Margrét Örnólfsdóttir í viðtali: Framtíðin er í sjónvarpinu

Margrét Örnólfsdóttir er einn handritshöfunda þáttaraðarinnar Fanga sem frumsýnd verður á RÚV 1. janúar. Fréttatíminn ræðir við hana um vinsældir og möguleika leikins íslensks sjónvarpsefnis á heimsvísu, hvernig það er að vera kona í karllægum kvikmyndageiranum og um staðalmyndir kvenna í íslenskum kvikmyndum sem hún, ásamt fleirum, vinnur að því að breyta.

Í viðtalinu segir meðal annars:

„Við erum nokkrar konur sem erum að skrifa fyrir sjónvarp og ég veit að það eru fleiri sem vonandi hafa áhuga á að bætast í hópinn. Núna eru allir að spá í þetta, að það sé nauðsynlegt að hafa konur með í skrifunum enda hlutur kvenna í kvikmyndagerð verið mikið í umræðunni undanfarin ár. Það er engin ein skýring á því hvers vegna færri konur eru í þessu. Í raun er eiginlega óskiljanlegt að nokkur skuli halda út í þessu fagi, vinnutíminn er óreglulegur og maður þarf alltaf að hafa nokkur verkefni í gangi á sama tíma til að þetta gangi upp og það koma langir biðtímar. Það tekur rosalega langan tíma, orku og úthald að koma einu verkefni í gegnum allt ferlið, skrifin, þróunina, framleiðsluna, og þar til verkið er tilbúið til sýningar. Ég, eins og allir höfundar, hef skrifað mörg handrit sem fara aldrei í framleiðslu af einni eða annarri ástæðu. Maður verður þess vegna mjög glaður og eiginlega svolítið hissa þegar þetta kemst loksins í sýningu. Eins og núna þegar Fangar eru loks að koma fyrir sjónir almennings eftir margra ára vinnu.“

Kynjaskekkjan að jafnast
Margrét segir mikla meðvitund í kvikmyndageiranum um hlut kvenna í handritagerð og að það sé nánast talið ótækt að setja saman kvenlaust teymi í ljósi umræðunnar undanfarið. Það sé kominn tími á að þessi kynjaskekkja jafnist. Í Svíþjóð hafa reglur um jafnt kynjahlutfall í úthlutunum styrkja verið teknar í gagnið og sá ótti að það yrði mögulega á kostnað gæðanna reyndist ástæðulaus því sænskar kvikmyndir unnu til fleiri verðlauna árið eftir að reglan kom til. „Kynjakvóti er í raun örþrifaráð og ég er fylgjandi svoleiðis aðgerðum á meðan þær fela ekki í sér eitthvert gífurlegt misrétti. Ég vil að fólk sé metið að verðleikum og verkefni út frá gæðum en ef það er rétt að konur eigi erfiðara uppdráttar í kerfinu þá þarf að laga kerfið. Ég trúi ekki að umsóknir frá konum séu verri eða betri en frá körlum, þær eru bara alls konar hjá báðum kynjum. Í nýju samkomulagi um kvikmyndagerð, milli kvikmyndageirans og ríkisins, er kveðið á um sérstakt átaksverkefni til að rétta hlut kvenna í kvikmyndagerð. „Ég veit ekki enn hvað þetta felur nákvæmlega í sér en það verður spennandi að sjá hvort það hefur áhrif til hins betra. Reyndar stefnir í að 2017 verði mikið kvennaár. Það eru að koma út þrjár leiknar bíómyndir eftir konur, Ísold Uggadóttur, Kristínu Jóhannesar og Ásu Hjörleifsdóttur.“

Hrist upp í föstum ímyndum
Þótt það sé mikið gleðiefni að konur fái meira pláss í iðnaðinum vill Margrét ekki meina að kynferði skipti það miklu máli í vel heppnaðri framleiðslu. „Það skiptir mig akkúrat nákvæmlega engu máli hvers kyns ég er, það bara vill svo til að ég er kona. Ég er nú kannski hætt að pirra mig á því núna en á tímabili var ég ofboðslega viðkvæm fyrir því að það væri hringt í mig og sagt að það vantaði konu í einhver verkefni. Ég var pirruð yfir því að það þyrfti að taka það fram og að það væri eitthvað sérstakt atriði að vera kona. Hvert einasta verkefni þarf kemistríu sem gengur upp og hún hefur ekkert með kynferði að gera og í raun heldur ekkert með hversu hæfileikaríkt fólk er, stundum kveikir fólk rétt á hlutunum og það verður til skapandi flæði í hópnum, stundum ekki. Það má samt alveg pota aðeins í karlkyns kollega mína fyrir hversu gjarnir þeir eru á að skapa einsleitar kvenpersónur. Ég er sannfærð um að þetta muni smám saman lagast með fleiri konum í höfundahópnum. En það sem mig dreymir um er að við komumst á þann stað að við hættum að velta okkur svona mikið upp úr þessu, sem gerist. Konur koma þar inn sem ákveðinn andblær og hrista upp í föstum ímyndum. Mér sem kvenhöfundur langar samt ekki einungis að hugsa um konur þegar ég skrifa, ég hef alveg jafn mikinn áhuga á að skrifa um miðaldra karlmenn og á að hafa leyfi til þess, mér finnst það meira að segja mjög spennandi efni.“

Staðalmyndir kvenna
Margrét segir að allir sem stundi handritaskrif þurfi í ljósi nútímasamfélags að hugsa vel um hvernig kvenpersónur séu skapaðar. Það sé því miður ákveðin tilhneiging að skrifa konur á svipaðan hátt í gegnum tíðina og því hafi viðhaldist ákveðnar staðalmyndir á kvenpersónum sem eigi sér litla stoð í raunveruleikanum. „Ég velti því oft fyrir mér hvers vegna höfundar sækja fyrirmyndir ekki í meira mæli í raunveruleikann og nærumhverfi en virðast oft frekar grípa næstu erkikventýpu úr kvikmyndasögunni. Algeng kvenpersóna er til dæmis „eiginkonan“. Á Íslandi er það konsept varla til, getur kannski gengið í einhverri annarri menningu en er bara hlægilegt í okkar samhengi. Kona er fyrst og fremst eitthvað annað áður en hún er en eiginkona einhvers. Við sem höfundar berum ábyrgð á því að grípa ekki alltaf fyrstu einföldu lausnina sem viðheldur einhverju inngrónu og gamaldags. En svo má ekki gleyma því að við erum að skrifa skáldskap og okkur leyfist ýmislegt, að ýkja og bjaga og útvíkka veruleikann, ábyrgð okkar liggur fyrst og síðast í því að skapa eitthvað nógu áhrifamikið og vera trú einhverri eigin sannfæringu sem þarf ekki alltaf að vera pólitískt rétt eða viðurkennd.“

Kynlausir karakterar
„Þegar ég skrifa hugsa ég eiginlega ekki um kyn karaktera. Ég held að kynferði skipti mig ótrúlega litlu máli yfir höfuð. Það er frekar þessi þörf fyrir að segja sögur og búa eitthvað til. Eitt sem ég hef prófað að gera oftar en einu sinni er að skipta um kyn á persónu sem ég skrifa. Ég held maður eigi ekki að skrifa karakter með fyrirfram ákveðnu kyni, nema það sé eitthvað sem kalli alveg sérstaklega á það. Mér finnst mikilvægara að skapa persónuna út frá því hvaða hlutverki hún gegnir í sögunni sem maður er að segja. Það þarf að gefa persónunni einhver tæki til að glíma við viðfangsefni sögunnar, eiginleika, kosti og bresti, og ef það er auðveldlega hægt að skipta um kyn á þessum karakter þá hefur manni tekist að búa til heilsteypta persónu. Við gerðum þetta í Föngum og það voru einhverjar smá fínstillingar sem þurfti að gera hér og þar, en þar fyrir utan bætti þetta einhverju óútskýranlegu við karakterinn. Maður getur allt í einu verið kominn með afar áhugaverðan kvenkarakter því maður datt ekki í gildrurnar að skrifa konuna eins og síðasta kvenkarakterinn sem maður skrifaði eða sá einhvers staðar. Þetta er a.m.k. ein leið til að detta ekki í klisjurnar sem tengjast kynferði. Það er nefnilega fullt af litlum kreddum sem eru bara föst í erfðaefninu á okkur og sem við þurfum öll að vara okkur á.“

