Bragi Þór Hinriksson ræðir við Morgunblaðið um gerð kvikmyndarinnar Víti í Vestmannaeyjum, sem verður frumsýnd næstkomandi föstudag. Hann segir krakka kröfuharða kvikmyndagesti.
Úr viðtalinu:
Myndin er gerð eftir samnefndri vinsælli skáldsögu Gunnars Helgasonar. Sagafilm keypti réttinn en Bragi Þór kom inn í verkefnið fyrir um tveimur árum. „Þess var farið á leit við mig að leikstýra bíómynd eftir handriti sem Gunni og fleiri voru búnir að gera eftir bókinni. Ég þekki Gunna og eldmóð hans og lífsgleði og það var strax góð byrjun,“ segir Bragi Þór sem fékk bókina senda í kjölfarið.
„Ég náði ekki að lesa hana alla því ég var að fara í frí með fjölskyldunni. Ég náði mér því í hana sem hljóðbók og hlustaði á hana í bílnum þegar við vorum að keyra út á land. Það var svo gaman því Gunni var að lesa sjálfur. Hann lýsir öllu og er svo æstur og það er svo ofboðslegur kraftur og lífsgleði í því að hlusta á hann lesa bókina að ég bara sá þá strax að ég yrði að gera þetta, sá hvað ég þyrfti að gera og að markið yrði sett hátt. Mig langaði að standast hans kröfur og sýn og skilst á honum á því sem hann hefur séð að það gangi eftir,“ segir hann en stiklan sem var frumsýnd fyrr á árinu lofar sannarlega góðu.
„Þetta er mikil íþróttamynd og fjallar um mótið sjálft en þarna eru líka ofsalegar tilfinningar. Myndin segir frá tíu ára dreng sem fer á stærsta fótboltamót í heimi fyrir stráka á þessum aldri og er fullur af kvíða og óöryggi vegna sinnar eigin frammistöðu því honum finnst hann ekki alveg nógu góður og sjálfstraustið er ekki upp á það besta. Svo tekst hann á við sjálfan sig og aðra og verður óvænt örlagavaldur í lífi annars stráks sem er í ÍBV,“ segir hann en fótbolti og mót virðist vera góður grunnur til að fjalla um ýmsa hluti á borð við liðsheild og sambönd.
„Algjörlega. Og hvað það er sem gerir mann að góðum karakter, að góðri manneskju. Við köfum alla leið ofan í allt þetta. Myndin fjallar um sigur og ósigur, kærleika, vináttu og dug. Það er virkilega langt seilst til að láta fótboltann vera sem eðlilegastan,“ segir Bragi Þór og hrósar krökkunum í myndinni í hástert.
Miklar kröfur
„Það voru yfir 1.000 krakkar sem komu í prufu í það heila. Við fórum til Vestmannaeyja að leita að krökkum og héldum prufur í Langholtsskóla fyrir krakka hvaðanæva. Það var tími sem var rosalega vel varið og við gátum virkilega vandað okkur og ég stóð uppi með rosa gott leikaraval. Það voru engar smá kröfur sem við settum á þau; þau þurftu að kunna að leika, hafa aga og náttúrlega vera framúrskarandi í fótbolta,“ segir hann.
Að vonum skipa fótboltaatriðin stóran sess í myndinni. „Við förum alla leið í því og reynum að skapa þau eins raunveruleg, hættuleg og stór og hugsast getur með tilheyrandi hljóðmynd, tónlist og leik,“ segir hann en jafnframt var heilmikið tekið upp á mótinu sjálfu.
Var það mikil áskorun? „Það hefði aldrei verið hægt nema með frábæru samstarfi við mótsnefndina í Eyjum. Við fengum að skrá liðið okkar inn í mótið, ekki beint til að taka þátt í því heldur til að við næðum myndum af þeim að keppa. Þetta voru fyrirfram æfð atriði, fyrirfram ákveðin og partur af handritinu. Það var yndislegt. Liðið okkar Fálkar keppti við ÍBV, Þór Akureyri, Stjörnuna, Val, Fylki og FH. Þetta var stórkostlegt ævintýri.“
Sú ákvörðun var tekin að búa til nýtt lið, Fálka, sem allir ættu að geta sameinast um þannig að liðshollusta ætti ekki að flækjast fyrir áhorfendum myndarinnar.
„Sú leið var farin en það setur þær kröfur að fólki verður að líða eins og þetta sé alvörulið. Við lögðum okkur í líma við að finna gott nafn og búa til gott merki og hafa búningana þeirra flotta. Helga Rós V. Hannam búningahönnuður hafði veg og vanda af þeim í samstarfi við Errea,“ segir hann og útskýrir að tilgangurinn hafi verið sá að maður geti horft á búningana og hugsað: „Þetta er alvörufótboltalið.“
Himnaríki í Eyjum
Vestmannaeyjar hljóma eins og skemmtilegur bakgrunnur fyrir svona mynd.
„Þetta er stórkostlegt landslag að vinna í, hvert sem maður lítur. Við vorum búin að fara nokkrar ferðir út í Eyjar og finna okkar óskastaði sem okkur fannst hvað myndrænastir. Það er atriði sem gerist á báti úti í hellinum og við erum að fljúga yfir Eyjarnar, yfir hraunið og við lögðum metnað í að finna fallegt hús sem væri heimili Ívars, sem er strákurinn í ÍBV. Við lögðum okkur líka fram við að finna flottar leiðir til að taka upp leikina, fljúga yfir vellina á ákveðinn hátt og koma inn úr Herjólfsdal með svakalegum þyrluskotum. Þetta er bara eins og risastór hollywoodmynd tekin í Vestmannaeyjum,“ segir hann en krakkar eru kröfuharðir kvikmyndagestir.
Mynd fyrir alla ættina
„Það er nú málið, þeir bíógestir sem gera mestar kröfur eru einmitt krakkar. Þeir eru ekkert að pæla í því hvort þetta sé lítil íslensk mynd eða risastór ofurhetjumynd. Þeir gera bara þær kröfur að þessar myndir séu jafnvígar. Við erum svolítið að veðja á það, maður tekur stórt upp í sig en við förum alla leið í þessu. Það eru notaðir allir helstu fagmenn kvikmyndaiðnaðarins og helstu leikarar á Íslandi. Við erum að reyna að gera þetta að íslenskri stórmynd fyrir krakkana og fjölskyldur þeirra,“ segir hann og bætir við að myndin ætti að höfða til breiðs aldurshóps.
„Þetta er ættarmynd, ekki einu sinni bara fjölskyldumynd, það á að halda ættarmót í bíósölum Íslands næstu vikurnar finnst mér,“ segir hann og hlær.
Var eitthvað óvænt sem kom upp við tökurnar síðasta sumar?
„Óveður setti pínu strik í reikninginn; við fengum vont verður fyrsta og annan daginn og það riðlaði tökuplaninu okkar. Það var mjög vel skipulagt og það mátti eiginlega ekkert klikka vegna samninga við mótsnefnd og síðan voru það leikarar sem þurfti að koma út í eyju og aftur til baka,“ segir Bragi Þór en allt gekk upp á endanum.
Sjá nánar hér: Miklar kröfur settar á krakkana