Hagstofan birtir fróðlegt talnaefni á vef sínum um íslenskar bíómyndir 1949-2017. Þar kemur meðal annars fram að þær eru alls 191, konur hafa aðeins leikstýrt 12% þeirra, aðeins um fimmtungur er byggður á bókum, 12% þeirra eru barnamyndir, 40% er samframleiðsla með öðrum þjóðum og spennumyndir sækja verulega á þrátt fyrir að drama og grín sé algengast.
Hlekkur á grein Hagstofunnar er hér.
191 mynd á 68 árum
Hagstofan setur upphafspunktinn við 1949, en þá kom út fyrsta íslenska bíómyndin í lit og með tali, Milli fjalls og fjöru eftir Loft Guðmundsson (Brynjólfur Jóhannesson leikari er skráður fyrir leikstjórn). Strangt til tekið er þetta rétt, en þó hafði Guðmundur Kamban gert tvær langmyndir á þriðja áratugnum, Höddu Pöddu (1924) og Hús í svefni (1926). Sú fyrrnefnda var mynduð hér á landi að mestu og notaðist að nokkru leyti við íslenska leikara en aðallega danska. Sú síðarnefnda var alfarið gerð í Danmörku og báðar fjármagnaðar þaðan. Einnig er rétt að geta fyrstu leiknu íslensku myndarinnar, Ævintýri Jóns og Gvendar (1923) eftir fyrrnefndan Loft Guðmundsson, en hún var stutt.
Í tölunum sem birtast hér að neðan má glögglega sjá hina miklu aukningu í gerð bíómynda eftir aldamótin og hefur fjöldi þeirra vaxið enn á yfirstandandi áratug. Nærri liggur að árlegt meðaltal hafi þrefaldast frá níunda áratugnum.
Íslenskar bíómyndir 1949-2017 - fjöldi eftir áratugum og árlegt meðaltal
1949-1979 | 1980-1989 | 1990-1999 | 2000-2009 | 2010-2017 | 1949-2017 | 1980-2017 | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Fjöldi mynda | 8 | 28 | 33 | 56 | 66 | 191 | 183 | |
Árlegt meðaltal | . | 2,8 | 3,3 | 5,6 | 8,3 | 2,8 | 4,8 |
Rúmlega tíunda hver mynd gerð af konu
Bíómyndir eftir konur eru sjaldséðar, eða aðeins 12% af heildinni. Umræða um þetta hefur verið afar áberandi á undanförnum árum – kannski ekki síst vegna þess að á yfirstandandi áratug hefur enn dregið úr fjölda bíómynda eftir konur. Hlutfall þeirra var mun hærra á níunda og tíunda áratug síðustu aldar, en það hefur minnkað á þessari öld. Góðu fréttirnar eru þó væntanlega þær að þessi misserin er verið að snúa þessari þróun við og vonandi leiðir það til þess að kvenkyns leikstjórum fjölgi verulega á næstu árum.
Íslenskar bíómyndir 1949-2017 - eftir kyni
1949-1979 | 1980-1989 | 1990-1999 | 2000-2009 | 2010-2017 | 1949-2017 | 1980-2017 | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Karlar | 8 | 25 | 26 | 53 | 65 | 177 | 169 | |
Konur | | 5 | 7 | 9 | 4 | 25 | 25 | |
% kvenna | | 17 | 21 | 15 | 6 | 12 | 13 |
Íslenskar bíómyndir eru að langmestu leyti frumsköpun
Það hefur verið útbreidd skoðun að íslenskar kvikmyndir séu að verulegu leyti byggðar á bókmenntaverkum eða öðru áður birtu efni. Þetta er mikill misskilningur, þær eru fyrst og fremst frumsköpun. Aðeins um fimmtungur þeirra eru aðlaganir af áður birtum verkum. Misskilningurinn gæti þó mögulega stafað af því að margar vinsælar myndir eru byggðar á þekktum verkum, t.d. 79 af stöðinni, Land og synir, Útlaginn, Djöflaeyjan, Englar alheimsins, Mýrin og fleiri.
Íslenskt bíó 1949-2017-Byggt á bókmenntaverki (aðlaganir)
1949-1979 | 1980-1989 | 1990-1999 | 2000-2009 | 2010-2017 | 1949-2017 | 1980-2017 | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Fjöldi mynda | 8 | 28 | 33 | 56 | 66 | 191 | 183 | |
Aðlaganir | 6 | 7 | 5 | 10 | 12 | 40 | 34 | |
Hlutfall aðlagana | 75% | 25% | 15% | 18% | 18% | 21% | 19% |
Barna- og fjölskyldumyndir nú árlega að meðaltali
Barna- og fjölskyldumyndir eru um 12% íslenskra bíómynda. Í núverandi Samkomulagi er kveðið á um að áhersla skuli lögð á barnaefni og kappkostað að a.m.k. eitt slíkt verkefni verði framleitt árlega. Segja má að þessu marki hafi verið náð á yfirstandandi áratug (myndirnar eru sjö en þá eru myndir þessa árs ekki með, þannig að alls eru þær níu hingað til á áratugnum).
Íslenskt bíó 1949-2017-barna- og fjölskyldumyndir
1949-1979 | 1980-1989 | 1990-1999 | 2000-2009 | 2010-2017 | 1949-2017 | 1980-2017 | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Fjöldi mynda | 8 | 28 | 33 | 56 | 66 | 191 | 183 | |
Barna- og fjölskyldumyndir | 3 | 2 | 5 | 6 | 7 | 23 | 20 | |
% | 38 | 7 | 15 | 11 | 11 | 12 | 11 |
Íslensk kvikmyndagerð að miklu leyti samvinna með öðrum þjóðum
Í samantekt Hagstofunnar kemur skýrt fram hversu samframleiðsla með öðrum þjóðum er áberandi þegar kemur að gerð íslenskra bíómynda. Hlutfall samframleiddra mynda er lágt á níunda áratugnum en margfaldast á þeim tíunda og hefur haldist hátt síðan. Færa má fyrir því rök að tilkoma samframleiðslu og evrópskra kvikmyndasjóða um og uppúr 1990 hafi að ýmsu leyti bjargað íslenskri kvikmyndagerð, enda varð lítil aukning í fjölda mynda á tíunda áratugnum miðað við þann níunda og Kvikmyndasjóður var afar smár í sniðum og stækkaði ekki að raunvirði fyrr en um og uppúr aldamótum. Flestar stærri myndanna eru enn samframleiðsla en mikil aukning hefur orðið í gerð ódýrari mynda eftir aldamót, sem skýrir lægra hlutfall. Mest er um að þýskir (28 myndir) og danskir (22 myndir) framleiðendur komi að samframleiðslu íslenskra kvikmynda. Því næst koma norskir framleiðendur (19 myndir), þá breskir (16 myndir), sænskir (14 myndir) og franskir (10 myndir). Aðkoma framleiðenda frá öðrum löndum er fátíðari.
Íslenskt bíó 1949-2017-samframleiðsla
1949-1979 | 1980-1989 | 1990-1999 | 2000-2009 | 2010-2017 | 1949-2017 | 1980-2017 | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Fjöldi mynda | 8 | 28 | 33 | 56 | 66 | 191 | 183 | |
Samframleiddar myndir | 1 | 4 | 20 | 25 | 26 | 76 | 75 | |
% | 13 | 14 | 61 | 45 | 39 | 40 | 41 |
Flestar myndir eru dramatískar
Samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar (sem byggð er á flokkun Kvikmyndavefsins, European Audiovisual Observatory (Lumiere Data Base) og IMDb) er drama algengasta frásagnarsniðið (genre – eða greinategund). Rétt um tvær af hverjum þremur myndum flokkast sem slíkar, en rétt er að hafa í huga að drama er hús með margar vistarverur. Gamanmyndir koma því næst, eða fjórar af hverjum tíu myndum og hasar- og spennumyndir í um 16 af hundraði. Mjög hefur fjölgað í síðastnefnda flokknum á síðasta áratug eða svo.
Íslenskt bíó 1949-2017-Frásagnarsnið (genre/greinategundir)
1949-1979 | 1980-1989 | 1990-1999 | 2000-2009 | 2010-2017 | 1949-2017 | 1980-2017 | |||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Fjöldi mynda | 8 | 28 | 33 | 56 | 66 | 191 | 183 | ||
Drama-fjöldi | 5 | 14 | 26 | 36 | 40 | 121 | 116 | ||
Drama-% | 62,5 | 50,0 | 78,8 | 64,3 | 60,6 | 63,4 | 63,4 | ||
Grín-fjöldi | 1 | 11 | 13 | 28 | 28 | 81 | 80 | ||
Grín-% | 12,5 | 39,3 | 39,4 | 50,0 | 42,4 | 42,4 | 43,7 | ||
Hasar, spenna-fjöldi | 1 | 6 | 3 | 6 | 14 | 30 | 29 | ||
Hasar, spenna-% | 12,5 | 21,4 | 9,1 | 10,7 | 21,2 | 15,7 | 15,8 | ||
Glæpir-fjöldi | | | | 2 | 7 | 9 | 9 | ||
Glæpir-% | | | | 3,6 | 10,6 | 4,7 | 4,9 | ||
Ævintýri-fjöldi | 2 | | 2 | 4 | | 8 | 6 | ||
Ævintýri-% | 25,0 | | 6,1 | 7,1 | | 4,2 | 3,3 | ||
Fantasía-fjöldi | | 1 | | | 1 | | 2 | ||
Fantasía-% | | 3,6 | | | 1,5 | | 1,1 | ||
Hryllingur-fjöldi | | | | 1 | 2 | 3 | 3 | ||
Hryllingur-% | | | | 1,8 | 3,0 | 1,6 | 1,6 | ||
Söngvaseiður-fjöldi | | | | 1 | 1 | 2 | 2 | ||
Söngvaseiður-% | | | | 1,8 | 1,5 | 1,0 | 1,1 | ||
Vísindaskáldskapur-fjöldi | | | | | 1 | 1 | 1 | ||
Vísindaskáldskapur-% | | | | | 1,5 | 0,5 | 0,5 |
Sjá nánar hér: Íslenskar langar leiknar kvikmyndir 1949-2017 – Hagstofa