Fjölmiðlar, þar á meðal Klapptré, hafa sagt frá fyrirætlunum Benedikts Erlingssonar og Dags Kára um kvikmyndun Egils sögu. Í ljós hefur komið að um er að ræða kvikmynd fyrir sjónvarp sem byggð verður á einleik Benedikts, Mr. Skallagrímsson.
Benedikt upplýsti þetta í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í dag. Likt og í einleiknum mun Benedikt fara með öll hlutverkin. Verkið var hin mesta skemmtan og ekki að efa að Norðurlandameistararnir tveir í kvikmyndagerð rúlla þessu glæsilega upp.
Einnig verður að gefa Benedikt prik fyrir óvenju gott PR-stönt.
Í þessu sambandi rifjast upp þegar Friðrik Þór Friðriksson lét auglýsa í útvarpinu að nú færu fram tökur á Njálssögu á Þingvöllum og væri fólk beðið um að hafa varan á, jafnvel ekki vera að þvælast í þjóðgarðinum að nauðsynjalausu. Vakti þetta nokkra athygli og hugðu margir gott til glóðarinnar. Gott ef ekki bar á aukinni umferð á Þingvöllum þessa helgi þar sem fjölskyldur í sunnudagsbíltúr óku þvers og kruss í leit að ummerkjum um rándýra kvikmyndagerð.
Líkt og sjá má hér að neðan gekk Friðrik Þór enn lengra og sagði fullum fetum við Helgarpóstinn í júní 1979 að hann væri að undirbúa leikna mynd um Njálssögu.
Myndin var svo sýnd í Háskólabíói 6. ágúst 1980 og vissulega var þetta kvikmyndun á Njálssögu, en semsagt í bókstaflegum skilningi. Hljómsveitin Þeyr flutti tónlistina á sviðinu í stóra salnum undir hinni 16 mínútna löngu mynd þar sem bókinni var flett uns kom að brennunni á Bergþórshvoli en þá var kveikt í bókinni.
Og reyndar var þetta hin fínasta mynd.