Hlynur Pálmason ræðir við Morgunblaðið um Hvítan, hvítan dag.
Úr viðtalinu:
Hlynur leigir húsið sem Ingimundur er að gera upp í myndinni, er að byggja það upp og ætlar sér að hafa þar eins stóran hluta af kvikmyndaeftirvinnslu og mögulegt er og stefnir líka að því að bjóða þar upp á vinnustofudvöl. Í upphafi myndar sýnir Hlynur með áhugaverðum hætti hvernig tíminn líður frá andláti eiginkonu Ingimundar. Húsið er sýnt frá sama sjónarhorni í alls konar veðri og árstíðirnar líða hjá, hver af annarri, með sínu skini, skúrum og snjókomu. Hlynur segist kunna betur við þessa aðferð en að birta texta sem segi hversu langt sé um liðið.
Allt jafnmikilvægt
„Ég hef alltaf verið svakalega upptekinn af þessari bíóupplifun. Þú ert lokaður inni í stóru svörtu rými með risastórum skjá og ert með hljóð allt í kringum þig. Þannig að þú getur búið til rosalega kraftmikla upplifun sem er ekki bara byggð á narratífum söguþræði heldur líka hreyfingu, birtu, litum og fleiru,“ segir Hlynur um kvikmyndalistina.
Hann bendir á að þeir sem stundi sjónrænar listir, myndlist og kvikmyndagerð, fái oft að heyra að myndin skipti mestu máli. „Hún hefur aldrei gert það fyrir mér,“ segir Hlynur, honum hafi alltaf þótt áhugaverðast að allt sé jafnmikilvægt í kvikmyndagerð; hljóðið jafnmikilvægt hinu sjónræna, textinn jafnmikilvægur persónunum og persónurnar jafnmikilvægar söguþræðinum. „Ef eitthvað virkar ekki þá virkar ekki heildin,“ bendir hann á.
Engin endurlit
– Mér finnst frásagnaraðferðir þínar áhugaverðar í myndinni, þú sýnir til dæmis nærmyndir af hlutum sem tengjast eiginkonu Ingimundar þegar verið er að tala um hana í stað þess að sýna þann sem talar eða myndir af henni. Er þetta eitthvað sem þú lærðir í skóla eða tókst upp eftir ákveðnum leikstjórum? Hvaðan kemur þessi aðferð?
„Ég veit það ekki en ég reyndi þessi ár sem ég var í skóla að finna mitt eigið tungumál, ef maður getur sagt sem svo. Ég komst að því mjög snemma að auðvitað væri ég innblásinn af mörgum hlutum, listamönnum og fólki og reyndi virkilega að finna mitt eigið tungumál því ég vissi að það myndi alltaf verða langmest spennandi ferlið fyrir mig og framtíðina. En ég hef alltaf verið mjög upptekinn af hlutum og hlutir hafa áhrif á mig þannig að mér fannst spennandi að sýna konuna hans, sem er farin, á einhvern hátt sem væri áhugaverður en myndi ekki felast í endurliti,“ útskýrir Hlynur. Hann hafi aldrei upplifað sjálfur endurlit og telji þá aðferð óáhugaverða kvikmyndaklisju sem skili litlu. Hann vilji heldur skapa ákveðinn heim og láta áhorfendur búa til sína eigin mynd af persónunni. „Fólk lifir svo ólíku lífi og hefur ólíkar tilfinningar og tilfinningaróf. Það verður að vera pláss fyrir einstaklinginn til að ímynda sér.“
Tvenns konar ást
– Hvaðan kemur þessi saga af Ingimundi?
„Þegar ég var búinn með Vetrarbræður, fyrstu kvikmyndina mína, sem var saga um vöntun á ást, að þrá að vera elskaður og þráður en fá þá þrá ekki uppfyllta, var ég farinn að fá mikinn áhuga á tvenns konar ást. Ein gerðin er þessi saklausa, einfalda og skilyrðislausa ást barns eða barnabarns og hin gerðin er miklu flóknari, þar er ástríða og hún tengist maka. Mig langaði mikið að vinna með þessar tvær gerðir af ást og setja þær saman, láta þær vinna á móti og með hvor annarri. Þá byrjaði hægt og rólega að mótast þessi saga um Ingimund sem var skilinn eftir með fullt af tilfinningum sem hann nær ekki að vinna úr, sorg og reiði og seinna meir þennan stóra efa um hvað þau áttu saman. Hvort þetta hafi verið ekta eða allt einhver svik.“
Hlynur segir fólk oft tala um að tíminn lækni sár á borð við þau sem hljótast af framhjáhaldi. „Ég held að þetta sé nokkuð sem við lifum með og muni aldrei fara og er partur af því sem gerir okkur að áhugaverðum manneskjum.“
Óþægilegar spurningar
Í myndinni fer Ingimundur til sálfræðings og greinilega ekki af fúsum og frjálsum vilja. Sálfræðitíminn minnir í raun meira á yfirheyrslu en samtal, spurningarnar óþægilegar og Hlynur er spurður hvaða hlutverki sálfræðingurinn gegni í frásögninni. „Ég held hann hafi komið mér svolítið á óvart þegar ég fór að skrifa. Það var eins og hann væri að spyrja söguhetjuna alls kyns spurninga sem ég var að velta fyrir mér og hægt og rólega varð hann að karakter. Mér fannst eins og því lengra sem maður færi inn í myndina því meira mætti hann segja,“ svarar Hlynur.
Ekki er þó allt hádramatískt í myndinni, sumt býsna spaugilegt. Hlynur segir það með vilja gert og blaðamaður andar léttar. „Mér finnst gott að fólki þyki eitthvað fyndið og það er mikill húmor í myndinni. Ég hef alltaf haft gaman af því þegar fólk veit ekki hvort það á að hlæja en hlær samt. Þegar alvara og húmor er mjög nálægt hvort öðru og maður sér ekki mörkin, ég hef alltaf haft gaman af þannig húmor og mér fannst sjálfum mjög fyndið að taka upp margar senur, fannst ótrúlega gaman að gera þær margar,“ segir Hlynur kíminn.
Ingimundur ráðgáta
Hlynur skrifaði handritið með Ingvar í huga en Ingvar lék í stuttmynd sem var lokaverkefni Hlyns í Danska kvikmyndaskólanum. „Við unnum rosalega vel saman og mér fannst eins og það væri svo margt sem við gætum gert sem við værum ekki búnir að prófa,“ segir Hlynur um leikarann. Möguleikarnir hafi verið miklir og hann hafi langað að skrifa lengri mynd fyrir Ingvar. „Ég byrjaði að þróa og skrifa handritið með hann í huga og dóttur mína, Ídu Mekkín. Ég spurði hann mjög snemma hvort hann væri til í þetta og hann var 100% með. Það gefur manni mikið að vita að einhver sé að skoða og lesa og sé með manni í þessu. Það gefur manni ákveðinn kraft.“
Hlynur segir að sér þyki mest spennandi ef eitthvað sé falið og þess virði að kanna frekar. „Það skiptir mig gríðarlega miklu máli að ég viti ekki allt þannig að fyrir mér var Ingimundur oft líka dálítil ráðgáta. Ég skildi ekki alla hans hegðun og ætlaðist ekki til þess að Ingvar gerði það heldur en sumir leikarar eru svakalega góðir að lesa handrit og lesa aðeins dýpra. Mér fannst hann skilja allt svo vel að þessi díalógur með karaktera og allt saman varð mjög eðlilegur. Ég las einhvers staðar að maður ætti að halda höfðinu köldu og hjartanu heitu og mér finnst það lýsa ferlinu einna best.“
Persónuleg kvikmyndagerð
– Ég ræddi við kvikmyndafróða manneskju eftir sýningu myndarinnar og hún sagðist m.a. sjá tengingar við gömlu rússnesku meistarana, Andrei heitinn Tarkofskíj til dæmis. Hefurðu orðið fyrir áhrifum frá þeim?
„Ég man alveg eftir því að hafa séð, eins og þú nefndir, Tarkofskíj, man eftir því að það hafi haft áhrif á mig af því mér fannst einhver vera að gera mjög persónulega sögu. Þetta var persónuleg kvikmyndagerð sem ég þekkti kannski ekkert fyrir þann tíma,“ svarar Hlynur. Þessi tegund kvikmynda sé bæði áhugaverð og geti náð til margra. „Ég man eftir að hafa séð Tarkofskíj í fyrsta sinn og er viss um að það hafi litað mig á einhvern hátt.“
Fallegt, falið og dularfullt
Titill myndarinnar er bæði ljóðrænn og forvitnilegur og í texta í upphafi myndar fær áhorfandinn ákveðna skýringu á honum. Að þegar allt sé hvítt og himinn og jörð mætist geti maður talað við hina dauðu. Þá er hvítur, hvítur dagur.
Hvíti liturinn, eða litleysið öllu heldur, er líka áberandi í Vetrarbræðrum og segist Hlynur ekki vita hvort hann sé að leita í hvítan en hann leiti hins vegar alltaf í það sem er falið. „Alveg sama hvort það er landslag eða andlit; ef það er eitthvað falið heldur það mér í gangi,“ útskýrir hann. „Ég fann þegar ég var að leita að tökustöðum og var að keyra í Oddsskarði, sem er hár fjallvegur, að þegar þar er skýjað er hvítaþoka. Og það er eitthvað við það að standa úti í dúnalogni og hvítaþoku, eitthvað stórkostlega fallegt en á sama tíma eitthvað falið og dularfullt,“ segir Hlynur.
Hlynur er þegar farinn að vinna að næstu kvikmynd. „Við erum að þróa verkefni sem heitir Volaða land eftir ljóði Matthíasar Jochumssonar. Það er verkefni sem ég hef verið að þróa frá 2014 og byrjaði á á svipuðum tíma og Hvítum, hvítum degi. Þetta er stórt og metnaðarfullt verkefni sem krefst gríðarlegs undirbúnings þannig að við erum á fullu í því.“
Viðtalið birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst 2019.
Sjá nánar hér: Talað við hina dauðu