Vísir birtir forvitnilega úttekt um deilur Sveins M. Sveinssonar í Plúsfilm við Ólaf Eggertsson bónda á Þorvaldseyri varðandi kvikmynd Sveins Eyjafjallajökull Erupts, sem Ólafur sýndi árum saman á Þorvaldseyri og um hálf milljón manna hafa séð án þess að Sveinn hafi fengið nema smotterí í sinn hlut Tekjur af myndinni eru sagðar nema um hálfum milljarði króna.
Klapptré birti frétt um myndina og sýningar á henni 2013.
Úr frétt Vísis, Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar:
Sveinn M. Sveinsson kvikmyndagerðarmaður er afar ósáttur við það hvernig Ólafur Eggertsson bóndi á Þorvaldseyri hefur haldið á málum er varðar Eyjafjallajökull Erupts, heimildamynd sem hann gerði og sýnd hefur verið í sérstökum sýningarsal á bænum. Líklega er um að ræða aðsóknarmestu heimildarmynd Íslandssögunnar en alls hafa um 500 þúsund manns séð hana.
Í greinargerð sem Sveinn hefur unnið segir meðal annars að áætlaðar brúttótekjur stofunnar séu um 500 miljónir króna á því tímabili sem myndin var til sýninga og stofan sem um hana var gerð var opin.
Meinið er að Sveinn hefur ekki séð svo mikið sem eina krónu af hagnaði af aðgangseyri. Þó hann sé rétthafi myndarinnar og gerði hana frá a til ö. Ólafur er skráður sem meðframleiðandi.
Deilurnar eru orðnar langar, ekkert miðar í samkomulagsátt en báðir aðilar eru með lögmannsstofur í málinu, Lex og Logos.
Sjá nánar hér: Svenni í Plúsfilm segir Ólaf bónda hafa hlunnfarið sig um tugi milljóna – Vísir