Sagafilm og Gunhil sameina krafta um áramót

sagafilm-gunhil-logosFramleiðslufyrirtækin Sagafilm og GunHil munu sameina krafta sína frá 1. janúar 2017. Guðný Guðjónsdóttir sem stýrt hefur Sagafilm undanfarin ár lætur af störfum að eigin ósk og Hilmar Sigurðsson framkvæmdastjóri GunHil og annar stofnenda, tekur við sem forstjóri Sagafilm.

Þetta kemur fram í tilkynningu:

Sagafilm ehf. hefur keypt allt hlutafé í GunHil ehf. og frá og með 1. janúar 2017 munu félögin starfa undir sameinuðu eignarhaldi Sagafilm ehf. Hluthafar í GunHil ehf. verða frá þeim tíma hluthafar í Sagafilm.

Eftir að hafa starfað í 10 ár hjá Sagafilm, fyrst sem fjármálastjóri og síðustu ár sem forstjóri, hefur Guðný Guðjónsdóttir ákveðið að söðla um og hyggur á ferðalög ásamt fjölskyldu sinni um óákveðinn tíma. Hilmar Sigurðsson, sem hefur mikla reynslu af rekstri í skapandi greinum á Íslandi, Ítalíu og í Danmörku, tekur við sem forstjóri sameinaðs félags og mun jafnfram stýra GunHil, sem verður rekið sem sjálfstætt dótturfyrirtæki Sagafilm. Við sameininguna tekur Árni Geir Pálsson, stjórnarformaður GunHil sæti í stjórn Sagafilm.

Markmiðið með sameiningunni er að styrkja og efla eigin framleiðslu sem og sókn Sagafilm á erlenda markaði. Sagafilm hefur verið leiðandi á íslenskum kvikmynda-, sjónvarps- og auglýsingamarkaði í áratugi og undanfarin misseri hefur efni úr smiðju Sagafilm notið aukinna vinsælda erlendis. Spennuþáttaröðin Réttur 3 (CASE) er nú aðgengileg yfir 50 milljón áskrifenda Netflix víða um heim, auk þess sem fjöldi evrópskra sjónvarpsstöðva hefur tryggt sér sýningarrétt á henni.

GunHil vinnur að framleiðslu Lói – þú flýgur aldrei einn, sem er tölvugerð teiknimynd fyrir alþjóðamarkað – nú þegar seld til sýninga í kvikmyndahúsum í yfir 30 löndum og verður jólamynd í kvikmyndahúsum á Íslandi 2017. Verkefni félaganna falla vel saman og munu starfsmenn Sagafilm ehf. vera um 40 talsins frá og með 1. janúar 2017.

Ragnar Agnarsson, stjórnarformaður Sagafilm segir:

,,Sameining þessara tveggja, öflugu fyrirtækja mun tvímælalaust styrkja framleiðslu vandaðs, íslensks efnis, hvort sem um ræðir sjónvarpsþætti, kvikmyndir, auglýsingar eða efni fyrir aðra hratt vaxandi miðla. Það er tilhlökkunarefni að fá Hilmar og hans fólk til liðs við okkur, hann tekur við góðu búi af Guðnýju og við þökkum henni fyrir frábært samstarf undanfarin ár.”

Hilmar Sigurðsson, tilvonandi forstjóri segir:

„Það er sérstaklega ánægjulegt að koma saman og leiða sterkt og öflugt framleiðslufyrirtæki í kvikmyndagreininni á Íslandi. Samþættingin gerir okkur kleift að takast á við enn stærri og viðameiri verkefni, styrkir efnahaginn og bætir framtíðartekjumöguleikana. Verkefni GunHil falla mjög vel að starfsemi Sagafilm og það er ljóst að íslensk kvikmyndagerð mun eflast enn frekar en orðið er.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR