spot_img

Svona eru tillögur Kvikmyndaráðs

island_flatarmal_stor_090712Í tillögum Kvikmyndaráðs til menntamálaráðherra varðandi uppbyggingu kvikmyndagreinarinnar í landinu til næstu ára, sem Klapptré hefur undir höndum og birtast nú í fyrsta sinn opinberlega, er gert er ráð fyrir að framlög til Kvikmyndasjóðs aukist verulega og nái 2 milljörðum króna 2020 auk þess að fylgja verðlagsbreytingum. Þá er gert ráð fyrir ýmsum nýjum áherslum í úthlutunum Kvikmyndasjóðs til viðbótar þeim sem fyrir eru og að nýtt skipulag liggi fyrir við úthlutanir 2017.

 

Nýmæli snúa meðal annars að sérstökum stuðningi við þá sem eru að gera sínar fyrstu myndir og einnig svokölluð tilraunaverkefni; að aukinn hluti fjármagns verði eyrnamerktur handritavinnu og verkefnaþróun; að fé verði eyrnamerkt barna- og fjölskylduefni árlega; að svigrúm verði skapað til að ráðast í gerð sögulegra mynda og/eða stærri verkefna á samningstímanum; að framlag til hverrar myndar verði aukið uppí allt að 80% og að búnir verði til hvatar fyrir sjálfstæða framleiðendur til að fjárfesta í og þróa verkefni kvenna til jafns við karla.

Kvikmyndaráð skipa:

  • Áslaug Friðriksdóttir formaður, skipuð án tilnefningar,
  • Börkur Gunnarsson,  varaformaður, skipaður án tilnefningar,
  • Hrafnhildur Gunnarsdóttir, tilnefnd af Félagi kvikmyndagerðarmanna,
  • Anna María Karlsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda – SÍK,
  • Friðrik Þór Friðriksson, tilnefndur af Samtökum kvikmyndaleikstjóra,
  • Björn Sigurðsson, tilnefndur af Félagi kvikmyndahúsaeigenda,
  • Kristín Jóhannesdóttir, tilnefnd af Bandalagi íslenskra listamanna.

Tekið skal skýrt fram að hér er um að ræða tillögur Kvikmyndaráðs til ráðherra, enda ráðið aðeins ráðgefandi aðili. Í skýrslu ráðsins, sem ber heitið Áherslur næstu ára og mat á samkomulagi um kvikmyndagerð, er einnig lagt mat á árangur af þeim samningi sem gerður var milli stjórnvalda og kvikmyndagreinarinnar 2011 og hefur nú runnið út.

Það bíður síðan málsaðila að gera nýtt samkomulag og því ófrágengið á þessu stigi hvað í því stendur.

Í fyrsta hluta umfjöllunar Klapptrés um skýrsluna (af þremur) er fjallað um þær tillögur ráðsins sem lúta að nýjum áherslum í starfsemi Kvikmyndasjóðs. Í öðrum hluta verður fjallað um þær tillögur sem snúa að innviðum bransans (menntun, safnastarfi og varðveislu, hátíðum, markaðssetningu o.fl.). Í þriðja hluta verður loks sagt frá árangursmati ráðsins á fyrra samkomulagi.

Annan hluta, um innviði kvikmyndagreinarinnar, má lesa hér.

Þriðja hluta, mat ráðsins á samkomulaginu 2012-2015, má lesa hér.

Framlög hækki í 2 milljarða króna á samningstímanum

Ráðið telur að leggja þurfi sérstaka áherslu á að „tryggja aukið fjármagn í kvikmyndasjóð til að ná markmiðum þeim er samkomulag 2006 kvað á um.“ Því er gerð tillaga um að fjármagn til kvikmyndasjóðs verði 1.2 milljarðar króna á næsta ári og haldi áfram að hækka í áföngum á tímabilinu og verði 2 milljarðar króna 2020 auk þess að fylgja verðlagsbreytingum.