Mikill áhugi á íslensku sjónvarpsefni
Margrét segir afar litla peninga vera til úthlutunar í íslenska kvikmyndaframleiðslu. Það sé gríðarleg eftirspurn erlendis eftir íslensku sjónvarpsefni en árlega sé ekki hægt að standa undir nema um einni stórri sjónvarpsseríu á ári ásamt tveimur minni. Stjórnvöld virðist því miður ekki enn hafa skilið hvað það er góð og í raun gulltryggð fjárfesting að setja peninga í kvikmyndagerð. „Kvikmyndasjóður Íslands er örsjóður, hann er svo lítill. Kvikmyndagerð á Íslandi er eins og mentaskólaneminn sem er ennþá að mæta í partí í fermingarfötunum sínum. Vöxturinn í greininni og áhuginn á íslenskri kvikmyndagerð er í engu samræmi við það hvað sjóðurinn stendur í stað og allt stoðkerfið, eins og Kvikmyndamiðstöð, er fjársvelt. Og áhuginn á íslensku efni virðist bara ætla að halda áfram að vaxa. Ófærð var ákveðinn ísbrjótur. Með velgengni Ófærðar standa okkur allt í einu allar dyr opnar en við þyrftum miklu stærri sjóð til að geta framleitt það sem okkur langar til. Kvikmyndasjóður er mjög mikilvægur því hann er undanfari þess að hægt sé að sækja í aðra sjóði eins og norræna og Evrópusjóðinn.“

Fjársvelt listgrein
„Það hafa verið lögð fram endalaus rök um að kvikmyndaframleiðslan hér sé fjárfesting sem borgar sig. Hver einasta króna sem sett er í kvikmyndagerð á Íslandi skilar sér tvöfalt til baka og ef þú tekur inn í öll afleiddu hagrænu áhrifin líka þá er það miklu, miklu meira. Landslagið er að breytast svo mikið í sjónvarpsþáttagerð. Með þessum nýju tegundum af efnisveitum, Netflix og fleiru, breytist ekki bara dreifingin og hvernig fólk horfir á efni, heldur einnig hvernig verkefni eru fjármögnuð og þróuð. Það er eins og öll jarðskorpan sé á hreyfingu og við að reyna að halda jafnvægi. Þannig er bransinn bæði spenntur og kvíðinn en það er samt ljóst að tækifærin fyrir íslenska kvikmyndagerð eru gríðarleg akkúrat núna. Það þyrfti í raun að tvöfalda sjóðinn ef vel ætti að vera, það væri svona hóflegt. En þó öll þessi rök liggi fyrir og stjórnvöld þykist meðvituð um það þá fáum við bara klapp á bakið og aukasetningu í hátíðarræðum. Það er voða gott og gaman að láta hrósa sér en væri betra að fá bara peninginn í staðinn, takk. Maður verður bara að vona að ný ríkisstjórn verði sett saman af brjáluðum bíónördum, þá fer kannski eitthvað gott að gerast.“

Séríslenskt sjónvarp og Sykurmolarnir
Þótt íslenskt sjónvarpsefni og kvikmyndir hafi vakið athygli erlendis segir Margrét okkur enn vera að stíga fyrstu skrefin í greininni. Miðað við hvað við höfum litla reynslu og úr litlu fjármagni að spila er í raun ótrúlegt hvað íslenskt sjónvarpsefni fær góðar viðtökur. En við erum að græða á sérstöðunni. Á meðan við séum bara að reyna að endurspegla íslenskan veruleika eru útlendingar að horfa á eitthvað rosalega exótískt. „Þetta er svipað og með íslenska tónlist. Við í Sykurmolunum vorum til dæmis bara að reyna að gera venjuleg meðalstraums popplög sem fyrir umheiminum hljómaði eins og eitthvað svakalega framúrstefnulegt. En það var allt í lagi, okkur sárnaði það ekkert, við vorum bara að skemmta okkur. Sykurmolarnir voru þannig í raun stofnaðir til að búa til peninga fyrir Smekkleysu svo hægt væri að fjármagna aðra útgáfu. Og það tókst. Það er sérstaðan og þessi litlu skrýtnu hlutir sem við erum kannski sjálf ómeðvituð um sem umheimurinn kveikir á. Þess vegna veit maður aldrei hverju fólk í útlöndum mun hrífast af. Það eru kannski allt aðrir hlutir heldur en hjá okkur hér heima. Og þar liggur ákveðin spenna, í því að vita ekki í hverju ástarsambandið er fólgið. Um leið og við förum að reyna að matreiða það sem við erum að gera sérstaklega ofan í útlendinga þá held ég að það sé dæmt til að mistakast. Ég var að horfa á sænska sjónvarpsseríu þar sem búið er að tikka í öll túristaboxin og það verður mjög utanáliggjandi og tekur frá dramatísku upplifuninni.“

Sjónvarpið skemmtilegast
Þótt Margrét hafi skrifað handrit að bíómyndum finnst henni sjónvarpsformið skemmtilegast. Þar finnst henni hún virkilega vera orðin nógu heimavön og afslöppuð til að geta leyft sér ákveðið frelsi að prófa sig áfram með hlutina. Fyrir utan hvað sjónvarpið nær til miklu stærri áhorfendahóps en kvikmyndir almennt. „Þú getur bara setið í þínu skjóli, heima hjá þér, og sótt það sem þig lystir. Það er óendanlegt úrval af alls kyns efni. Auðvitað fullt af drasli en gríðarlega mikið af gæðaefni líka.“

„Að búa til leikna sjónvarpsþáttaröð er töluvert flóknara en bíómynd. Sömuleiðis eru handritsskrifin meira krefjandi, umfangið margfalt meira og formið og uppbyggingin skiptir svo miklu máli. Sjónvarpsskrif eru þess vegna langoftast teymisskrif. Það þarf svo mikið efni til að halda uppi heilli seríu. Þetta þarf að vera svo þykkt, það eru svo margar sögur og allt þarf að ganga upp. Til þess að það hafist þarf hreinlega fleiri heila en bara einn.

Vinnan er nánast eins og samtalsmeðferð því stærstur hluti vinnunnar felst í því að skilja persónurnar – vita allt um þær og skapa forsendur fyrir gjörðum þeirra. Þannig þarf að búa til ævisögu hvers einasta karakters, því jafnvel þótt „Gunnar gangavörður“ sé pínulítil persóna og lífshlaup hans komi aldrei til tals þá verðum við höfundarnir að vita allt um Gunnar gangavörð, jafnvel þótt hann sé bara að tína upp blautar úlpur á ganginum og krakkarnir stríði honum. Það fer mikil vinna í persónusköpun því hún er í raun grunnur alls. En framvindan skiptir ekki síður máli og við vinnum afar nákvæma lýsingu á öllu sem gerist, hvaða tilgang hver og ein sena hefur, allt er vegið og metið og öllum óþarfa er hent. Kvikmyndagerð er svo dýrt sport að það verður að velja og hafna áður en farið er í tökur, það er ódýrara að gera það á handritsstiginu. Þannig að það er gríðarleg vinna að baki hverju verkefni, svo miklu meira en það sem sést á skjánum. Svo tekur það áhorfendur 50 mínútur að horfa á hvern þátt en það er kannski 2-4 ára vinna að baki. Það fallega við þetta er að áhorfandinn á einmitt ekki að vera meðvitaður um vinnsluferlið. Ef vel hefur tekist til er áhorfandinn hrifinn inn í heiminn sem við höfum skapað og ekkert að pæla í því hvernig við fórum að því, þá er tilganginum náð.“

Margrét telur að við ættum að leggja miklu meiri áherslu á framleiðslu leikins sjónvarpsefnis, þar séu sóknarfærin núna. „Markaðurinn okkar er svo lítill að það hefur verið erfitt að framleiða jafndýrt efni og sjónvarpsseríur nema af og til. En nú allt í einu höfum við möguleika á því að selja þetta út um allan heim, sem breytir öllu. Á meðan bíóaðsókn dregst saman ár frá ári er vaxandi markaður fyrir sjónvarp. Það hefur svo margt breyst í landslaginu sem kallar á nýja hugsun. Ég er, eins og komið hefur fram, mjög spennt fyrir þessu formi kvikmyndagerðar og veit að það er mjög margt spennandi í þróun út um allan bæ sem ég vona bara að komist alla leið og við fáum að njóta þess. Þess vegna þarf að setja meiri peninga í kassann, stjórnvöld! Ég lofa því að það skilar sér margfalt til baka.“

Fangar persónulegt verkefni
Sjónvarpsþáttaröðin Fangar fer fljótlega í sýningu en Margrét er aðalhandritshöfundur verksins. Þegar hún fékk símtal frá Unni Ösp Stefánsdóttur um verkefnið fyrir fjórum árum sló hún strax til en þáttaröðin gerist að stórum hluta í í kvennafangelsinu í Kópavogi – í íbúðahverfinu þar sem Margrét býr ásamt fjölskyldu sinni. „Fangelsið er við hliðina á leikskóla barnanna minna og ég hafði því gengið þarna fram hjá tvisvar á dag árum saman og vissi af tilvist þess. Fyrir mig var þetta því svolítið persónulegt. Ég hafði séð fangana úti í garði og eins og allir aðrir bara látið sem þetta kæmi mér ekki við og kurteislega leitt þetta hjá mér. Ég sagði því strax já, ég væri til í tuskið, enda frábær hópur að baki verkefninu, Unnur Ösp og Nína Dögg Filippusdóttir og Ragnar Bragason leikstjóri, auk framleiðendanna í Mystery.“ Unnur og Nína höfðu unnið mikla rannsóknarvinnu, safnað sögum og heimsótt fangelsið en ætluðu sér ekki að skrifa handritið sjálfar. Handritsvinnan hefur samt verið unnin í mjög náinni samvinnu ásamt þeim en lokagerð handritsins er svo í höndum Margrétar og Ragnars. „Það er frábært, þá eru leikstjórinn og höfundurinn á sömu blaðsíðunni með allt. Þá veit maður að það er fullur skilningur á öllu okkar á milli.“

Margrét fór sjálf í heimsóknir í kvennafangelsið til að fá innblástur og upplifa það frá fyrstu hendi. Aðstæður voru hræðilegar enda var þetta síðar dæmt sem óhæfur mannabústaður, mikil þrengsli og allt í niðurníðslu. „Það er furðulegt upplifun að stíga inn í fangelsi í eigin hverfi. Maður er vanur að vappa frjáls fyrir utan en þarna blasti þessi hugmynd við mér að samfélagið ákveður að taka fólk úr umferð og loka það inni. Ég gat síðan bara gengið út þegar ég var búin að ljúka erindi mínu. þetta hafði mikil áhrif á mig. Ég vona að Fangar komi þessu að einhverju leyti til skila, hvernig við manneskjurnar vandræðumst við það að eiga hver við aðra og erum líklega öll einhvers konar fangar í einni eða annarri mynd.“

Sjá nánar hér: Framtíðin er í sjónvarpinu | Fréttatíminn

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR