Börkur Gunnarsson skrifar fyrir Morgunblaðið um móttökur síðustu myndar Sólveigar Anspach, Sundáhrifanna á Cannes hátíðinni, þar sem hún hlaut SACD verðlaunin fyrir bestu frönskumælandi myndina í Director’s Fortnight dagskránni.
Börkur skrifar:
Á þriðudagskvöld var síðasta bíómynd Sólveigar Anspach, The Together Project, frumsýnd í Cannes við lofsamlegar undirtektir. Þetta er síðasta myndin í sjálfstætt standandi þríleik hennar sem hófst með Skrapp út, síðan kom Queen of Montreuil og núna The Together Project.
Hálfíslenskur leikstjóri
Fyrsta myndin hennar Hertu upp hugann vakti heimsathygli er hún var frumsýnd í Cannes árið 1999. Myndin fjallaði um unga konu sem er barnshafandi en jafnframt með krabbamein. Að hluta til var myndin byggð á eigin reynslu enda hafði Sólveig greinst með krabbamein nokkru fyrr á sama tíma og hún var barnshafandi.
Kvikmyndaleikstjórinn Sólveig Anspach, sem var hálfíslensk og hálfbandarísk en bjó nánast alla sína ævi í Frakklandi lést á síðasta ári úr krabbameini aðeins 54 ára gömul.
Íslenska framleiðslufyrirtækið Zik Zak sem hefur áður unnið að myndum Sólveigar framleiðir myndina ásamt franska framleiðslu fyrirtækinu Agat Films.
Skúli Malmquist er framleiðandi myndarinnar ásamt Patrick Sobelman.
Skúli sem hefur farið með nokkrar bíómyndir til Cannes sagðist aldrei hafa upplifað að uppklapp eftir mynd stæði í fimmtán mínútur.
Ást á sundkennara
Myndin fjallar um Samir, sem er staðráðinn í að bæta ráð sitt gagnvart sundkennara sínum Agathe, sem hann er yfir sig ástfanginn af.
Hann eltir hana alla leið til Íslands en það kemur babb í bátinn þegar hann verður fyrir rafstraumi og missir minnið. Didda Jónsdóttir fer með sama hlutverk í myndinni og hún fór með í hinum tveimur fyrri myndum í þríleiknum.
Stanslaust lófatak
Aðspurður hversvegna Skúli hafi byrjað að vinna með Sólveigu segir hann að hún hafi verið magnaður listamaður og þess vegna auðvelt að ákveða að vinna með henni þegar hann var beðinn. „Hún kom til dyranna eins og hún var klædd,“ segir Skúli. „Kom fram við alla á sama hátt. Einstakur leikstjóri.“
The Together Project var frumsýnd í gærkvöldi í flokknum Director’s Forthnight í sama kvikmyndasal og fyrsta myndin hennar Sólveigar var frumsýnd fyrir sautján árum á Cannes. Myndinni var tekið með standandi lófataki í lokin og var fólk bæði glatt og hrært. Það var hjartnæm stund og andi Sólveigar sveif yfir vötnum.
Bíó hélt henni gangandi
Skúli segir að Sólveig hafi barist allt til enda og að markmið hennar að klára kvikmyndina hafi haldið henni gangandi. „Hún var bara þannig manneskja að hún kláraði það sem hún byrjaði á,“ segir Skúli. „Hún var reyndar búin að vinna svo marga bardaga í baráttunni við veikindi sín að maður hélt að henni tækist það enn og aftur. Sólveig skilaði af sér fyrstu útgáfu af klippinu, þann sama dag fór hún á sjúkrahús en kom aldrei aftur.“
Þekkt í Frakklandi
Sólveig er kannski ekki mjög þekkt á Íslandi þótt hún sé hálfíslensk og fæddist í Vestmannaeyjum, en hún hefur náð mikilli hylli í Frakklandi.
Síðasta bíómyndin hennar Lulu femme nue fékk nálægt 500 þúsund áhorfendur í bíó sem þykir ansi gott í hvaða landi sem er í heiminum. Yfirmaður Directors Fortnight deildar Cannes hátíðarinnar, Edouard Waintrop, sem valdi The Together Project inná hátíðina sagði aðspurður hvers vegna hann hefði valið hana að það væri einföld ástæða fyrir því, þetta væri besta gamanmynd sem hann hefði séð í ár.
Greinina má lesa í heild hér: Einstakur leikstjóri