spot_img

FK vill lágmarksfjölda innlendra starfsmanna á endurgreiðsluverkefnum

fk-logoFélag kvikmyndagerðarmanna gerir athugasemdir við frumvarp iðnaðarráðherra um hækkun tímabundinnar endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Félagið krefst þess meðal annars að það verði skilyrði fyrir endurgreiðslu að þjónustufyrirtæki og þeir sem kaupi þjónustu ráði að lágmarki 30% íslenskt/evrópskt vinnuafl við myndirnar, virði íslensk lög um vinnutíma, laun, aðbúnað og hollustuhætti svo og íslenska kjarasamninga að fullu.

Þetta kemur fram á vef RÚV og þar segir einnig:

Félag kvikmyndagerðarmanna, FK, gerir athugasemdir við að ekki hafi verið haft fullt samstarf við félagið við smíði frumvarpsins.  Því hafi boðist að koma að athugasemdum á lokametrunum en ekki hafi verið brugðist við þeim þegar frumvarpið var lagt fram á Alþingi um miðjan mars. Félagið styður frumvarpið en þó ekki athugasemdalaust, eins og kemur fram í umsögn þess til atvinnuveganefndar Alþingis.

Félagið segir í umsögn sinni að brýnt sé að lágmarksfjöldi íslenskra eða evrópskra faglærðra kvikmyndagerðarmanna starfi við þau verkefni sem gjaldgeng séu til endurgreiðslu – það hlutfall verði um 30 prósent.

Þá bendir FK á að brögð séu að því að „sumir íslenskir framleiðendur og þjónustufyrirtæki láti starfsfólk skrifa undir samninga sem innihalda ólögleg ákvæði um vinnutíma.“ Félagið segir enn fremur að borið hafi á því að brotið sé á fólki hvað varðar hvíldartíma, öryggi á tökustað og aðbúnað. Það verði því skilyrði að þeir sem ætli að nýta sér endurgreiðsluna virði íslensk lög um vinnutíma, laun, aðbúnaða og hollustuhætti.

Þá gagnrýnir FK einnig hvernig staðið var að tökum á kvikmyndinni Fast 8 við Mývatn.

„Nú nýlega var viðkvæmu vistkerfi Mývatns og Langavatns raskað með sprengingum og bílaumferð útá ís sem endaði með ósköpum, m.a með tveimur gröfum sem sukku í vatnið með tilheyrandi mengun og raski.“

Slíkt telur félagið óásættanlegt þegar um slíkar náttúruperlur er að ræða „og svo ekki minnst á það að um er að ræða fiskivötn.“ Skylda þurfi tökulið til að umgangast náttúru landsins af virðingu og fullri sátt við náttúruverndarsjónarmið.

Umhverfisstofnun komst að þeirri niðurstöðu að lítil sem engin mengun hefði orðið af því þegar gröfurnar tvær féllu ofan í Mývatn.  Stofnunin gaf út þrjú leyfi fyrir tökunum við og á Mývatni. Í síðasta leyfinu, sem gefið var út 1. apríl, var tökuliðið þó beðið um að lágmarka fjölda bifreiða og tækja á ísnum hverju sinni til að draga úr óþarfa áhættu.

Stofnunin bannaði athafnir sem á svæðum sem gætu verið með veikum blettum. Girða átti slík svæði af og halda allri umferð frá þeim. Veiðimálastofnun sagði, þegar tökuliðið fékk leyfi til sprenginga á Langavatni, að fiskur gæti drepist en áhrifin væru tímabundin og staðbundin.

Sjá nánar hér: Gagnrýna tökur Fast 8 við Mývatn | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR