Þarf íslenskt sjónvarp pólitíska vernd?

Mynd: Kjarninn

Hallgrímur Oddsson skrifar í Kjarnann um ákall forsvarsmanna einkastöðvanna um lagabreytingar til að bregðast við erlendri samkeppni og afnám auglýsinga í RÚV. Hann veltir því meðal annars upp hvort núverandi viðskiptamódel einkastöðvanna eigi sér framtíð, jafnvel þó komið yrði til móts við óskir þeirra.

Hallgrímur segir m.a.:

Hægt er að skipta áhyggjum stjórnendanna í tvennt. Annars vegar veru RÚV á auglýsingamarkaði og hins vegar gjörbreytt landslag fjölmiðlanna í harðnandi samkeppni við erlendar efnisveitur um áskriftartekjur og samfélagsmiðla um auglýsingatekjur. Fyrrnefnda málið er langt því frá nýtt af nálinni og útlit er fyrir að þverpólitísk samstaða sé um það. Hið síðarnefnda, þ.e. innreið efnisveita og samfélagsmiðla, er síðan kjarni þess nýja veruleika sem hefðbundnir, línulegir sjónvarpsmiðlar starfa nú við. Og þótt Alþingi verði við kröfum fjölmiðlanna, með því að veita undanþágur frá skatti og almennt slaka á gerðum kröfum, þá er alls óvíst hvort núverandi viðskiptamódel fjölmiðlanna eigi sér framtíð.

Og ennfremur:

Breytt samkeppnisstaða íslensku fjölmiðlanna felst að hluta til í ójafnvæginu hvað varðar skattlagningu, þar sem erlendu efnisveiturnar greiða ekki skatta hérlendis. En að langstærstum hluta felst breytt samkeppnisstaða íslensku miðlanna í tæknibreytingunum sem orðið hafa, og auknu vali neytenda. Sterkasti leikur 365 og Símans felst í sömu meginþáttum og fyrr: Samkeppnishæfum verðum og þjónustu. Samkeppni er góð. Margt bendir til að aukin samkeppni erlendis frá hafi bætt íslenska fjölmiðla og þá þjónustu sem þeir veita. Það sést meðal annars á auknu aðgengi að eldra efni og bættu viðmóti efnisveita þeirra. Stöðvarnar hafa, a.m.k. enn sem komið er, ýmsa styrkleika umfram erlendu efnisveiturnar og geta bætt eigin efnisveitur margfalt. Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir viðskiptamódelið meira málið en regluverkið.

Greinina má lesa í heild hér: Þarf íslenskt sjónvarp pólitíska vernd? | Kjarninn

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR