„Taka 5 fjallar um ferlið við það að taka upp kvikmynd og hið sadíska vald leikstjórans, en þegar öll kurl koma til grafar hafa leikararnir sjálfir valið sér hlutskipti sitt,“ segir kvikmyndarýnir Lestarinnar á Rás 1.
Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar meðal annars:
Taka 5 er nokkuð hefðbundin spunasviðsetning – hvað gerist þegar 5 persónur eru lokaðar inni í rými og skipað að búa til kvikmynd saman? Forsendurnar eru vitaskuld nokkuð lygilegar og plottið nokkuð langsótt en tilgangurinn hér er ekki endilega að gera stórbrotið listaverk heldur er þetta áhugaverð tilraun í kvikmyndagerð og afraksturinn er bara nokkuð trúverðugur.
Taka 5 sýnir að það er hægt að gera frambærilega kvikmynd fyrir mjög lítinn pening en gæði myndarinnar komu mér skemmtilega á óvart, þrátt fyrir nokkuð losaralegan brag á söguþræðinum, hvort sem um kvikmyndina innan kvikmyndarinnar er að ræða eða kvikmyndina sjálfa, og á köflum ansi ýktan leik, þá skiptir það ekki svo miklu máli og ýkti leikurinn er eflaust meðvitað stílbragð. Myndin heldur dampi og góðu flæði þrátt fyrir að mér hafi þótt hún eilítið langdregin á köflum, húmorinn í myndinni var ekki alveg nógu vel þróaður og fínpússaður að mínu mati þótt inn á milli hafi verið góðir sprettir þar sem ég skellti upp úr.
Myndatakan, sviðmynd og búningar voru til fyrirmyndar. Myndheimurinn er brotinn upp með klippum úr kvikmyndinni sem er verið að gera innan kvikmyndarinnar á gamla VHS upptökuvél sem gerir myndina enn frekar kæruleysislega artí og á vel við þá írónísku stemmningu sem ríkir. Taka 5 fjallar í raun um hvað það er að gera kvikmynd og hið sadíska vald leikstjórans, en þegar öll kurl koma til grafar þá hafa leikararnir á endanum sjálfir valið sér hlutskipti sitt.
Sjá nánar hér: Kæruleysislega „artí“ og írónísk stemmning