Hópur útskrifaðra nemenda Kvikmyndaskóla Íslands, ásamt fleirum, hefur tekið höndum saman um framleiðslu stuttmyndarinnar Ólgusjór. Leikstjóri og handritshöfundur er Andri Freyr Ríkharðsson en nýtt framleiðslufyrirtæki, Behind the Scenes, annast framleiðslu. Tökur eru fyrirhugaðar í sumar, en verkefnið hefur hlotið styrk frá Kvikmyndamiðstöð og Uppbyggingarsjóði Vesturlands.
Myndin fjallar um unga elskendur, Telmu og Baldur, sem starfa saman á litlum bát fyrir utan Snæfellsnes. Yfirmaður þeirra, Geir, stýrir þeim með harðri hendi í gegnum talstöð á meðan margt leynist undir yfirborðinu.
Hafdís Helga Helgadóttir fer með hlutverk Telmu í myndinni og Eysteinn Sigurðarson leikur Baldur. Arnar Jónsson fer með hlutverk Geirs.
Andri Freyr Ríkharðsson útskrifaðist frá Kvikmyndaskóla Íslands árið 2012 þar sem hann hlaut verðlaun fyrir bestu útskriftarmynd. Behind the Scenes er ungt framleiðslufyrirtæki sem samanstendur af fólki með mismunandi menntun og bakgrunn. Þetta eru þau Ásta Marteinsdóttir, Marinó Flóvent, Ásþór Aron Þorgrímsson og Unnsteinn Garðarsson. Tveir síðastnefndu eru einnig útskrifaðir frá Kvikmyndaskólanum.
„Andri Freyr leitaði til okkar í janúar 2015 og sagði okkur frá stuttmynd sem hann vildi gera og þar með hófst ferðalag þessa verkefnis. Ef fólk hefur sögu sem það vill segja og hefur metnaðinn og viljann til að ýta því í framkvæmd er ekkert sem getur stoppað það ferli nema fólkið sjálft“,
segir Ásþór Aron og bætir við:
„Umsókn var unnin fyrir Kvikmyndamiðstöð Íslands en okkur var tjáð að það væri mjög erfitt fyrir ung fyrirtæki að fá framleiðslustyrk frá KMÍ án þess að hafa meðframleiðendur sem hafa byggt sér upp orðspor innan bransans. Okkur fannst þetta ekki eiga að skipta máli, heldur verkefnið sjálft og fólkið á bakvið verkefnið ætti að segja það sem segja þyrfti. Loks í byrjun árs 2016 fengum við staðfestingu um vilyrði fyrir styrk frá KMÍ. Samhliða umsóknarferlinu við KMÍ fengum við staðfestingu um styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Framleiðsla verkefnisins er því á lokametrunum og eru tökur áætlaðar í lok júní á þessu ári.”
Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins á vef fyrirtækisins https://scenes.is/ , https://fb.com/olgusjor/ og á https://instagram.com/scenes.is.