Stikla íslensk-amerísku hrollvekjunnar Child Eater eftir Erling Óttar Thoroddsen er komin út og má sjá hér. Myndin verður Evrópufrumsýnd í Bíó Paradís þann 28. október næstkomandi, eða helgina fyrir hrekkjavöku.
Frumsýningin á Íslandi kemur í kjölfar heimsfrumsýningar myndarinnar á Brooklyn Horror Film Festival 16. október, þar sem Child Eater er lokamynd hátíðarinnar
Þetta er fyrsta kvikmynd Erlings í fullri lengd, en hún er byggð á samnefndri stuttmynd sem hann gerði sem nemi við Columbia University í New York. Stuttmyndin var sýnd á hátíðum á borð við SXSW, RIFF og New York Horror Film Festival.
Myndinni er svo lýst:
Helen grunar ekki hversu hryllilegt kvöld hún á í vændum þegar hún fer í afskekkt hús við skóginn til að passa Lucas litla. Hann kvartar og kveinar yfir því að illmenni sé í felum inni í skápnum sínum og þegar Lucas hverfur sporlaust um miðja nótt fer Helen að gruna að hann hafi verið að segja satt.