Morgunblaðið um „Litlu Moskvu“: Kommar og helbláar íhaldskerlingar

Brynja Hjálmsdóttir skrifar um Litlu Moskvu eftir Grím Hákonarson í Morgunblaðið og segir hana vel gerða og þétta með fjölbreyttum og áhugaverðum persónum. Hún gefur myndinni fjórar stjörnur.

Brynja segir meðal annars í umsögn:

Í myndinni birtist fjölbreytt persónugalleríi og viðtöl eru tekin við ýmiss konar fólk úr bænum. Grímur leyfir okkur að dvelja með þessu fólki þannig að áhorfendur kynnast þeim vel. Viðmælendur eru alls ekki alltaf sammála og hér birtast margar mismunandi skoðanir á pólitík og hefur fólk ólíkar væntingar til bæjarins. Þetta er til fyrirmyndar því það er mjög ákjósanlegt, sérstaklega í myndum sem fjalla um pólitík, að þar birtist mörg mismunandi sjónarmið. Einn viðmælandi, Stella Steinþórsdóttir, skilgreinir sig sem „helbláa íhaldskerlingu“. Annar bæjarbúi, sem er iðulega kallaður Gvendur Stalín, er algjörlega á öndverðum meiði. Þótt myndin fjalli um pólitík er hún aldrei predikandi, þetta er fyrst og fremst spegill samfélags og fólks. Engum skoðunum er beinlínis hampað umfram aðrar, allir fá rými til að koma sínu til skila.

Litla Moskva rannsakar hvers konar sósíalismi var við lýði í Neskaupstað. Þetta var fyrst og fremst verkalýðssósíalismi af gamla skólanum, þar sem bærinn átti að sjá til þess að allir í bænum fengju launaða vinnu. Síldarvinnslan, stærsti vinnustaðar bæjarins, var óvenjulegt fyrirtæki sem var að hluta til rekið eins og velferðarstofnun. Allir fengu vinnu í síldinni. Þeir sem gátu lítið unnið fengu samt vinnu og greitt á við aðra. Ef fólk þurfti fyrirframgreiðslu var hún veitt og sú greiðsla var innheimt ýmist seint eða aldrei, ef menn voru illa í stakk búnir til að standa straum af henni. Þessi saga er afar áhugaverð og gaman að læra um þessar sérstöku velferðarsíldarvinnslu.

Í seinni hluta myndar er fjallað um umdeild mál sem standa okkur nær í tíma, líkt og álverið á Reyðarfirði og Norðfjarðargöngin. Þegar er myndin er tekin upp er verið að vinna að göngunum og reglulega eru sýnd myndskeið þaðan. Þetta verður að frásagnarlegu leiðarstefi sem rímar við vangaveltur um framtíð bæjarins, göngin eru táknræn fyrir tengingu Neskaupstaðar við umheiminn.

Það eru mjög falleg náttúruskot í myndinni, enda er Norðfjörður sem Neskaupstaður liggur við með eindæmum fallegt bæjarstæði. Þá kýs Grímur einnig að dvelja við fyrirbæri inni á heimilum viðmælenda og víðar, svo úr verða nokkurs konar kyrralífsmyndir. Inni á milli birtast skemmtileg gömul myndskeið sem sýna lífið í bænum fyrr á tímum, þar sem fólk sinnir landbúnaðar- og fiskvinnslustörfum og undir hljóma skemmtilegar útsetningar á rússneskum baráttusöngvum. Þessi brot eru líkt og myndræn vísun í sovétskar kvikmyndir sem varpa fram rómantískri mynd af hinum hreina og tæra verkalýð.

[…]

Litla Moskva er virkilega vel gerð heimildarmynd. Söguþráðurinn er þéttur, persónurnar eru fjölbreyttar og áhugaverðar og myndatakan er fín. Myndin er rétt tæpur klukkutími og hefði alveg mátt vera lengri og kafa dýpra í þennan ríkulega efnivið.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR