Velta í framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis nam alls tæplega 20 milljörðum króna á árinu 2016 og hefur aldrei verið hærri eins og sjá má af meðfylgjandi grafi. Aukning frá fyrra ári nemur hvorki meira né minna en 83,6%.
Lunginn af þessari veltu er vegna erlendra verkefna.
Hilmar Sigurðsson forstjóri Sagafilm birtir grafið að ofan og segir meðal annars:
Ríkissjóður lagði til um 4% af þessari upphæð í Kvikmyndasjóð og um 5,7% í endurgreiðslur, sem nýttust að 70% í erlend verkefni. Þessi tiltölulega litla opinbera fjárfesting er því katalíser sem 10 faldast í meðförum greinarinnar. Ríkissjóður fær sitt framlag að lágmarki tvöfalt til baka á framleiðslutíma verkefnanna.
Enn er þó leikið sjónvarpsefni svelt þegar innlend og erlend eftirspurn hefur aldrei verið meiri eftir íslensku efni sem er framleitt á íslensku, sem er einmitt það sem íslenskir sjónvarpsáhorfendur vilja helst horfa á?!?