Tökur á Mihkel, fyrstu bíómynd Ara Alexanders, hefjast í dag. Myndin byggir lauslega á líkfundarmálinu svokallaða frá 2004. Tómas Lemarquis og Atli Rafn Sigurðarson fara með helstu hlutverk.
Fréttatíminn greinir frá:
Myndin byggir lauslega á einu umtalaðasta sakamáli síðari ára; þegar Litháinn Vaidas Jucevicius kom til Íslands með metamfetamín innvortis. Þeir Jónas Ingi Ragnarsson, Grétar Sigurðsson og Tomas Malakauskas höfðu skipulagt smyglið ásamt eiturlyfjahring í Litháen. Þeir fóru með Vaidas í íbúðarhúsnæði í Kópavogi þar sem hann veiktist heiftarlega og lést fjórum dögum síðar. Í Mihkel mun Atli Rafn leika Jóhann sem byggir að hluta á Jónasi Inga og Tómas leikur Bóbó sem minnir á Grétar.
Í stað þess að leita til lögreglu brugðu mennirnir á það ráð að vefja líkinu í plastpoka og keyra á Djúpavog, þar sem þeir urðu veðurtepptir í tvo daga með líkið í skottinu. Því næst óku þeir til Norðfjarðar þar sem Grétar beið þeirra. Til stóð að grafa líkið en vegna frosta ákváðu mennirnir að henda því í sjóinn. Þremur dögum síðar fann kafari lík Vaidasar fyrir tilviljun.
Sjá nánar hér: Tómas og Atli Rafn verða Grétar og Jónas í líkfundarmálinu | Fréttatíminn