Ása mælir sérstaklega með fjórum myndum á Stockfish

Ása Baldursdóttir dagskrárstjóri Stockfish Film Festival. (Mynd: Ernir/Vísir)

Ása Baldursdóttir, dagskrárstjóri Stockfish hátíðarinnar, fer yfir helstu myndir og viðburði hátíðarinnar, sem hefst í dag, í samtali við Vísi. Hún tínir meðal annars til fjórar myndir sem hún mælir sérstaklega með.

Beðin um að lýsa hátíðinni segir Ása:

Tengslin eru ákaflega mikilvægur þáttur í kvikmyndagerðinni og við erum því að leitast við að færa þekkingu og tækifæri hingað heim.

En Stockfish er líka áhorfendahátíð þannig að það er ókeypis á viðburðina og fagsamkomurnar á vegum hátíðarinnar og allir velkomnir. Sérstaða hátíðarinnar felst í þessari tengslamyndun og því að við erum með þrjátíu handvaldar kvikmyndir á dagskrá. Þetta er í raun hátíð sem er smá í sniðum en hún ætlar sér líka að vera smá í sniðum til þess að fólk hafi tækifæri til þess að ná utan um það sem hátíðin hefur að bjóða.

Og spurð um helstu myndir hátíðarinnar segir hún:

„Ungverska myndin Son of Saul eftir leikstjórann László Nemes er á meðal þeirra mynda sem eru tilnefndar til Óskarsverðlauna í ár og við erum reyndar með fleiri tilnefndar myndir á hátíðinni í ár. En í þessu tilviki tókst okkur að fá leikmyndahönnuðinn til þess að koma til okkar og vera á meðal gesta. Þetta er mögnuð mynd um helförina og það eru margir sem spá þessari mynd sigri í ár.

The Witch frá Bandaríkjunum er frábær kvikmynd eftir leikstjórann Robert Eggers sem er upprunalega leikmynda- og búningahönnuður. Hann er að frumsýna þessa mynd í Bandaríkjunum þessa dagana og hefur því miður ekki tíma til að koma en ætlar að vera með okkur í spurt og svarað á Skype sem verður mjög forvitnilegt.

Svo langar mig til þess að nefna að Reykjavík Short&Docs verður hluti af Stockfish í ár og við erum með nokkrar vel valdar heimildarmyndir og stuttmyndir. Sérstaklega langar mig til þess að nefna myndina The Look of Silence eftir Joshua Oppenheimer sem gerði The Act of Killing sem er talin hafa brotið blað í heimildarmyndagerð í heiminum. Þessi nýjasta mynd hans er í raun sjálfstætt framhald þeirrar myndir og það er gaman að segja frá því að hún er líka tilnefnd til Óskarsverðlauna svo aftur grípum við til tækninnar og hann ætlar líka að vera með okkur á Skype.

En svo langar mig að lokum að nefna þýsku myndina Victoria eftir Sebastian Schipper. Þessi mynd er gríðarlega forvitnileg og ekki síst fyrir þær sakir að hún er tekin í einni töku. Kvikmyndatökumaðurinn, Sturla Brandth Grøvlen, verður gestur hátíðarinnar og ætlar að taka þátt í spurt og svarað í tengslum við sýningu myndarinnar. En hann er okkur ekki alveg ókunnugur því hann var tökumaður Hrúta. Að auki er hann núna að vinna í öðru íslensku verkefni þannig að hann hefur svona ákveðna tengingu hingað. en við höfum aldrei séð annað eins og að sjá þessa mynd halda í einni töku. Það er ótrúlegt kvikmyndalegt afrek. Þetta er líka aðgengileg, spennandi og skemmtileg mynd sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.“

Sjá nánar hér: visir.is

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR