Tíu bestu myndirnar á Berlinale 2016

Úr Grüse aus Fukushima.
Úr Grüse aus Fukushima.

Heimildamaður Klapptrés var á Berlínarhátíðinni og komst 20 sinnum í bíó – hér er betri helmingurinn:

1. Kveðja frá Fukushima / Grüse aus Fukushima / Fukushima, mon Amour

Marie og Satomi; önnur ung og vestræn, hin gömul og japönsk, önnur trúður og hin geisha. Báðar hafa beðið skipbrot í lífinu og finna óvænt skjól hvor í annarri í þessari gullfallegu, ljóðrænu og launfyndnu mynd Doris Dörrie sem að mestu er tekin á bannsvæðinu í Fukushima, þar sem geishan gamla bjó og vill búa á ný.

2. Hinn alvarlegi leikur / Den allvarsamma leken / A Serious Game

Ástarfimmhyrningur í Svíþjóð fyrir rúmri öld síðan, árið 1912. Þetta er örlagasaga elskenda sem ekki var ætlað að eigast – og þótt hún sé ekkert frumleg sem slík þá er þetta bara svo ofboðslega vel gert.

Fortíðin var lítt sannfærandi í mörgum myndum hátíðarinnar (A Quiet Passion, Genius, Alone in Berlin) en Pernilla August er flinkur leikstjóri sem kann að gæða tímabilið alvöru lífsneista og Sverrir Guðnason og Karin Körlöf ná að gæða samband elskendanna alvöru ástríðu.

3. Bílagarðurinn / Yarden / The Yard

11811 er niðurlægður reglulega af yfirboðurum sínum, starfið er varla við hæfi manneskju og yfirmaður hans er ljóshærður maður með mikla kjálka og ískalt augnaráð, hann lítur nánast út eins og blautur draumur nasismans um aríann. En þetta er samt ekki enn eitt helfarardramað, Yarden er þvert á móti risastór bílagarður við höfnina í Malmö, þar sem splunkunýjir bílar eru fermdir á milli skipa.

Þetta er í raun mynd um vinnu, hugtakið vinnu, og það hvernig brauðstritinu er stundum breytt í helvíti á jörðu. Það vantar bara skiltið sem stóð við innganginn að Auschwitz, Arbeit macht frei. En hér göfgar vinnan ekki manninn, hún er fangelsi þar sem þér er refsað miskunnarlaust.

4. Midnight Special

Vegamynd um föður á flótta með son sinn, enda gervöll leyniþjónusta Bandaríkjanna á eftir þeim. Sonurinn, með sundgleraugu og heyrnatól til verndar frá umheiminum, er ekki nema átta ára en hann virðist hafa einhverja dularfulla hæfileika sem enginn skilur til fulls. Það er máski einfaldast að lýsa myndinni sem blöndu af E.T., Close Encounters of the Third Kind og The Sixth Sense. Það er þó allt annar tónn í þessari mynd, það gerist flest hægar – en spennan stigmagnast engu að síður.

Kjarni myndarinnar liggur svo í sambandi fegðanna, sem kjarnast ágætlega í þessum orðum föðursins: „Ég hætti aldrei að hafa áhyggjur af þér, þannig virkar þetta. Og mér finnst gott að hafa áhyggjur af þér.“

5. Miles Ahead

Ævisögur tónlistarmanna falla gjarna í klisjurnar sem fylgja rokklífinu, þar sem ævi þeirra er smættuð niður í baráttuna við dópið – og tónlistin sjálf hverfur í skuggann. Það hefði auðveldlega mátt gera slíka mynd um Miles Davis – en þess í stað er boðið upp á þrælskemmtilega og hugmyndaríka hasarmynd, þar sem ævi hans litar frásögnina sem skiptist fyrst og fremst á milli tveggja tímaskeiða.

Ewan McGregor leikur ósvífinn blaðamann sem reynir allt til að ná einkaviðtali við Davis en endar á því að flækjast í hvern eltingarleikinn á fætur öðrum, þar sem eiturlyf og stolnar upptökur spila stórt hlutverk. McGregor er mjög skemmtilegur sem blaðamaðurinn örvæntingarfulli en þetta er þó myndin hans Don Cheadle, sem lætur sér ekki nægja að leika Miles heldur leikstýrir líka, semur handritið og semur meira að segja örlitla viðbótartónlist – og ferst allt feykivel úr hendi. Svo vel að nú þegar umræðan um skortinn á Óskarstilnefningum til blökkumanna stendur sem hæst getur maður ekki annað en hugsað með sér af hverju Cheadle sé ekki búinn að vinna eina slíka styttu ennþá.

6. Að vera 17 ára / Quand on a 17 ans / Being 17

Franska unglingaútgáfan af Brokeback Mountain, tveir unglingspiltar slást við öll tækifæri en átta sig hægt og rólega á tilfinningunum sem liggja að baki. Myndin nær unglingsárunum með öllu sínu drama og annkannaleik glettilega vel en það magnaðasta er samt kvikmyndatakan. Myndin gerist öll í frönsku Pýreneafjöllunum og myndatökumanninum Julien Hirsch tekst ekkert síður að fanga náttúrufegurðina en Emmanuel Lubezki gerði í The Revenant, að auki finnum við sterkt hvernig árstíðirnar breytast og hversu beintengdir þessir strákar eru náttúruöflunum – bæði hinum ytri og hinum innri.

7. United States of Love

Við byrjum í svart-hvítum ramma þar sem einstaka hlutir eru í lit. Kommúnisminn er að falla, við erum stödd í Póllandi árið 1990, megnið af myndinni er í lit en það er ennþá kommúnistagrámi yfir, þetta eru daufir litir og aðalpersónurnar virðast ekki hafa móttekið allt þetta frelsi ennþá. Aðalpersónurnar eru fjórar konur sem þjást allar af ástleysi – og lokasenan kallast á einkennilegan hátt á við Þresti Rúnars Rúnarssonar.

8. Life on the Border

„Ég vil fá þig til að koma og sjá líf mitt.“ Átta börn og unglingar í kúrdískum flóttamannabúðum fá myndavél og þetta er afraksturinn – átta stuttmyndir um hversdagslíf í flóttamannabúðum í skugga ISIS og loftárása. Fyrsta myndin er dæmi um það að kvikmyndagerð snýst stundum aðallega um að leika sér – og það gera börn flestum betur – og þótt hinar myndirnar séu vissulega misgóðar þá eru þær bestu ótrúlega áhrifaríkar á sinn einfalda hátt – vofeiflegir atburðir verða hversdagslegir af þeirri einföldu ástæðu að þetta er þeirra hversdagur.

9. Kommúnan / Kollektivet

Thomas Vinterberg ólst upp í kommúnu í Danmörku áttunda áratugarins – og hér hefur hann endurskapað eina slíka á hvíta tjaldinu, þótt hún muni vera ansi ólíkt þeirri sem leikstjórinn ólst upp í. Myndin er ágæt en maður býst samt við meiru af Vinterberg – honum fatast aðeins flugið þegar hann þarf að skipta harkalega um gír frá fyrri (dönskum) myndum, Festen, Jagten og Submarino snérust allar um nær óbærilega spennuþrungið andrúmsloft og grun um skelfilega glæpi – og þótt myndin þyngist eftir því sem á líður þá nær Vinterberg ekki alltaf að fóta sig í ljúfsárum senum af nostalgísku kommúnulífi.

En aðalleikkonan Trine Dyrholm (sem vann silfurbjörninn) er þó frábær sem sjálfsörugg framakona sem brotnar niður þegar aldurinn tekur að færast yfir og erfiðleikar steðja að í einkalífinu. Eins er Martha Sofie Wallstrøm Hansen göldrótt í hlutverki dóttur hennar.

10. Chi-Raq

Spike Lee endurgerir hér Lýsiströtu og gerir það af talsverði íþrótt. Myndin er mjög skemmtileg þegar hún er hvað leikrænust – og Samuel L. Jackson er frábær sögumaður. En hún er ansi köflótt, frábær stundum og frekar flöt á milli þegar persónurnar bregða fyrir sig nútímalegri talsmáta – og jafn mikið og ég elska John Cusack þá er eitthvað skrítið að sjá hvítann mann flytja eldræðuna í mynd á borð við þessa.

Aðrar séðar:

Hail Caesar, War on Everyone, A Quiet Passion, In the Last Days of the City, Alone in Berlin, Where to Invade Next, Genius, The Night Manager, A Dragon Arrives og Wir sind die flut.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR