar. „Það skipt­ir mig gríðarlega miklu máli að ég viti ekki allt þannig að fyr­ir mér var Ingi­mund­ur oft líka dá­lít­il ráðgáta. Ég skildi ekki alla hans hegðun og ætlaðist ekki til þess að Ingvar gerði það held­ur en sum­ir leik­ar­ar eru svaka­lega góðir að lesa hand­rit og lesa aðeins dýpra. Mér fannst hann skilja allt svo vel að þessi díal­óg­ur með karakt­era og allt sam­an varð mjög eðli­leg­ur. Ég las ein­hvers staðar að maður ætti að halda höfðinu köldu og hjart­anu heitu og mér finnst það lýsa ferl­inu einna best.“

Per­sónu­leg kvik­mynda­gerð

– Ég ræddi við kvik­mynda­fróða mann­eskju eft­ir sýn­ingu mynd­ar­inn­ar og hún sagðist m.a. sjá teng­ing­ar við gömlu rúss­nesku meist­ar­ana, Andrei heit­inn Tar­kofskíj til dæm­is. Hef­urðu orðið fyr­ir áhrif­um frá þeim?

„Ég man al­veg eft­ir því að hafa séð, eins og þú nefnd­ir, Tar­kofskíj, man eft­ir því að það hafi haft áhrif á mig af því mér fannst ein­hver vera að gera mjög per­sónu­lega sögu. Þetta var per­sónu­leg kvik­mynda­gerð sem ég þekkti kannski ekk­ert fyr­ir þann tíma,“ svar­ar Hlyn­ur. Þessi teg­und kvik­mynda sé bæði áhuga­verð og geti náð til margra. „Ég man eft­ir að hafa séð Tar­kofskíj í fyrsta sinn og er viss um að það hafi litað mig á ein­hvern hátt.“

Fal­legt, falið og dul­ar­fullt

Tit­ill mynd­ar­inn­ar er bæði ljóðrænn og for­vitni­leg­ur og í texta í upp­hafi mynd­ar fær áhorf­and­inn ákveðna skýr­ingu á hon­um. Að þegar allt sé hvítt og him­inn og jörð mæt­ist geti maður talað við hina dauðu. Þá er hvít­ur, hvít­ur dag­ur.

Hvíti lit­ur­inn, eða lit­leysið öllu held­ur, er líka áber­andi í Vetr­ar­bræðrum og seg­ist Hlyn­ur ekki vita hvort hann sé að leita í hvít­an en hann leiti hins veg­ar alltaf í það sem er falið. „Al­veg sama hvort það er lands­lag eða and­lit; ef það er eitt­hvað falið held­ur það mér í gangi,“ út­skýr­ir hann. „Ég fann þegar ég var að leita að töku­stöðum og var að keyra í Odds­skarði, sem er hár fjall­veg­ur, að þegar þar er skýjað er hvítaþoka. Og það er eitt­hvað við það að standa úti í dúna­logni og hvítaþoku, eitt­hvað stór­kost­lega fal­legt en á sama tíma eitt­hvað falið og dul­ar­fullt,“ seg­ir Hlyn­ur.

Hlyn­ur er þegar far­inn að vinna að næstu kvik­mynd. „Við erum að þróa verk­efni sem heit­ir Volaða land eft­ir ljóði Matth­ías­ar Jochumsson­ar. Það er verk­efni sem ég hef verið að þróa frá 2014 og byrjaði á á svipuðum tíma og Hvít­um, hvít­um degi. Þetta er stórt og metnaðarfullt verk­efni sem krefst gríðarlegs und­ir­bún­ings þannig að við erum á fullu í því.“

Viðtalið birt­ist í Morg­un­blaðinu 22. ág­úst 2019.

Sjá nánar hér: Talað við hina dauðu

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR