Norrænir sjónvarpsframleiðendur ættu að snúa sér að öðru en „Nordic noir“ sem er orðið útvatnað vörumerki, að mati framleiðenda sjónvarpsþátta á borð við Forbrydelsen og Skam. Mestu skipti að finna og segja sögur sem skipti áhorfendur heima fyrir máli. Fjallað er um þetta í Menningunni á RÚV.
Rætt er við Piv Bernth, yfirmann leikins efnis hjá DR, sem segir Nordic noir fyrst og fremst vera vörumerki sem aðrir hafi búið til eftir á. Bernth segir ennfremur:
„Ég tel að viðtökurnar sem norræna efnið hefur fengið byggi á góðri frásögn; nefnilega að persónusköpunin er flókin. Við höfum verið mjög fær í því á Norðurlöndum að sýna fólk sem er fólk. Það ekki einhliða, ekki alvont, ekki hetjur eða skúrkar, heldur allt saman eins og við öll. Höfundar okkar eru líka færir sagnamenn og segja fleiri sögur en bara eina. Það eru margar sögur í þáttunum, það finnst mér frábært.“
Einnig er talað við Marianne Furevold, aðalframleiðanda og höfund Skam. Furevold segir meðal annars:
„Þegar við unnum að SKAM vissum við því að við réðum yfir góðri frásagnaraðferð en að allur heimurinn tæki SKAM upp á arma sína kom okkur algjörlega á óvart. Það allra mikilvægasta er að segja sögu sem þykir ósvikin og raunveruleg hjá markhópnum. Við förum því rækilega ofan í efnið og fengum heimild hjá NRK til að verja miklum tíma í rannsóknir og komast að því hvað væri á seyði í markhópnum.“
Báðar ráðleggja íslenskum sjónvarpsframleiðendum að segja sögur sem Íslendingum finnist áhugavert, fremur en að eltast við það þeir ímynda sér að alþjóðlegi markaðurinn leiti eftir.
Bernth segir einnig að Íslendingar hafi stimplað sig rækilega inn með Ófærð.
„Mér sýnist að þeir séu komnir í gang til að vera með og þá á ekki að gera eins og hinir. Halda sig innan landamæra sinna og segja sína eigin sögur. Og hér hljóta að vera margar sögur.“
Sjá nánar hér: „Nordic noir“ er búið að vera