spot_img

Viðhorf | Hin rammíslenska en alþjóðlega „Morðsaga“

Það var gaman að sjá tæknilega endurbætta útgáfu af Morðsögu (1977) Reynis Oddssonar í Háskólabíói í gær. Þetta er allavega í fjórða skiptið sem ég sé myndina (síðast fyrir fáeinum árum) og enn tekst henni að koma manni á óvart. Hún hefur einfaldlega elst mjög vel, er afar nútímaleg, bæði hvað varðar efnistök og nálgun, sem og merkilegur vitnisburður um samtíma sinn.

Í inngangi að viðtali sem ég tók við Reyni 1997 skrifaði ég meðal annars þetta um myndina:

Það sem hinsvegar kemur á óvart er hversu þroskað verk hún er að mörgu leyti og hversu sterkan samhljóm hún á með stefnum og straumum  í alþjóðlegri kvikmyndagerð þessara ára. Þetta er ekki síst athyglisvert þegar haft er í huga að hún er gerð í tómarúmi hvað varðar þekkingu, aðstöðu og aðrar forsendur hér á landi. Þegar Reynir Oddsson hófst handa við upptökur í júlí 1975 höfðu liðið fjórtán ár síðan “79 af stöðinni” leit dagsins ljós, gerð af dönskum leikstjóra og fjármögnuð af Dönum (reyndar kom Reynir þar nokkuð við sögu eins og fram kemur í eftirfarandi viðtali við hann). Áratuginum áður höfðu Óskar Gíslason og Loftur Guðmundsson birst með fáeinar myndir. Miklu lengra var síðan Guðmundur Kamban gerði “Höddu Pöddu” sína í Danmörku. Þetta var allt og sumt. Í þessum aðstæðum birtist okkur kvikmynd sem er ekki aðeins nútímaleg, heldur unnin af leikstjóra sem hefur greinilega ástríðu, áhuga og tilfinningu fyrir möguleikum miðilsins.

Þetta með tómarúmið var kannski full mikið sagt, það var ákveðin gerjun í gangi á þessum árum hjá hópi fólks og stuttu síðar kom það í ljós. En með samhljómi við stefnur og strauma var ég að vísa í áhrif meðal annars frá Chabrol og Hitchcock, það er myndin spinnur áfram þann þráð sem frönsku nýbylgjumeistararnir (þar á meðal Chabrol) hófu með því að vísa í kvikmyndirnar, setja bíóið í bíóið. Þetta er svo rætt frekar í viðtalinu.

Bíóástríðan skín í gegn

Tveir þeirra gagnrýnenda sem fjölluðu um myndina þegar hún kom út minntust á Chabrol áhrifin í umsögnum sínum, þau Sigurður Sverrir Pálsson í Morgunblaðinu og Ingibjörg Haraldsdóttir í Þjóðviljanum. Og skyldi engan undra enda höfðu bæði aflað sér menntunar í kvikmyndalistinni og því með á nótunum. Svo hjálpar auðvitað til að í einu atriði myndarinnar talar kærasti aðalpersónunnar fjálglega um snilli Chabrol þar sem þau sitja í bíó og horfa á mynd eftir hann.

Bæði Ingibjörg og Sverrir eru að vísu á því að myndin standist ekki alveg samanburð við franska meistarann, en það finnst mér ekki aðalatriðið heldur þessi skemmtilega bíóástríða sem skín í gegn hjá Reyni.

Steindór Hjörleifsson í Morðsögu.
Steindór Hjörleifsson í Morðsögu.

Gatið á íslenskri menningu

Annað sem er áberandi í gagnrýni og öðrum athugasemdum um myndina kringum frumsýningu hennar er að hún er ekki talin nægilega íslensk. Og víst tók Reynir það fram þegar hann kynnti myndina að þessi saga gæti gerst hvar sem er. Þetta þótti sumum ekki til fyrirmyndar – og vissulega má segja að til dæmis Ingibjörg Haraldsdóttir hafi nokkuð til síns máls hér:

Hverskonar kvikmyndir við eigum að framleiða, nú þegar Reynir hefur bent okkur á þá dásamlegu staðreynd að þetta er hægt. Með hverju eigum við að fylla upp þetta gat sem er á íslenskri menningu, tómarúmið þar sem kvikmyndalistin á að vera? Getum við vænst þess að leggja undir okkur erlenda markaði fyrren við höfum komið okkur upp þjóðlegri kvikmyndagerð? Þurfum við ekki að taka til athugunar líf okkar á þessu skeri í öll þessi ár, hvernig það hefur mótað okkur og gert okkur frábrugðin hinu fólkinu? Þá fyrst getum við snúið okkur að því sem við eigum sameiginlegt með öðru fólki. Viðmiðun okkar má ekki vera: Þetta gæti allsstaðar gerst. Við þurfum að ganga útfrá því sem gerist á Íslandi og innra með okkur sjálfum. Seinna kemur kannski einhver og segir: Þetta gæti alveg eins gerst hjá okkur. Og þá er tilganginum náð, þá erum við farin að skapa list. 

En þarna þarf að hafa í huga að Ingibjörg er einmitt að skrifa inní tómarúm – gatið á íslenskri menningu eins og hún bendir sjálf á. Reynir hóf að fylla uppí þetta gat og aðrir fylgdu í kjölfarið, úr verður saga og af henni mótast afstaða sem kallar á andsvör og svo nýjar hugmyndir. Allt fram streymir eins og þar stendur – fjölbreytni er lykilatriði, togstreita og átök um ólíkar leiðir, mismunandi tjáningu. Á endanum eru Íslendingar frábrugðnir á margskonar hátt – og sumir alveg merkilega líkir öðrum af mannkyninu…

Svo er annað hvernig tíminn breytir viðhorfum og upplifun, kvikmyndin hefur breyst vegna þess að við erum ekki þau sömu og við vorum (eða lifðum ekki þessa tíma). Áhugaverður kontrapunktur við ummæli Ingibjargar er komment Viðars Víkingssonar á Facebook í gær eftir sýningu myndarinnar:

Einkar skemmtilegt að sjá Morðsögu eftir Reynir Oddsson í nýrri tæknilega endurbættri útgáfu. Þessari mynd frá 1977 var um tíma legið á hálsi fyrir að vera ekki jafn „íslensk“ og þær myndir sem á eftir fylgdu í íslenska kvikmyndavorinu. Ólifnaður nýríkra burgeisa ætti ekki sama erindi við þjóðarsálina og vandræði sveitamanna í heimahögum o.þh. En nú áttar maður sig á að Morðsaga tæklaði heimilisofbeldi, nauðganir, …, löngu áður en slíkt varð viðfangsefni í skáldsögum og hvað þá bíómyndum. Og hvort hún sé nógu íslensk…, var nokkuð meira íslenskt þá en að þegja yfir slíku „af tillitssemi við aðstandendur“?

Þetta er kannski það sem eftir stendur. Nú næstum fjórum áratugum síðar blasir við að þetta er rammíslensk kvikmynd.

Hún færir okkur tíðaranda áttunda áratugsins á Íslandi beint í æð; tískuna, dekorinn, leifarnar af blómabarnamenningunni og svo smá skammt af borgaralegri úrkynjun gegnum hina nýríku úthverfamenningu sem þá var að festa rætur í borginni.

Og þó hún sé vissulega dálítið sensationalísk að efni til og nokkuð hrá hvað persónusköpun varðar tæklar hún málefni sem lágu að mestu í þagnargildi í íslensku samfélagi þessara tíma gegnum afar femínísk viðhorf þar sem feðraveldinu er gefið rækilega á baukinn!

Loks vil ég árétta þá skoðun mína að Morðsaga er upphafið að hinu svokallaða íslenska kvikmyndavori.

 

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR