Hjartasteinn Guðmundar Arnars Guðmundssonar var valin besta leikna myndin á Crossing Europe kvikmyndahátíðinni í Linz í Austurríki sem lauk um síðustu helgi. Í fyrrihluta apríl hlaut myndin samskonar verðlaun á Wicked Queer: The Boston LGBT Film Festival í Bandaríkjunum. Alls eru alþjóðleg verðlaun myndarinnar nú 30 talsins.
Hjartasteinn er því sú íslensk bíómynd sem hlotið hefur flest alþjóðleg verðlaun, samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum. Hrútar Gríms Hákonarsonar fylgir fast á eftir með 29 alþjóðleg verðlaun. Báðar myndirnar fengu einnig Edduverðlaun, sú fyrrnefnda 9 en sú síðarnefnda 11.
Alls hafa íslenskar kvikmyndir hlotið 19 alþjóðleg verðlaun það sem af er þessu ári.