Ennfremur segir:

Þróun Kvikmyndasjóðs ætti að skoða með hliðsjón af þróun annarra fjárfestingasjóða eða samkeppnissjóða. Framlög í Rannsóknarsjóð og Tækniþróunarsjóð hækka gríðarlega milli ára eða um 60-70% og eins þarf að meðhöndla Kvikmyndasjóðinn. Til að ná fram þeim árangri sem í áherslum ráðsins koma fram þarf kvikmyndasjóður aukin framlög. Með því að stuðla að auknu umfangi í framleiðslu má ýta undir að störf við kvikmyndagerð skjóti fastari rótum hérlendis. En þrátt fyrir gott gengi íslensks kvikmyndagerðarfólks hefur lítill stuðningur við myndirnar haft það í för með sér að þær verða á endingu fjármagnaðar að meginhluta til af erlendum aðilum og teljast þá jafnvel ekki lengur íslenskar.

Þreföldun í framleiðslu bíómynda

Ráðið vill að árið 2021 verði framleiddar árlega alls 9 kvikmyndir í fullri lengd – þar af „ein stór leikin mynd“, „ein fjöskyldumynd eða barna/unglingamynd“ og „4 myndir sem gætu flokkast undir tilraunamyndir eða fyrstu myndir.“ Auk þess 8 stuttmyndir, 22 heimildamyndir og 5 leikin sjónvarpsverk. Nýtt skipulag liggi fyrir við úthlutanir fyrir árið 2017.

Miðað er við að styrkir til kvikmynda í fullri lengd séu að jafnaði 130 milljónir króna (eru gjarnan 90 milljónir nú). Þá er gert ráð fyrir að barnamyndir fái hærri styrki eða 200 milljónir pr. mynd og stórar/sögulegar myndir fá 300 milljónir á verkefni og séu gerðar annað hvert ár á samningstímanum. Lagt er til að fyrstu myndir og tilraunamyndir fái 40 milljónir króna til að byrja með en það hækki smám saman á samningstímanum uppí 60 milljónir (í öllum tilfellum er einnig gert ráð fyrir hækkunum vegna verðlagsbreytinga).

Nánar er gerð grein fyrir þessu í töflunni hér að neðan (smelltu til að stækka):

kvikmyndaráð-skipting kvikmynda 2016-2021

Ennfremur segir í tillögunum:

Stuðningur við fyrstu skref og nýsköpun

Styðja þarf við þá sem eru að stíga sín fyrstu skref. Nýjir leikstjórar eiga til dæmis erfitt uppdráttar. Tryggja ber ákveðið fjármagn til ungs kvikmyndagerðarfólks til að gera sínar fyrstu kvikmyndir með innleiðingu á lægri „fyrstu myndar“ styrkjum. Þar yrðu gerðar minni kröfur um dreifingu og aðra fjármögnun. Einnig þarf að tryggja ákveðinn fjölbreytileika. Opnað verði fyrir möguleika á samskonar „lægri styrki“ fyrir tilraunakenndari verkefni.

Tillaga: Að a.m.k. 2 verkefni á ári verði styrkt undir þessum flokki um fyrstu skref og nýsköpun.

Aukinn hluti fjármagns eyrnamerktur handrita- og þróunarstyrkjum

Aukin áhersla verði lögð á vægi handritavinnu og þróunar í kvikmyndaverkum. Afar mikilvægt að afmarka fé til handritaskrifa og þróunar á verkefnum. Sérstaklega verði tekið tillit til stærri kvikmyndaverka með mörgum handritshöfundum.  Þetta mikilvæga svið, sem er í raun undirstaða allrar vinnu í faginu, skortir fé. Flest verkefni þurfa ekki mikla peninga í stóra samhenginu en það er afar brýnt að gefa fólki svigrúm til þessarar vinnu með markvissum hætti.

Tillaga: Aukinn hluti fjármagns eyrnamerkt handritavinnu og þróun.

Barna-, unglinga- og/eða fjölskylduefni

Áfram skal unnið að því að auka framleiðslu á barna-, unglinga- og fjölskylduefni og stefna á að á hverju ári komi út að minnsta kosti ein mynd í þeim flokki.

Tillaga: Fjármagn verði eyrnamerkt framleiðslu barna- og fjölskyldumynda á hverju ári.

Sögulegar eða stórar kvikmyndir

Sögulegar eða stórar kvikmyndir hafa mikinn kostnað í för með sér. Leikmyndakostnaður er hár, leikarahóparnir fjölmennir og myndirnar eru sérstaklega dýrar í framleiðslu á annan hátt, eins og t.d. mikilli eftirvinnslu eða hreyfimyndavinnu.

Tillaga: Að framleiddar verði að lágmarki tvær stórar kvikmyndir og/eða sjónvarpssería á samningstímanum með sérstaklega auknu framlagi Kvikmyndasjóðs.

Aukið framlag með hverri mynd

Framleiðslukostnaður íslenskra kvikmynda er langt frá því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Samkvæmt tölum frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum er er framleiðslukostnaður íslenskra kvikmynda mun lægri en á Norðurlöndum. Til dæmis aðeins rúmlega fjórðungur þess sem gerist í Noregi og aðeins helmingur að því sem gerist í Svíþjóð.

Samanburður á framleiðslukostnaði norræna kvikmynda 2015

Meðaltal (milljónir EUR)Miðgildi (milljónir EUR)
NOREGUR 4,444,23
SVÍÞJÓÐ2,52 2,62
DANMÖRK3,683,18
FINNLAND 2,351,60
ÍSLAND 1,291,38

Heimild: Norræni kvikmynda- og sjónvarspssjóðurinn

Tillaga: Að auka framlag með hverri mynd á tímabilinu þannig að framlög með hverri mynd verði um 80%. 

Hlutur kvenna aukinn

Margar tillögur hafa komið upp um hvernig hægt er að efla hlut kvenna í kvikmyndagerð. Hér fyrir neðan eru nokkrar nefndar.  Tillögur þessar miða því að fjölga umsóknum kvenna og búa til hvata fyrir sjálfstæða framleiðendur til að fjárfesta og þróa verkefni kvenna til jafns við karla.

Tillaga: Á tímabilinu verði farið í kröftugt átaksverkefni og aðgerðir til að efla hlut kvenna í kvikmyndagerð. Á fimm ára tímabili verði upphæðir handrita- og þróunarstyrkja tvöfaldaðir til kvenna sem hljóta styrki. Einnig verði styrkir til framleiðslu kvenna auknir.  Markmiðið er að auka líkurnar á því að framleiðendur vilji semja við konur um samstarf.

Upplýsingar frá KMÍ um úthlutanir 2005-2015 sýna að umsóknir kvenna um framleiðslustyrki hljóta svipað brautargengi hjá stofnuninni og umsóknir karla, en þær eru of fáar, eða einungis um 28% þegar kemur að leiknum kvikmyndum í fullri lengd og 14% í leiknu efni fyrir sjónvarp. Beðið er eftir upplýsingum um hvernig fjármunir Kvikmyndasjóðs hafa skipst á milli kynja á þessu tímabili.  Kvikmyndagerð er mjög áhættusöm starfsemi. Við fjármögnun og markaðssetningu verka leita menn allra leiða til að vinna með kunnuglegar stærðir, að því marki sem mögulegt er. Mat á verðleikum umsókna og áhættumat framleiðenda tekur því mið að sterkri stöðu karla þegar kemur að fjölda verka, sem hafa sannað sig á markaði. Forskot karlhöfunda og -leikstjóra er því heilmikið þegar kynjahlutfall  framleiddra verka á síðast liðnum fimmtán árum er haft í huga.  Ef ekki verður spornað við fótum með afgerandi hætti, er viðbúið að þessi staða muni einungis versna.  Tillagan miðar því að því að fjölga umsóknum kvenna og búa til hvata fyrir sjálfstæða framleiðendur til að fjárfesta og þróa verkefni kvenna til jafns við karla.

[Sjá nánar í töflu hér að neðan, smelltu á töfluna til að stækka:]

kvikmyndaráð-styrkir til að auka hlut kvennaTillaga: Að stofna sérstakan sjóð þar sem sækja má um verkefnastyrki sem miðast að því að beina sjónum ungra kvenna að kvikmyndagerð. Þannig mætti hvetja til meira framboðs fræðslu og námskeiða í gegnum mismunandi aðila s.s. skóla, félagsmiðstöðva, hagsmunaaðila í kvikmyndagerð og einkaaðila.

Tillaga: Að styrkja grasrótarsamtök kvenna í kvikmynagerð til að sinna hvatningarverðlaunum til kvenna í kvikmyndagerð. Opnað yrði fyrir tilnefningar þar sem öllum yrði frjálst að senda inn tillögu með rökstuðningi. Verkefnin gætu verið af öllum stærðum og gerðum. Valið yrði einu sinni á ári og niðurstaðan kynnt með pompi og prakt.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR