Heimildamyndin Dagur í lífi þjóðar eftir Ásgrím Sverrisson er sýnd í kvöld kl. 20:45 í RÚV í tengslum við hálfrar aldar afmæli Sjónvarpsins. Í myndinni fjallar fjöldi Íslendinga um atvik úr lífi sínu þann 30. september 2015, fyrir sléttu ári síðan.
Miðvikudaginn 30. september 2015 bauð RÚV öllum sem vildu að taka upp tökuvélina og segja í lifandi myndum frá lífi sínu þennan dag. Markmiðið var að búa til einskonar hversdags synfóníu, portrett af lífi fólksins í landinu á þessum tiltekna degi.
Viðtökur voru frábærar, en yfir tuttugu klukkustundir af efni bárust frá vel á þriðja hundrað manns hvaðanæva af landinu.
Úr þessu efni hefur nú verið klippt tæplega klukkustundar löng kvikmynd sem Ásgrímur Sverrisson stjórnaði. Sunna Gunnlaugs gerði tónlist og Adda Rut Jónsdóttir sá um framkvæmdastjórn.
Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés er jafnframt stjórnandi þessarar myndar.