Kvikmyndin Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson kemur í kvikmyndahús þann 11. mars. Aðalpersóna myndarinnar, Hringur (Atli Rafn Sigurðarson), er bíóhneigður og rekur búð með mynddiska. Búðin heitir „Ameríska nóttin“ eftir mynd Francois Truffaut La Nuit américaine, sem fjallar um kvikmyndaleikstjóra og teymi hans að taka upp kvikmynd. Búðinni var plantað á jarðhæð húss við Óðinstorg í miðborg Reykjavíkur.
Meðan á tökum stóð lögðu fjölmargir íbúar hverfisins og aðrir vegfarendur leið sína framhjá húsinu. Allur gangur var á því hvort fólk tæki eftir því að verið væri að gera kvikmynd. Þannig lýstu margir yfir mikilli ánægju sinni með að búið væri að opna slíka verslun og sögðust hlakka til að eiga við hana viðskipti!
Einn erlendur ferðalangur hafði komist óséður inn og gramsað áhugasamur í hillum í um hálftíma meðan tökuteymið stillti upp tækjum og tólum. Loks kom einn úr tökuliðinu auga á manninn og tjáði honum að ekki væri um raunverulega verslun að ræða… Ferðalangurinn var óneitanlega vonsvikinn enda mjög ánægður með úrvalið.
Rétt er að taka fram að leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar er einnig ritstjóri Klapptrés.