Nanna Kristín Magnúsdóttir hefur að undanförnu gert víðreist með stuttmynd sína Ungar, en myndin hefur þegar hlotið fern alþjóðleg verðlaun auk þess að vera valin stuttmynd ársins á síðustu Edduverðlaunum. Nýlegur rúntur Nönnu Kristínar með myndina til Aþenu og Rómar endaði í París þar sem henni var veitt sérstök viðurkenning af Frönsku kvikmyndaakademíunni.
Ungar var valin af sérstakri dómnefnd akademíunnar í hóp 30 stuttmynda sem ferðuðust víða um Evrópu sem hluti af Nuits en Or (Gullnar nætur) verkefninu á vegum Frönsku kvikmyndaakademíunnar. Myndirnar voru sýndar í 9 borgum og var leikstjórum myndanna boðið til þriggja þeirra. Ferðinni lauk með hátíðarkvöldverði í París á vegum akademíunnar þar sem viðurkenningin var veitt.
Franski leikarinn Thibault Montalember veitti Nönnu Kristínu viðurkenninguna.