Variety ræðir við Kjartan Þór Þórðarson, forstjóra Sagafilm Nordic, um þáttaröðina Ráðherrann sem nú er í vinnslu. Þáttunum er lýst sem tragíkómedíu um pólitíkus með geðhvarfasýki sem verður forsætisráðherra.
Björg Magnúsdottir, Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson skrifa handrit en þættirnir verða sýndir á RÚV.
Aðalpersónan í þáttunum er ung kona, Hrefna, sem er ráðin sem aðstoðarmaður forsætisráðherrans, Benedikts Ríkharðssonar. Fljótlega rennur upp fyrir henni að Benedikt glímir við geðhvörf. Hrefna verður að fela veikindi hans gagnvart almenningi til að halda starfi sínu, en málin vandast þegar Benedikt hættir að taka lyfin sín vegna þess að þau gera hann sljóan. Manía tekur völdin og hann byrjar að taka einkennilegar ákvarðanir, eins og að reka Þjóðleikhússtjóra í beinni útsendingu, gefa fanga upp sakir upp úr þurru og útiloka einn meðlim ríkisstjórnar sinnar.
„Ráðherrann endurspeglar það sem er að gerast í dag í mörgum löndum, þar sem fólk er svo mikið í mun að losna við gömlu pólitíkusana að það kýs fólk sem það veit næstum ekkert um og situr svo uppi með það,“ segir Kjartan Þór.
Hann bendir einnig á að miklar sviptingar hafi verið í íslenskum stjórnmálum á undanförnum árum þar sem þrjár ríkisstjórnir hafa fallið síðastliðin þrjú ár.
Kjartan Þór segir ennfremur að þó að tragíkómedía muni svífa yfir vötnum verði áherslan meira á dramað og þann skaða sem hlýst af veikindum ráðherrans sem ágerast stöðugt.
Sjá nánar hér: Iceland’s Sagafilm to Produce Political Series ‘The Minister’ (EXCLUSIVE)