Bíó Paradís er að leita að nýjum vinum um þessar mundir og verður nafn þess er gefur kvikmyndahúsinu 67 þúsund krónur grafið á sætisbakið í einum bíósalnum. Þá verður bíósalur númer þrjú nefndur í höfuðið á þeim sem gefur 1,3 milljónir króna.
Morgunblaðið skýrir frá:
Forsvarsmenn Bíó Paradísar á Hverfisgötu opnuðu á dögunum styrktarsíðu þar sem hægt er að styrkja kvikmyndahúsið um allt frá 25 til 10.000 evrur, eða um 3.300 til 1.300.000 krónur. Fjármagnið mun renna í endurbætur á húsinu og bætta þjónustu.
Allar upplýsingar á styrktarsíðunni eru á ensku og segir Ása Baldursdóttir, kynningar- og dagskrárstýra, að verið sé að höfða til erlendra velgjörðarmanna. Hvetur hún Íslendinga sem vilja styrkja reksturinn að kaupa sér árs- eða klippikort hjá kvikmyndahúsinu og nýta sér þjónustuna með þeim hætti.
Og ennfremur:
Nefna sal eða sæti
Ýmsir fjármögnunarmöguleikar eru í boði en lægsta framlagið nemur 25 evrum, eða 3.300 krónum. Sá sem lætur það af hendi uppsker þakklæti bíóhússins, að því er segir á síðunni, auk þess sem honum verður tilkynnt um það sem er í gangi hverju sinni með fréttabréfi. Það sama gildir um þann sem gefur 100 evrur, sem jafngildir um 13.500 krónum.
Næsta mögulega fjárhæð er 500 evrur, eða um 67 þúsund krónur, en líkt og áður segir getur sá sem gefur það valið um nafn til að láta grafa í sætisbak í einum bíósalnum. Þá verður hans einnig getið á vefsíðu bíóhússins.
Þá verður bíósalur númer þrjú nefndur í höfuðið á þeim sem gefur 10.000 evrur, eða 1,3 milljónir króna, en í salnum eru 49 sæti.
Bíósalur númer tvö verður nefndur í höfuðið á þeim sem gefur 30.000 evrur, eða fjórar milljónir króna, en í þeim sal eru 135 sæti.
Þá verður stærsti salur hússins, salur númer eitt, nefndur eftir þeim sem gefur 60.000 evrur, eða um átta milljónir króna. Í salnum eru 205 sæti.
Sjá nánar hér: Nafnið á sætisbak fyrir 67.000 – mbl.is