Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð í Reykjavík verður sett í Bíó Paradís fimmtudaginn 30. mars. Opnunarmynd hátíðarinnar er ofurhetjumyndin Antboy 3.
Á hátíðinni verða sýndar alþjóðlegar vandaðar, öðruvísi og áhugaverðar kvikmyndir og teiknimyndir. Íslenskar og norrænar barna- og unglingamyndir, eþíópíska kvikmyndin Lamb og fjöldi vandaðra teiknimynda eins og My Life as a Courgette sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna, bíómyndin Klaufabárðarnir sem var gerð í tilefni af 40 ára afmæli þessara tékknesku félaga, hin magnaða japanska teiknimynd Sword Art Online (Wakanim) og íslensku teiknimyndirnar Litla lirfan ljóta og Anna og skapsveiflurnar.
Einnig verða sýndar klassískar myndir eins og ET, Never Ending Story og Galdrakarlinn í Oz.
Dagskrána í heild sinni má nálgast hér.
Eftirtaldir sérviðburðir verða á dagskrá hátíðarinnar:
Áheyrnarprufur fyrir kvikmyndir – Námskeið. Laugardaginn 1. apríl kl. 10:00-12:00.
Ólafur S.K. Þorvaldz, leikari og leiklistarkennari leiðir námskeið í leiklist með sérstaka áherslu á hvenig skuli undirbúa sig fyrir áheyrnarprufur fyrir hlutverk í kvikmyndum. Námskeiðið er ætlað börnum á aldrinum 9 – 12 ára.
Hvernig verða tölvuteiknimyndir til? Laugardaginn 1. apríl kl. 14:00-15:00.
Hilmar Sigurðsson framleiðandi teiknimyndarinnar Lói – þú flýgur aldrei einn útskýrir hvernig tölvuteiknimyndir eru búnar til og sýnir efni úr framleiðslu myndarinnar, sem verður jólamyndin á Íslandi um næstu jól.
Bíósýning í samstarfi við Geðhjálp – Stelpan, mamman og djöflarnir – laugardaginn 1. apríl kl. 16.00
Bíó Paradís í samstarfi við Geðhjálp sýna sænsku kvikmyndina „ Stelpan, mamman og djöflarnir “ (Flickan, Mamman och Demonerna). Frítt verður á myndina og allir velkomnir. Með myndinni er athygli almennings vakin á sjónarhorni barna geðsjúkra ásamt því að kvikmyndin hefur mikilvægan boðskap að bera stuðningsneti barna í samfélaginu almennt.
Fyrir sýningu myndarinnar mun Hanna Styrmisdóttir, fyrrverandi listrænn stjórnandi Listahátíðar og aðstandandi, fjalla örstutt um kvikmyndina út frá listrænu sjónarhorni. Eftir sýningu hennar verður efnt til stuttra umræðna með þátttöku Hönnu, Maggýjar Hrannar Hermannsdóttur, sérkennara og aðstandanda, og Möndu Jónsdóttur, hjúkrunarfræðings og deildarstjóra á sérhæfðri endurhæfingardeild á Kleppspítala.