Herðubreið um „Baskavígin“: Fyrstu hælisleitendurnir

Hluti leikarahóps myndarinnar við tökur á Spáni.
Hluti leikarahóps myndarinnar við tökur á Spáni.

„Ég var fullur efasemda í upphafi: Hvernig er hægt að segja svo dramatíska og mikla sögu á rúmlega klukkutíma án þess að þynna út og gera merkingarlítið það sem gerðist? Stutta svarið er: Það er hægt og það gera Hjálmtýr Heiðdal og félagar aðdáunarlega,“ segir Karl Th. Birgisson í umsögn sinni um Baskavígin eftir Aitor Aspe á Herðubreið.

Karl segir ennfremur:

Efasemdir mínar stöfuðu einkum af því að ég hef heyrt og lesið meira um þessi voðaverk en nokkurri sál er hollt. Myndin er hins vegar ekki fyrir nörda eins og mig eða fræðimennina sem koma þar fram með sín ígrunduðu sjónarmið. Sagan af Baskamorðunum hefur nefnilega aldrei verið sögð af neinni hreinskilni fyrir allan almenning. Í grunn- og menntaskólabókum mínum voru þessi illvirki ekki nefnd nema rétt í forbifarten enda ekki til siðs að segja frá því sem varpar vondu ljósi á Íslendinga í sögu okkar.

Enn síður hefur sagan verið sögð í heild sinni fyrir alþjóðlegan markað. Ég nefni bara Spán og Frakkland, þótt hún eigi hiklaust erindi miklu víðar um veröldina.

Hinn ungi leikstjóri skilar flókinni sögu afar haganlega frá sér af trúmennsku við sögulegar staðreyndir og túlkanir, en um leið áhrifamiklum leiknum atriðum.

En á sagan af þessum atburðum erindi við okkur sem eitthvað annað en hryllingsmynd úr fortíðinni? Án þess að ég vilji dramatísera samanburðinn við nútímann, þá getum við velt tvennu fyrir okkur:

Þessir áttatíu skipreika Baskar voru fyrstu hælisleitendurnir á Íslandi. Þeir áttu sér enga lífsvon eða lífsbjörg nema heimamenn tækju við þeim. Í landinu giltu hins vegar lög um að útlendingum væri meinuð veturseta, jafnvel þótt þeir ættu einskis annars úrkosta og vildu ekki einu sinni vera hérna. Hljómar þetta eitthvað kunnuglega?

Af þessum áttatíu voru um þrjátíu drepnir. Færð og óveður vörnuðu því að Ari í Ögri næði til hinna og vantaði þó ekki að hann reyndi með sinn einkaher bænda og búaliðs.

Baskarnir sem eftir lifðu fundu skjól meðal heimamanna, stunduðu sjóinn og drógu björg í bú með margvíslegum öðrum hætti. Þetta voru engir iðjuleysingjar.

Vonandi áttu þeir líka ástarlíf og bættu þannig genamengið. Fyrir vestan varð til bask-íslenzka sem sérstakt samskiptatungumál.

Þannig auðguðu Baskarnir fimmtíu bæði mannlíf og efnahag á Vestfjörðum þessa 5-6 mánuði sem þeir neyddust til að þrauka í sköflunum og frosthörkunum. Svo fóru þeir heim. Eða reyndu það. Við vitum ekki fyrir víst hvernig þeim farnaðist.

Þarf að spyrja að hinu augljósa? Hvor aðferðin er nú betri gagnvart þeim sem nauðir reka hingað, að vísa þeim frá aftur í eymdina og vonleysið, jafnvel opinn dauðann, eða taka þeim fagnandi og eiga við á sem fjölbreytilegust samskipti?

En Baskavígin eru vitaskuld ekkert um slík mál. Þetta er bara gömul og hræðileg saga, sem hefur enga merkingu nema sem lýsing á úrhrakinu Ara í Ögri og píslarvottinum Jóni lærða.

Er það ekki annars?

Sjá nánar hér: Fyrstu hælisleitendurnir: Þrjátíu drepnir. Hinir sluppu frá yfirvaldinu. Vegna veðurlags og ófærðar á Vestfjörðum

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR