Hlynur Pálmason, sem útskrifaðist af leikstjórnarbraut Danska kvikmyndaskólans 2013, hefur tökur í fyrstu kvikmynd sinni í fullri lengd á næstu dögum. Myndin verður gerð í Danmörku og kallast Vinterbrödre, en verkefnið hefur fengið styrk frá Dönsku kvikmyndastofnuninni (DFI) uppá fimm milljónir danskra króna eða rúmar 95 milljónir króna. Anton Máni Svansson hjá Join Motion Pictures er meðframleiðandi.
Vinterbrödre eða Vetrarbræður uppá íslensku, fylgir tveimur bræðrum sem eiga í deilum við aðra fjölskyldu.
„Þetta er saga um skort á ást og fókuserar á yngri bróðurinn og þörf hans fyrir að vera elskaður og þráður,“
segir leikstjórinn í samtali við vef DFI.
Hinn kunni danski leikari Lars Mikkelsen (Forbrydelsen, House of Cards) er meðal þeirra sem koma fram í myndinni.
Julie Waltersdorph Hansen hjá Masterplan Pictures í Danmörku er framleiðandi myndarinnar en þau Hlynur útskrifuðustu saman frá Danska kvikmyndaskólanum.
Að sögn Antons Mána verður næsta mynd Hlyns íslensk og er hún komin langt á veg í þróunarferlinu.
Útskriftarmynd Hlyns kallast Málarinn og vakti hún mikla athygli. Þá gerði Hlynur einnig aðra stuttmynd, Sjö bátar, sem Anton Máni framleiddi og var frumsýnd á Toronto hátíðinni.
Danska kvikmyndaritið Ekko fjallaði um Hlyn þegar hann útskrifaðist 2013 og má sjá umfjöllunina hér.
Áætlað er að frumsýna myndina á næsta ári.