Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson fékk alls fern verðlaun á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck sem lýkur í dag. Þá fékk Sumarbörn Guðrúnar Ragnarsdóttur ein verðlaun. Þetta var í 60. sinn sem hátíðin var haldin.
Kona fer í stríð hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar (NDR Film Prize), áhorfendaverðlaun hátíðarinnar, verðlaun kirkjunnar og Baltic Film Award. Verðlaunafé nemur alls tæpum þremur og hálfri milljón króna, eða 25 þúsund evrum. Sumarbörn hlaut verðlaun fyrir besta barna- og ungmennamyndina. Verðlaunafé var fimm þúsund evrur, eða um 692 þúsund krónur.