spot_img

RIFF 1: Ástarskortur og typpaslagur

Rammi úr Vetrarbræðrum.

Ásgeir H. Ingólfsson skrifar um Vetrarbræður Hlyns Pálmasonar og Untitled eftir Michael Glawogger, sem báðar eru sýndar á RIFF 2017.

Við erum stödd í danskri kalknámu. Það er óljóst hvenær nákvæmlega – annað hvort á níunda áratugnum eða snemma á þeim tíunda, ef marka má ofgnóttina af VHS-vídjóspólum og skortinn á tölvum og farsímum. Og það slær mann raunar hversu mikil forneksja þetta er.

Það er dimmt og kuldalegt í námunni – en það er ennþá kuldalegra ofanjarðar. Enda heitir myndin Vetrarbræður og þessi vetur er alltumlykjandi. Undirtitillinn er „A lack of love story“ – ástarskortssaga. Sem er hárrétt og jafnvel mætti halda því fram að aðalvandinn sé skortur á hlýju, því án hennar kviknar engin ást.

Þetta er kaldranalegur karlavinnustaður þar sem hlýjan í öllum mannlegum samskiptum er við frostmark, kaldur veturinn verður hlýlegur í samanburðinum. Tréin veita skjól sem köld náman og mannabústaðir veita ekki.

Þarna vinna bara karlar – eina konan í myndinni er stelpa sem bræðurnir verða auðvitað báðir skotnir í, þótt hlutverk hennar risti svosem varla dýpra en að vera viðfang hrifningar þeirra, við fáum aldrei að vita mikið um hvernig hlutskipti það er að vera kona í svona harðneskjulegri karlaveröld.

Stillimyndir hreyfast

Hlynur Pálmason leikstjóri hefur einnig starfað sem ljósmyndari og myndlistarmaður og sá bakgrunnur er bæði styrkur og veikleiki myndarinnar. Myndbygging myndarinnar er oft mögnuð sem og hljóðið, á köflum hugsar maður frekar um ljósmyndir á hreyfingu frekar en kvikmynd. Þá notar hann meðul ljósmyndanna sem sjaldan sjást í kvikmyndum skemmtilega, seint í myndinni er til dæmis hálfgerð portrett-sería af helstu persónum sem þjónar sögunni merkilega vel og upphafsatriðinu líkur á því að verkamennirnir skilja hjálma sína eftir að vinnudegi loknum og hægt og rólega myndast það listaverk sem sést á veggspjaldi myndarinnar og vísar í frægt verk Sigurðar Guðmundssonar.

En stundum vantar orðin, já, eða allavega söguna. Sérstaklega framan af. Framan af er aðalpersónan Emil hálfpartinn eins og mállaust dýr, þótt hann myndi einstöku setningar – við öðlumst lítinn skilning á gjörðum hans og þótt við fylgjum honum mestalla myndina tekst myndinni framan af illa að setja mann í spor hans.

Svo koma ákveðin skil, þar sem heimurinn snýst endanlega gegn honum, og þau skil hefjast fyrir alvöru með ansi mögnuðu og kvalafullu atriði – en atriði sem hefði verið svo miklu magnaðra ef manni væri ekki svona sama um hann Emil.

En merkilegt nokk fer maður aðeins að finna til með honum uppfrá þessu. Við fáum í kjölfarið aðeins að sjá inní hausinn á honum í óvenjulegri og sterkri draumsenu, stílbroti sem gengur merkilega vel upp, þar sem hann liggur í vetrarauðninni, nær dauða en lífi, og draumurinn um stúlkuna, um ástina sem hann mun aldrei njóta, er færður í orð.

Seinna í myndinni fáum við svo að heyra staðfærða útgáfu af sögunni um hundinn sem beið eftir eiganda sínum sem aldrei kom til baka, hundinum sem beið þangað til hann veslaðist upp og dó. Sögumaðurinn þykist ekki alveg skilja boðskap sögunnar – en hann lýgur því, hann er að beina henni að Emil – og við áttum okkur á því að Emil er hundurinn í sögunni.

Hann er óstýrilátur og hlýðir illa, geltir á sinn hátt, og hefur það takmarkaða tilfinningagreind að hann á aldrei séns í þessari harðneskjulegu veröld. Við vitum aldrei af hverju, skortur á ást og hlýju í bland við skort á menntun líklega, mögulega hefði hann fengið einhverja greiningu nú til dags – en þetta er maðurinn sem dýr, vinnudýr – og það eru þeir allir þótt hinir leiki hlutverk fúnkerandi manneskju betur.

Þannig kallast myndin að mörgu leyti á við þá mögnuðu sænsku mynd Yarden (sem ég skrifaði um hér), en munurinn er kannski helst sá að þótt vinnan afmennski í báðum myndum þá grunar mann að hér hafi afmennskunin hafist fyrr. Það eru fá merki um uppalendur eða skóla eða vini sem byggja menn upp áður en grimm veröldin brýtur þá niður aftur – og sænska ljóðskáldið í Yarden er nógu gáfaður til að átta sig á hlutskipti sínu – þótt hann sé of framtakslaus og komplexaður til að gera mikið í því. Emil hins vegar hefur ekki til að bera þær gáfur og/eða menntun til að átta sig almennilega á hlutskipti sínu, hann er týndur í kaldranalegum heimi sem hann ræður ekki við.

Þannig sýna myndirnar sitt hvora myndina af mállausum afmennskuðum verkamanni á árum síðkapítalismans, sem hefur mótað sitt eigið landslag og náð að verða kuldalegri en sjálfur veturinn. Þá fjallar Vetrarbræður einnig um þá skrítnu karlmennsku sem þróast á svona vinnustöðum – og tákngerving þess er hvernig menn taka typpin út í tíma og ótíma – og á einhvern öfugsnúinn hátt er ein kærleiksríkasta sena myndarinnar mögulega þar sem þeir bræðurnir slást heiftarlega, kviknaktir (fyrir utan einar nærbuxur á öðrum þeirra).

Nafnlaus minning um leikstjóra

Vetrarbræður var opnunarmynd RIFF og því sú fyrsta sem ég sá – en á hátíðinni er raunar einnig sýnd myndin heimildamyndin Untitled, sem ég sá á kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary síðasta sumar og ræddi um í Tengivagninum á Rás 1. Við skulum ljúka þessum pistli á að endurbirta þá umfjöllun – en pistilinn allan má lesa hér.

„Austurríski leikstjórinn Michael Glawogger fór út í heim með það markmið að þvælast um í heilt ár og taka upp myndefni. Hann orðaði þetta svo: „Ég vil gefa sýn á heiminn sem getur aðeins komið í ljós ef maður er ekki að eltast við neitt ákveðið þema, án þess að dæma, með því einu að halda áfram stefnulaust. Að þvælast með ekkert plan annað en að fylgja eigin forvitni og innsæi.“

Hann þvældist um Balkanskagann, Ítalíu og Afríku – en eftir fjóra mánuði komst hann ekki lengra, hann dó nefnilega úr malaríu í Líberíu árið 2014. Klipparinn hans, hún Monika Willi, gafst þó ekki upp og kláraði myndina með því að klippa það efni sem Glawogger hafði tekið upp á þessum fjórum mánuðum – og sem texta notaði hún dagbókarfærslur og bloggfærslur sem leikstjórinn hafði skilið eftir.

Úr verður dáleiðandi og brotakennd bíómynd, stefnulaus vissulega, við þvælumst ítrekað á milli Evrópu og Afríku, sjáum stráka sparka bolta í Bosníu og sjáum svo krakka, stöku fullorðin og helling af kindum berjast um ruslið þegar því er sturtað á haugana einhvers staðar í Afríku. Þetta eru svipmyndir af lífi á hnettinum okkar í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar, svipmyndir sem eru í senn kunnuglegar og framandlegar. Manneskjan er kannski alls staðar svipuð en aðstæðurnar eru það svo sannarlega ekki.“

 

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR