Óskar Þór Axelsson og Jóhann Ævar Grímsson ræða „Stellu Blómkvist“

Óskar Þór Axelsson leikstjóri og Jóhann Ævar Grímsson yfirhandritshöfundur Stellu Blómkvist ræða þáttaröðina við Menninguna á RÚV.

Á vef RÚV segir meðal annars:

Leikstjóri syrpunnar, Óskar Þór Axelsson, segir þættina segja nokkrar sögur, eina lengri og þrjár styttri. „Þetta fjallar um ævintýri Stellu sem er tiltölulega nýútskrifaður lögfræðingur þegar við hittum hana og er svona svolítið að harka, reyna að skapa sér nafn. Við fylgjumst með þremur málum, hvert mál sem hún tekur að sér spannar tvo þætti þannig að við erum með þrisvar sinnum tvo þætti. Þetta er eiginlega eins og þrjár bíómyndir en svo er einn bogi gegnum allt líka sem byrjar í fyrsta þætti og leysist í sjötta þætti,“ segir hann.

Handritið skrifa Jóhann Ævar Grímsson, Nanna Kristín Magnúsdóttir og Andri Óttarsson. Jóhann Ævar segir aðalpersónuna margslungna og hafa nokkra sérstöðu. „Stella Blómkvist er svolítið einstök týpa. Hún er alveg fáránlega sjálfstæð og sjálfselsk. Hún er svona manneskja sem hrindir fólki almennt frá og er eiginlega næstum því  andstæðan við alla kosti sem maður býst við hjá kvenpersónu en það er það sem gerir hana ótrúlega sjarmerandi, spennandi og áhugaverða.“

Leikkonan Heiða Rún fer með hlutverk Stellu en leitin að réttu leikkonunni tók hátt í ár, með tilheyrandi prufum fyrir stóran hluta íslenskra leikkvenna á aldrinum 25-35 ára. Óskar Þór segir seríuna standa og falla með aðalleikonunni.

„Að finna Stellu var alveg stóra málið vegna þess að hún er í eiginlega hverri einustu senu. Einu undantekningarnar er þegar hún heyrir af einhverju sem hefur gerst áður, þá sjáum svipmyndir af því, en allar aðrar senur eru með Stellu innanborðs. Þess utan er hún með talsetningu yfir öllu, hún segir söguna. Þannig að við vissum að ef það er ekki nógu sannfærandi manneskja að leika Stellu sem virkar ekki þá bara er þessi sería kolfallin.“

Gefnar hafa verið út 10 bækur um Stellu Blómkvist, en efniviðurinn í fyrstu sjónvarpsþáttaseríuna fæst aðallega úr fyrstu bókinni. „Við bætum náttúrulega slatta við vegna þess að við notum í grunninn bara fyrstu bókina en prjónum eiginlega tvær nýjar sögur. Þetta helgast svolítið af því fyrsta bókin kemur út ’97 og við þurftum svolítið að nútímavæða hana og finna nýja leið að henni þannig að hún geti virkað í okkar samtíma. Það er mikið af vídjóspólum og hlutum sem gætu leystst mjög auðveldlega með einu símtali í gsm síma í bókinni,“ segir Jóhann Ævar.

Sjá nánar hér: Stella Blómkvist: sjarmerandi og sjálfselsk

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR