Árni Filippusson í ÍKS

Árni Filippusson tökumaður (Mynd: Lilja Jónsdóttir).

Félag íslenskra kvikmyndatökustjóra (ÍKS) ákvað á síðasta aðalfundi að bjóða nýjum meðlimi, Árna Filippussyni, í félagið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu, en Árni verður ellefti meðlimur þess.

Þar segir m.a.:

Árni hefur sýnt og sannað það með verkum sínum að vera með fremstu kvikmyndatökustjórum á Íslandi, með sýn sinni á hvernig saga er sögð með linsum og ljósi.

Árni hóf störf við kvikmyndagerð ungur og hefur komið nálægt flestum starfstéttum greinarinnar. Eftir kvikmyndanám í Danmörku við EFC hefur Árni verið að vinna sig upp innan kvikmyndageirans ásamt því að reka framleiðslufyritækið Mystery.

Árið 2011 byrjaði Árni að vinna sem kvikmyndatökustjóri og árið 2012 fékk Árni Edduverðlaunin fyrir kvikmyndatöku fyrir myndinna Á annan veg (2011).  Undanfarið hefur Árni unnið við gerð verkefna sem kvikmyndatökustjóri Grafir og bein (2014), Bakk (2015), Autumn Lights (2015), Grimmd (2016) og Fangar (2017).

Árni er þessa dagana í tökum á sjónvarpseríunni Stellu Blómkvist fyrir Saga film ásamt því að undirbúa næstu bíómynd. 

Árni er 11. meðlimur ÍKS.

Á vef ÍKS segir að tilgangur samtakanna sé að stuðla að fagmennsku, metnaði og vönduðum vinnubrögðum. Aðild er boðin þeim sem sýnt hafa framúrskarandi kvikmyndatökustjórn og uppfylla skilyrði um inngöngu samkvæmt reglum félagsins. Félagar skulu stuðla að fagmennsku og metnaði við kvikmyndatökustjórn og sjá til þess að heiður og orðstír félagsins sé ávallt í hávegum hafður.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR