Starafugl um „Out of Thin Air“: Þunnt loft – og þungt

Snorri Páll skrifar á Starafugl um heimildamyndina Out of Thin Air og segir hana „ekki upp á sérlega marga frumlega fiska, sé litið til þátta á borð við myndbyggingu, klippingu, fagurfræði, tónlist og frásagnaraðferð.“ Hann gagnrýnir einnig harðlega nálgun höfunda gagnvart efniviðnum.

Í umsögn segir meðal annars:

Myndin — sem er breskt-íslenskt samstarfsverkefni, er á ensku að mestu og augljóslega ætluð markhópi utan landhelginnar — er ekki upp á sérlega marga frumlega fiska, sé litið til þátta á borð við myndbyggingu, klippingu, fagurfræði, tónlist og frásagnaraðferð. Talandi hausar leiða áhorfandann í gegnum söguna, í nokkuð nákvæmri tímaröð málsatvika, með stuðningi hraðklippts arkífefnis úr ýmsum áttum, leikinna uppfyllingaratriða, epískra loftmynda af hrjúfu landslagi suðvesturhornsins, og yfirgengilega tilfinningasullandi tónlistar, sem saman skapa fyrirsjáanlegan glæpasögufilter — fótósjoppeffektinn trú kræm — líkt og myndin sé kokkuð, senu fyrir senu, beint upp úr uppskriftabók þess efnis hvernig segja skuli sögu af sakamálaráðgátu í hljóði og mynd.

Upphaf málsins og framvindu þess — í sem holdminnstu máli: mannshvörfunum, handtökunum, rannsókninni, dómunum, baráttunni fyrir endurupptöku — er að mörgu leyti gerð ágæt skil, en óhjákvæmilega innan þeirra takmarkandi girðinga sem umkringja klukkutíma- og hálfslanga kvikmynd um mál þar sem gagnamagnið má telja í tugum metra og ræða ríkissaksóknara fyrir Hæstarétti, ein og sér, var rúmlega tíföld myndinni að lengd. Oft kemur hinn knappi tímarammi, sem krefst þess að upplýsingaskömmtun sé skorin við nögl, ekkert sérstaklega að sök. Inni á milli koma hinsvegar kaflar sem glata hreinlega öllu vægi, einmitt sökum ofangreinds tímaskorts. Þar ber sérstaklega skertan hlut frá borði meinsærishluti málsins — hinar röngu sakargiftir sem þrír sakborninganna hlutu dóm fyrir — en svo kjötlítil er efnisleg umfjöllun um þann hluta málsins að Ríkissjónvarpið sýndi, í kjölfar myndarinnar, tæplega klukkutíma langan þátt Helgu Arnardóttur um einungis hann. Þátturinn var góður, ófáum eflaust mikilvæg upplýsingabót, en sá ófaldi galli er á gjöf Helgu að hún hangir ekki í eftirdragi myndarinnar annars staðar en í Ríkissjónvarpinu — sem er ekki síst slæmt í ljósi þess að meinsærið er einmitt eini hluti málsins sem endurupptökunefnd, í niðurstöðum sínum frá því snemma þessa árs, féllst ekki á að taka upp að nýju.

Meginþráð Out of Thin Air — sem ber undirtitilinn: when murder is just a memory — sem og eiginlega lokaniðurstöðu myndarinnar, má draga saman í fjórum orðum, sóttum í brunn Erlu Bolladóttur, eins sakborninganna, stuttri setningu sem rammar inn frásögnina við upphaf og enda, auk þess sem hún birtist bæði beint og óbeint, í stóru og smáu, gegnum myndina alla: „Minnið er svo skeikult.“ Sem er auðvitað satt: „Minningar eru eins og filmubrot,“ eins og haft er eftir Sævari Marinó Ciesielski, öðrum sakborninganna í bók Stefáns Unnsteinssonar, Stattu þig drengur, frá 1980: „stuttar senur án upphafs og endis; þær geta verið í ýmsum tóntegundum: hrifning, fegurð, ást, hatur, andúð, fyrirlitning, harmur, ótti, vonleysi, tómleiki.“ Og vissulega er hið stórbrotna fyrirbæri, minnisvafaheilkenni, ein af grunnstoðum sálfræðimats Gísla Guðjónssonar, réttarsálfræðings, sérfræðings í óáreiðanlegum og fölskum játningum, á sakborningum málsins —  mats sem spilaði lykilhlutverk í niðurstöðum starfshóps um rannsókn málsins árið 2013 — niðurstöðum sem síðan léku stóra rullu í fyrrnefndri ákvörðun endurupptökunefndar.

En brothætta og skeikulleiki minnisins fela ekki í sér hin stóra lykil að (núverandi, enn lagalega gildandi) niðurstöðu Guðmundar- og Geirfinnsmálsins — heldur þvert á móti kerfisbundin tilraun til alhliða minnisbrenglunar sakborninganna, framkvæmd vísvitandi af rannsóknaraðilunum og fangavörðum, knúin áfram af blöndu einangrunar, svefntruflana, linnulausra hótana, líkamlegs og sálræns ofbeldis. Þeir fangaverðir sem tóku þátt í þessu óumdeilanlega gesamtníðingsverki höfðu gaman af því, eins og Hlynur Þór Magnússon, fangavörður meðan á málinu stóð, segir í myndinni — og það ekki í fyrsta sinn. Af gögnum málsins að dæma, sem og frásögnum sakborninganna, bendir lítið sem ekkert til þess að terrorisminn í Síðumúlafangelsi hafi haft minna afþreyingar- og fróunargildi fyrir rannsóknaraðilana. Og þar beinist linsan aftur að aðstoðaryfirlögregluþjóninum.

Í myndinni „heldur [Hörður] uppi vörnum fyrir kollega sína sem vildu sjálfir ekki tala,“ eins og höfundur myndarinnar, Dylan Howitt, kemst að orði í samtali við Morgunblaðið. Lögreglumennirnir og sakadómarinn, þeir sem héldu um taumana við rannsókn málsins, þeir sem beittu písknum, vildu ekki koma fram í myndinni — ekki frekar en nokkurri annarri umfjöllun sem gerð hefur verið um málið síðustu áratugina — ólíkt þeim sem önnuðust frumrannsóknina á hvarfi Geirfinns Einarssonar. Sú rannsókn skilaði nákvæmlega engu, ef frá er talin sú þjóðarkroppslega móðursýki sem orsakaðist — og hún smitaðist svo sannarlega yfir í Geirfinnsmálsrannsókn hina síðari — af afhjúpun þekktasta listaverks Íslandssögunnar, leirhaussins sem fljótlega fékk nafnið Leirfinnur. Keflavíkurrannsókninni svokölluðu var formlega hætt um það bil hálfu ári áður en Erla og Sævar Marinó voru lokuð inni í grænmáluðum klefum Síðumúlafangelsis snemma í desember 1975 — og höfðu aðstandendur hennar enga (að minnsta kosti beina) aðkomu að síðari rannsókninni.

„Það fannst mér verst,“ segir Howitt, í áðurnefndri umfjöllun Morgunblaðsins, um fjarveru rannsóknarlögreglumannanna, „því það var alls ekki ætlun okkar að sanna neitt eða draga upp slæma mynd af þeim, en myndin hefði bara orðið betri ef innkoma lögreglunnar hefði verið meiri og þeir sagt okkur hvernig málið sneri að þeim.“ Valur Gunnarsson, kvikmyndakrítíker The Reykjavík Grapevine, tekur undir þetta, segir lögregluskortinn vera (á ensku í blaðinu) „perhaps the film’s major flaw,“ en gengur svo lengra og nefnir annan galla: með myndinni takist nefnilega ekki að leysa þá ráðgátu „who actually committed the murders,“ orð sem ekki eru einungis til marks um væntingar sem stangast þvert á við yfirlýst markmið myndarinnar, heldur einnig um allþokkalegan árangur Harðar og kollega hans í útbreiðslu þeirrar goðsagnar að fullvíst sé — og fram á það hafi verið sýnt — að Einarssynirnir tveir, þeir Guðmundur og Geirfinnur, hafi yfir höfuð verið myrtir.

Höfuðstykkið í málsvörn Harðar fyrir fjölmiðlafóbíska samstarfsmenn sína í þessari umfjöllun sem annarri — málsvörn sem Howitt segir virðingarverða — kristallast í þeirri mýtu að málið sé þegar upp er staðið nokkuð einfalt, þvert á það sem gagnrýnisraddir kunna að fullyrða: morð hafi verið framin, morðingjarnir handteknir, réttlátir og réttmætir dómar fallið, og þó hugsanlega megi vera að einhver „mistök“ hafi verið gerð — og þá einungis sökum pressu frá fjölmiðlum og samfélaginu öllu — hafi rannsóknaraðilarnir fyrst og fremst verið „góðir menn að vinna vinnuna sína.“

Hér verður ekki farið ítarlega út í ólíka sálma andstæðra fylkinga þess hugmyndastríðs hvort til séu góðirmenn og vondir eða ekki — en ef svo: hvort góðir menn geti eða geti ekki framið vondar gjörðir og öfugt — en auðvitað má benda mönnum (jafnt góðum sem vondum) á algjöra klassík: hugtak þýska heimspekingsins Hönnuh Arendt, banalítet illskunnar, sem hún sneið utanum málsvörn samlanda síns, nasistaforingjans Adolfs Eichmann, við réttarhöldin sem höfðuð voru yfir honum í Jerúsalem; leiti fyrrgreindir menn að skilningi á því hvernig svokallaðir venjulegir, að því er virðist góðir menn, jafnvel fjölskyldumenn á góðum degi, geta tekið að sér hlutverk „illmennisins“. En vert er að staldra við þessa tilhneigingu — sem enn vofir yfir, en hefur þó farið þynnandi — að hleypa yfir höfuð inn í umfjöllun um Guðmundar- og Geirfinnsmálið umræðu á þessu nótum: það sé með einhverju móti viðeigandi, áhuga- og eftirsóknarvert að nálgast málið út frá þeim forsendum — ef forsendur má kalla — að rannsóknaraðilarnir hafi verið góðir menn, undir  pressu, að sinna sínum skyldum. Á hinni hlið myntarinnar eru nefnilega alltaf illmenni — eða eins og Ómar Valdimarsson, blaðamaður og að því er virðist sérlegur talsmaður þess að efast ekki um réttmæti dóms Hæstaréttar, lýsir Sævar Marinó og félögum í myndinni: nastí grúpp of kidds.

Þarna er einn af akkílesarhælum Out of Thin Air: fjórum áratugum eftir sjálfa rannsókn málsins er myndin menguð (að ákveðnu leyti, en ekki öllu, þó nógu miklu til að hafa áhrif á andardráttinn) af þungu lofti þeirra skýrt skilgreindu átakasvæða sem mörkuð voru þegar rannsóknin átti sér stað — af upphafsaðila málsins, lögreglunni; meðhöfundum hennar, fjölmiðlum; og þátttakandi áhorfendunum, almenningi. Vissulega er myndin gjörólík eingeltinu sem nefnt var hér í byrjun: Hörður, sem andlit kerfisins, er hér enginn sólisti, auk þess flestum fullyrðingum hans er stillt upp við hlið ólíkra fullyrðinga annarra viðmælenda — samanburður sem færa mætti þokkaleg rök fyrir að sé lögreglunni frekar í óhag en öfugt. Og ólíkt útvarpsþáttarstjórnendunum vita aðstandendur myndarinnar sitt lítið af hverju — og auðvitað miklu meira en rúmlega það — um viðfangsefni myndarinnar. En einber nálægð þessarar löngu gjaldþrota nálgunar lögreglustofnunarinnar á þátt sinn í málinu veldur því að úr hinu þunna lofti verður til, og liggur yfir myndinni, mengunarský.

Hafi Dylan Howitt raunverulega viljað veita íslenskum áhorfendum nýtt sjónarhorn á málið, eins og hann segir í margnefndu Morgunblaðsviðtali, hefði hann kannski betur gert að útgangspunkti það knappa en kórrétta sannleikskorn sem áðurnefndur Stefán Unnsteinsson, rithöfundur, leggur fram í myndinni, frá sjónarhorni sem stangast í einu og öllu á við ofangreint tal um gott fólk og vont, næs eða nastí: að Guðmundar- og Geirfinnsmálið hafi kallað fram í fólki ljótar hliðar, ljóta hegðun, ljóta hluti, sem „við“ — almenningur sem bæði þátttakendur og áhorfendur málsins — erum enn að reyna að skilja og jafna okkur á.

Sjá nánar hér: Þunnt loft — og þungt

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR