Bac Films dreifa „Undir trénu“ í Frakklandi

Rammi úr Undir trénu.

New Europe Film Sales hefur selt dreifingarréttinn í Frakklandi á kvikmynd Hafsteins Gunnars Sigurðssonar Undir trénu til Bac Films, eins helsta dreifingaraðila þar í landi.

Bac Films dreifði meðal annars áður Fúsa og Djúpinu í Frakklandi.

Tökum á myndinni lauk um síðustu mánaðamót og er áætlað að hún verði tilbúin til sýninga í apríl á næsta ári.

Áætlaður kostnaður við myndina nemur um 260 milljónum króna en hún nýtur stuðnings frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, Dönsku kvikmyndastofnuninni, Pólsku kvikmyndastofnuninni, Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum og Eurimages.

Myndin hefur þegar verið forseld til Senu á Íslandi og RÚV, auk þess sem Scanbox hefur keypt dreifingarrétt á Norðurlöndum.

New Europe Film Sales sá einnig um sölu á Hrútum Gríms Hákonarsonar sem seld var til yfir 40 landa, en framleiðandi þeirrar myndar, Grímar Jónsson hjá Netop Films, er einnig framleiðandi á Undir trénu ásamt Profile Pictures í Danmörku og Madants í Póllandi.

Sjá nánar hér: France’s Bac nabs rights to “Under the Tree” from “Rams” producers | Variety

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR