Jón Þórisson leikmyndahönnuður lést á nýársdag, 67 ára að aldri. Hann var einn helsti leikmyndahönnuður Íslendinga í kvikmyndum, sjónvarpi og leikhúsi um áratugaskeið.
Jón stundaði nám við Myndlista- og handíðaskólann á áttunda áratug síðustu aldar og nam einnig leikmyndagerð hjá Leikfélagi Reykjavíkur, auk þess að hljóta starfsþjálfun hjá Danmarks Radio.
Hann vann meðal annars leikmyndir fyrir kvikmyndirnar Land og syni og Útlagann og einnig sjónvarpsmyndirnar Brekkukotsannál (með Birni G. Björnssyni), Vér morðingja, Steinbarn og Dómsdag. Jón vann fjölda verkefna fyrir RÚV, Stöð 2, þýsku sjónvarpsstöðina NDR, London Weekend Television í Bretlandi, Ísfilm og sjálfstæða kvikmyndagerðarmenn.
Leikhúsin voru helsti starfsvettvangur Jóns og vann hann fyrir Leikfélag Reykjavíkur, Þjóðleikhúsið, Leikfélag Akureyrar, Íslensku Óperuna og Íslenska dansflokkinn, auk þess sem hann setti upp bæði stórar vörusýningar og sögulegar sýningar. Þá sá hann um hönnun og leikhústæknilega útfærslu á Borgarleikhúsinu 1984-1990, hafði umsjón með erlendum gestasýningum á Listahátíð, sat í stjórn Leikfélags Reykjavíkur af og til 1982-2000, var í inntökunefnd Félags íslenskra leikara og í stjórn Samtaka um leikminjasafn frá 2001.
Hann hlaut menningarverðlaun DV fyrir kvikmyndina Útlagann 1982; Scanstar-verðlaunin fyrir umbúðahönnun 1992 og Worldstar-verðlaunin fyrir umbúðahönnun 1993.
Eftirlifandi eiginkona Jóns er Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona. Þau eignuðust tvö börn, Steindór Grétar og Margréti Dórotheu.