Morgunblaðið um „InnSæi“: Linar kreppu streituþræla

innsæiHjördís Stefánsdóttir skrifar í Morgunblaðið um heimildamyndina InnSæi eftir Hrund Gunnsteinsdóttur og Kristínu Ólafsdóttur. Hún gefur myndinni fjóra og hálfa stjörnu og segir hana minna  áhorfendur á að heimurinn sé undraverður og verði seint kortlagður til hlítar.

Umsögn Hjördísar fer hér:

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld, eins og segir í dægurlaginu; hraðar sérhvern dag, hraðar sérhvert kvöld. Heimildarmyndin InnSæi boðar framsækna vitundarvakningu um böl hinna buguðu ofuriðjusömu streituþræla í hraðskreiðum vestrænum samtíma og miðlar mögulegri lausn áþjánar þeirra.

Áhorfendur fara í hrífandi heimsreisu með tveimur frumkvöðlum á sviði alþjóðlegs hjálparstarfs og almannatengsla og komast að raun um að mannlegt innsæi getur brúað rökhugsun og sköpunarkraft jafnt í leik og starfi. Auk þess getur það aukið aðlögunarhæfni nútímamannsins að síbreytilegri heimsmynd hans og opnað fyrir nýsköpun og hugviti sem nært getur framtíð hinnar vestrænu heimsbyggðar.

Um þessar mundir hampar vestrænt atvinnulíf skilvirkni á kostnað frumkvæðis og einkennist ákvarðanataka þess nokkuð af skammtímaávinningum og faustískri þekkingaröflun. Þar af leiðandi búa margir vinnandi þegnar þessa heims við sjúklega örkumlandi streitu og kulnun í starfi. Enn fremur eru síbyljandi upplýsingaáreiti og skeytingarlaust ofbeldi orðin daglegur hluti af menningu margra samfélaga og margir einstaklingar hafa misst tengsl við umhverfi sitt, náttúruna, sinn innri mann og náungann.

Hrund Gunnsteinsdóttir er handritshöfundur, sögumaður og annar leikstjóra myndarinnar. Hún er mannfræðingur að mennt og lauk framhaldsnámi í þróunar- og átakafræðum. Um tíma vann hún fyrir Sameinuðu þjóðirnar á stríðshrjáðum svæðum, í Kosovo og víðar, en hún uggði ekki að sér og iðjusemi gerði hana að buguðum streituþræl. Myndin byggir því á reynslu Hrundar sjálfrar af eftirköstum örmögnunar og leið hennar og leit að betra lífi í gegnum innsæi sitt.

Hrund fékk kvikmyndaframleiðandann og leikstjórann Kristínu Ólafsdóttur til liðs við sig. Kristín er með meistaragráðu í alþjóðlegum stjórnmálum, en áður hafa þær Hrund starfað saman fyrir UNIFEM-samtökin. Í myndinni koma einnig fram heimsþekktir leiðtogar og hugsuðir á sviði lista, vísinda og fræða sem leiða áhorfendur inn í margræðan heim InnSæis.

Viðmælendurnir eru vel valdir en nærvera og eggjandi augnaráð serbnesku gjörningslistakonunnar Marinu Abramovics setur sérstaklega sterkan svip á myndina því hún kastar eins konar álögum á áhorfendur og fær þá til að líta inn á við, viðurkenna líkamleg takmörk sín og þora að takast á við óravíddir tilfinninga sinna og hugarflugs.

Taugalíffræðingurinn Marti Spiegelman bendir á að Vesturlandabúar eru fastir í línulegri sjálfsstýringu og nota til þess aðeins 2-3% af heilaorku og getu sinni. Einstaklingar hjóla því áfram eins og hamstrar í linnulausu lífsgæðakapphlaupi, fastir í viðjum vanans og brotakenndri tilveru þar sem viska hefur vikið fyrir þekkingu og þekkingu hefur verið skipt út fyrir upplýsingar sem samanstanda af aðgreindum söfnum staðreynda og gagna. Alræði rökhyggju hefur yfirskyggt allan sköpunarkraft og núvitund, sem hefur gerræðisáhrif á umhverfið og mannlega velferð.

Sálfræðingurinn Iain McGilchrist segir áhorfendum að innsæi sé ekki bara einhver bleik og mjúk tilfinning heldur sé sjálfsskoðun nauðsynleg fyrir heilastarfsemi mannfólksins því hún auki samkennd. Ójafnvægi í heilastarfseminni leiðir til geðsjúkdóma og ýmiss konar öfgastefna, fordóma og haturs svo fátt eitt sé nefnt. Of mikið áreiti í daglegu amstri leiðir fólk inn í kaldar auðnir einangrunar og einveru og þá missir mannfólkið sjónar á eigin mikilvægi og mætti náungakærleikans, sem aftur leiðir til glundroða, spillingar og ófriðar.

Ýktar nærmyndir af augum Marinu Abramovics og annarra í myndinni fá áhorfendur til að líta inn á við og spegla sálir sínar. Sú innsýn opnar gáttir inn í nýjar víddir þar sem innsæið ræður ríkjum. Reyndar má segja að snilldarlega útfærð kvikmyndataka og klipping hjálpi mikið til við miðlun á boðskap myndarinnar. Þar takast á ýktar nærmyndir og fjarmyndir, ýmist úr lofti eða af láði, af lifandi verum, misgróskumiklum lífríkjum og erilsömu borgarlandslagi. Mögnuð grafík og stórbrotið myndefni í anda National Geograpic er dáleiðandi og biðlar til allra skynfæra. Kvikmyndatakan einkennist af breytilegri skerpu þar sem athygli áhorfenda er beint frá viðfangsefnum í forgrunni til þess sem er fjær í bakgrunni. Þannig skapast samræður milli hins agnarsmáa og þess risavaxna. Myndefnið hreyfist, dansar og umbreytist í einskonar kviksjá lita, mynstra og speglana. Áhrifin eru heillandi og heildarútkoman verður sérlega sterk með viðbættri seiðandi undirleikstónlist og kynngimögnuðum, táknrænum hreyfimyndum.

InnSæi minnir áhorfendur á að heimurinn er undraverður og að hann verður seint kortlagður til hlítar. Mannfólkið þarf að virða eigin takmarkanir í hraða og amstri samtímans. Það þarf að læra að hlusta á innsæi sitt og forðast að selja streitudjöflinum sál sína og mannlega samkennd til þess eins að ná frama, velmegun eða til að öðlast takmarkalausa þekkingu. Því sú sala er þegar á hólminn er komið, og eins og Faust fékk að reyna, aðeins tortímandi kvöl og pína.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR