Eiðurinn eftir Baltasar Kormák verður heimsfrumsýnd í „Special Presentations“ flokknum á Toronto hátíðinni sem stendur dagana 8.-18. september næstkomandi. Flokkurinn snýst um kvikmyndir sem vekja munu mikla athygli og koma frá leiðandi kvikmyndagerðarmönnum í heiminum. Myndin verður frumsýnd á Íslandi 9. september.
Myndin segir af hjartaskurðlækninum Finni sem áttar sig á að dóttir hans er komin í neyslu. Þegar hún kynnir þekktan dópsala fyrir fjölskyldunni sem nýja kærastann ákveður Finnur að taka í taumana og koma dótturinni á réttan kjöl, hvað sem það kostar.
Með helstu hlutverk fara Baltasar Kormákur, Hera Hilmarsdóttir og Gísli Örn Garðarsson. Baltasar leikstýrir en myndin byggir á sögu Ólafs Egilssonar sem skrifar handritið ásamt leikstjóranum. Framleiðendur eru Baltasar og Magnús Viðar Sigurðsson fyrir RVK Studios.
Óttar Guðnason stýrir kvikmyndatöku, Atli Geir Grétarsson og Heimir Sverrisson hanna leikmynd og Sigvaldi J. Kárason klippir. Hildur Guðnadóttir semur tónlist myndarinnar.
XYZ Films sér um sölu á alþjóðavísu.
Um er að ræða fyrsta leikarahlutverk Baltasars Kormáks síðan hann lék í kvikmynd Óskars Jónassonar, Reykjavík Rotterdam, árið 2008.
Þess má geta að í fyrra voru fyrstu tveir þættir Ófærðar, sjónvarpsþáttaraðarinnar úr smiðju Baltasars Kormáks og Sigurjóns Kjartanssonar, heimsfrumsýndir í Primetime hluta Toronto hátíðarinnar og sömuleiðis var Djúpið, síðasta íslenska kvikmynd Baltasars sem leikstjóra á undan Eiðnum, heimsfrumsýnd í Special Presentations flokki hátíðarinnar árið 2012.