„Hvítur, hvítur dagur“ framlag Íslands til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs

Ingvar E. Sigurðsson í Hvítum, hvítum degi.

Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason er framlag Íslands til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Tilkynnt var um tilnefningarnar á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Haugasundi í gær. Vinningshafinn verður tilkynntur við hátíðlega athöfn 29. október í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.

Hinar tilnefndu myndir eru:

Ísland: HVÍTUR, HVÍTUR DAGUR (titill á ensku: A White, White Day) eftir Hlyn Pálmason (leikstjórn / handrit), Anton Mána Svansson (framleiðandi)

Í rökstuðningi íslensku valnefndarinnar (Hilmar Oddsson, Börkur Gunnarsson, Helga Þórey Jónsdóttir) segir um myndina:

Í Hvítum, hvítum degi fjallar leikstjórinn Hlynur Pálmason um sálarlífskreppu miðaldra lögreglustjóra sem missir eiginkonu sína sviplega. Ingimar er ófær um að gefa sig sorginni á vald og verður smám saman að skapillum einbúa sem leggur enga rækt við persónuleg tengsl, að frátöldu hjartnæmu sambandi við afastelpuna sína. Karlmennskan er áberandi stef í myndinni en Ingimar er fjötraður af eigin vanmætti til að eiga afdráttarlaus samskipti við samstarfsfólk sitt, sem og dóttur sína og barnabarn, sem vilja sækja til hans samúð og stuðning á tímum mikillar sorgar. Sálarlíf Ingimars endurspeglast í sjónrænni frásagnaraðferð myndarinnar sem er í senn kynleg og ljóðræn. Austfjarðaþokan læðir sér niður fjallshlíðarnar og vofir yfir tilveru Ingimars líkt og draugur eða prísund. Viðsjált eðli þokunnar hefur verið umfjöllunarefni margra af helstu listamönnum Íslands og nærvera hennar vísar þannig í tiltekna skynjun sem einkennir íslenska list. Þungamiðja myndarinnar er áhrifamikill leikur Ingvars E. Sigurðssonar sem hins syrgjandi lögreglustjóra. Frammistaða hans sýnir þögla og djúpa örvæntingu Ingimars með hægum og öguðum hætti sem aðeins er á færi reyndustu leikara.

Danmörk: QUEEN OF HEARTS (titill á frummáli: Dronningen) eftir May el-Toukhy (leikstjórn / handrit), Maren Louise Käehne (handrit), Caroline Blanco og René Ezra (framleiðendur)

Finnland: AURORA (titill á frummáli: Aurora) eftir Miia Tervo (leikstjórn / handrit), Max Malka (framleiðandi)

Noregur: BLIND SPOT (titill á frummáli: Blindsone) eftir Tuva Novotny (leikstjórn / handrit), Elisabeth Kvithyll (framleiðandi)

Svíþjóð: RECONSTRUCTING UTØYA (titill á frummáli: Rekonstruktion Utøya) eftir Carl Javér (leikstjórn / handrit), Fredrik Lange (handrit / framleiðandi)

Kvikmyndaverðlaunin verða veitt mynd í fullri lengd sem framleidd er á Norðurlöndunum og gerð til sýningar í kvikmyndahúsum, ásamt því að hafa mikið listrænt gildi og eiga rætur í norrænni menningu að verulegu leyti, og skara fram úr hvað varðar listrænan frumleika og samtvinna og efla hina margvíslegu þætti formsins svo úr verði sannfærandi og heilsteypt verk. Verðlaunaféð nemur 350 þúsund dönskum krónum (um sex og hálfri milljón íslenskra króna) og skiptist jafnt milli handritshöfundar, leikstjóra og framleiðanda, þetta undirstrikar að kvikmyndagerð sem listgrein er fyrst og fremst afurð náins samspils þessara þriggja þátta.

Sigurvegari Kvikmyndaverðlaunanna í fyrra var íslenska myndin Kona fer í stríð í leikstjórn Benedikts Erlingssonar – en þetta var í annað skiptið Benedikt hampaði verðlaununum eftirsóttu en hann hlaut þau einnig árið 2014 fyrir kvikmynd sína Hross í oss. Á meðal tilnefndra mynda í ár eru nokkrar sem hafa verið frumsýndar á nokkrum af allra mikilvægustu alþjóðlegu kvikmyndahátíðum heimsins undanfarið ár, þ.á.m. hin norska BLIND SPOT (San Sebastian 2018), QUEEN OF HEARTS (Sundance 2019) frá Dönum, og hinn rammíslenska HVÍTUR, HVÍTUR DAGUR eftir Hlyn Pálmason sem var heimsfrumsýnd í hinni virtu hliðardagskrá Critics‘ Week í Cannes 2019 – þar sem Ingvar E. Sigurðsson var valinn besti leikarinn fyrir leik sinn í myndinni. Tvíeykið Hlynur Pálmason leikstjóri og Anton Máni Svansson framleiðandi eru ekki alls ókunnugir verðlaununum, en þeir hlutu báðir tilnefningu fyrir mynd þeirra Vetrarbræður.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR