„Sagan er áræðin og vekur mann til umhugsunar og myndmál er notað á snjallan hátt til að styrkja efniviðinn,“ segir Brynja Hjálmsdóttir í Morgunblaðinu um Tryggð Ásthildar Kjartansdóttur. Almennar sýningar á myndinni hefjast í dag.
Brynja skrifar meðal annars:
Flæðið í byrjun myndarinnar er ögn höktandi og það tekur svolitla stund að sökkva inn í atburðarásina. Þetta skrifast að hluta til á undarlega klippingu og skort á stofnskotum (e. establishing shot), sem þjóna þeim tilgangi að staðsetja áhorfendur í rými og tíma. Hljóðmyndin er líka nokkuð slitrótt og ómarkviss. Þetta batnar hins vegar allt saman þegar líður á og eftir að konurnar eru fluttar inn saman verður flæðið sterkara.
Sagan verður að allegóríu þar sem Gísella og húsið sem hún býr í verður táknmynd valdhafans og jafnvel þjóðríkisins. Gísella gerir stangar kröfur til leigjendanna, hún setur þeim ákveðnar reglur og bregst illa við þegar þeim er ekki framfylgt, en sjálf fer hún hins vegar oft á svig við sínar eigin reglur. Gísella er ekki illa innrætt, raunar hefur hún mjög sterka réttlætiskennd, en hún virðist ekki vera meðvituð um þá miklu forréttindastöðu sem hún er í. Þetta er því (sem betur fer) ekki einfalt ævintýri um hina hjartahlýju hvítu manneskju sem kemur hjálparvana hörundsdökkum aðkomendum til bjargar.
Myndin gerist að langmestu leyti inni í húsinu þar sem konurnar búa. Sviðsmyndin er því nokkuð föst fyrir og fyrir vikið er ákveðinn leikhúsbragur yfir myndinni. Það er ekki þar með sagt að möguleikar kvikmyndamiðilsins séu vannýttir, kvikmyndataka og myndmál er hreint afbragð. Það er skemmtilega unnið með endurtekningar, ákveðnir rammar eða stef birtast endurtekið og þjóna alltaf skýrum tilgangi. Gísella er gjarnan sýnd í spegli, sem vísar til sjálfskoðunar hennar (eða skorts þar á). Einnig má túlka það sem endurspeglun á vangetu Gísellu til að setja sig í spor annarra, þ.e. að spegla sig í öðru fólki. Annað endurtekið stef er að Gísella horfir oft út um gluggann á herberginu sínu, sem staðsetur hana í eins konar fílabeinsturni þar sem hún fylgist með fólkinu á götunni. Lokaskotið í myndinni sýnir Gísellu einmitt þar sem hún horfir út um gluggann og í gluggakistunni stendur stytta af hvítum ránfugli og þar með verður til afar kröftug myndlíking.
Það mæðir mikið á Elmu Lísu í aðalhlutverkinu, hún er í mynd nánast allan tímann, og frammistaða hennar er skörp og marglaga líkt og sagan sjálf. Enid, Raffaella og Claire Harpa, sem fara með hlutverk Abebu, Mariu og Lunu, eru allar nýliðar með litla eða enga reynslu af kvikmyndaleik og miðað við það skila þær feikilega góðu dagsverki. Sérstaklega Claire Harpa, sem býr yfir mikilli útgeislun og túlkar Lunu með glæsibrag.
Tryggð er ekki hnökralaus en hún er samt sem áður vönduð. Sagan er áræðin og vekur mann til umhugsunar og myndmál er notað á snjallan hátt til að styrkja efniviðinn. Þá er mikill fengur að fá frábæra nýliða úr röðum kvenna inn á svið íslenskra frásagnarmynda, sér í lagi leikkonurnar Enid, Raffaellu og Claire Hörpu og leikstjórann Ásthildi Kjartansdóttur.