Það var gaman að sjá tæknilega endurbætta útgáfu af Morðsögu (1977) Reynis Oddssonar í Háskólabíói í gær. Þetta er allavega í fjórða skiptið sem ég sé myndina (síðast fyrir fáeinum árum) og enn tekst henni að koma manni á óvart. Hún hefur einfaldlega elst mjög vel, er afar nútímaleg, bæði hvað varðar efnistök og nálgun, sem og merkilegur vitnisburður um samtíma sinn.
Í inngangi að viðtali sem ég tók við Reyni 1997 skrifaði ég meðal annars þetta um myndina:
Þetta með tómarúmið var kannski full mikið sagt, það var ákveðin gerjun í gangi á þessum árum hjá hópi fólks og stuttu síðar kom það í ljós. En með samhljómi við stefnur og strauma var ég að vísa í áhrif meðal annars frá Chabrol og Hitchcock, það er myndin spinnur áfram þann þráð sem frönsku nýbylgjumeistararnir (þar á meðal Chabrol) hófu með því að vísa í kvikmyndirnar, setja bíóið í bíóið. Þetta er svo rætt frekar í viðtalinu.
Bíóástríðan skín í gegn
Tveir þeirra gagnrýnenda sem fjölluðu um myndina þegar hún kom út minntust á Chabrol áhrifin í umsögnum sínum, þau Sigurður Sverrir Pálsson í Morgunblaðinu og Ingibjörg Haraldsdóttir í Þjóðviljanum. Og skyldi engan undra enda höfðu bæði aflað sér menntunar í kvikmyndalistinni og því með á nótunum. Svo hjálpar auðvitað til að í einu atriði myndarinnar talar kærasti aðalpersónunnar fjálglega um snilli Chabrol þar sem þau sitja í bíó og horfa á mynd eftir hann.
Bæði Ingibjörg og Sverrir eru að vísu á því að myndin standist ekki alveg samanburð við franska meistarann, en það finnst mér ekki aðalatriðið heldur þessi skemmtilega bíóástríða sem skín í gegn hjá Reyni.
Gatið á íslenskri menningu
Annað sem er áberandi í gagnrýni og öðrum athugasemdum um myndina kringum frumsýningu hennar er að hún er ekki talin nægilega íslensk. Og víst tók Reynir það fram þegar hann kynnti myndina að þessi saga gæti gerst hvar sem er. Þetta þótti sumum ekki til fyrirmyndar – og vissulega má segja að til dæmis Ingibjörg Haraldsdóttir hafi nokkuð til síns máls hér:
En þarna þarf að hafa í huga að Ingibjörg er einmitt að skrifa inní tómarúm – gatið á íslenskri menningu eins og hún bendir sjálf á. Reynir hóf að fylla uppí þetta gat og aðrir fylgdu í kjölfarið, úr verður saga og af henni mótast afstaða sem kallar á andsvör og svo nýjar hugmyndir. Allt fram streymir eins og þar stendur – fjölbreytni er lykilatriði, togstreita og átök um ólíkar leiðir, mismunandi tjáningu. Á endanum eru Íslendingar frábrugðnir á margskonar hátt – og sumir alveg merkilega líkir öðrum af mannkyninu…
Svo er annað hvernig tíminn breytir viðhorfum og upplifun, kvikmyndin hefur breyst vegna þess að við erum ekki þau sömu og við vorum (eða lifðum ekki þessa tíma). Áhugaverður kontrapunktur við ummæli Ingibjargar er komment Viðars Víkingssonar á Facebook í gær eftir sýningu myndarinnar:
Þetta er kannski það sem eftir stendur. Nú næstum fjórum áratugum síðar blasir við að þetta er rammíslensk kvikmynd.
Hún færir okkur tíðaranda áttunda áratugsins á Íslandi beint í æð; tískuna, dekorinn, leifarnar af blómabarnamenningunni og svo smá skammt af borgaralegri úrkynjun gegnum hina nýríku úthverfamenningu sem þá var að festa rætur í borginni.
Og þó hún sé vissulega dálítið sensationalísk að efni til og nokkuð hrá hvað persónusköpun varðar tæklar hún málefni sem lágu að mestu í þagnargildi í íslensku samfélagi þessara tíma gegnum afar femínísk viðhorf þar sem feðraveldinu er gefið rækilega á baukinn!
Loks vil ég árétta þá skoðun mína að Morðsaga er upphafið að hinu svokallaða íslenska kvikmyndavori.