Skýrsla starfshóps sem falið var að skoða og greina rekstur Ríkisútvarpsins var birt í dag. Þar kemur meðal annars fram að rekstur RÚV ohf. frá stofnun félagsins árið 2007 hafi ekki verið sjálfbær. Gjöld hafa verið meiri en tekjur á tímabilinu í heild og hefur hallarekstur verið fjármagnaður með auknu ríkisframlagi, lántökum og frestun afborgana lána.
Eyþór Arnalds er formaður starfshópsins en aðrir nefndarmenn eru Guðrún Ögmundsdóttir sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti og Svanbjörn Thoroddsen hjá KPMG.
Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.
RÚV fer yfir helstu atriði skýrslunnar á vef sínum:
Í helstu niðurstöðum skýrslunnar segir að rekstrarkostnaður hafi verið að jafnaði 5,4 milljarðar á ári frá stofnun RÚV ohf. 2007 á föstu verðlagi. Á síðasta rekstrarári hafi heildarkostnaður verið 5,3 milljarðar króna. Að óbreyttu stefni í hækkun kostnaðar á næsta ári.
Þá hafi taprekstur verið á 4 af þeim 8 árum sem liðin eru frá stofnun RÚV ohf. Tap umfram hagnað sé samtals 813 milljónir króna. Þá sýni einfaldur samanburður talna við hluta sjónvarps- og útvarpsrekstrar 365 Miðla að rekstrarkostnaður RÚV sé mun hærri.
Þó kemur fram í skýrslunni að á tímabilinu frá 2007 til 2014 hafi framlög til RÚV verið samtals 2,9 milljörðum lægri fjárhæð en innheimt útvarpsgjald. Í þeim útreikningum er miðað við verðlag ársins 2015.
Í skýrslunni segir að innheimt útvarpsgjald hafi ekki runnið óskipt til RÚV, en muni gera það frá 1. janúar 2016 í fyrsta sinn frá stofnun RÚV ohf.
Þá kemur fram nokkur gagnrýni á samning sem gerður var við Vodafone árið 2013. Þá hafi 4 milljarða króna skuldbinding verið lögð á RÚV með 15 ára samningi við Vodafone um stafrænt dreifikerfi með takmarkaða möguleika.
Hvað húsnæðismál stofnunarinnar varðar segir að um sé að ræða mikla fjárbindingu í stóru og óhentugu húsnæði.
Áætlanir RÚV, sem unnið sé eftir, geri ráð fyrir hærra útvarpsgjaldi en komi fram í fjárlagafrumvarpinu. Þá sé gert ráð fyrir að lán frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins hverfi úr efnahag stofnunarinnar, auk þess sem gert sé ráð fyrir sölu byggingaréttar. Gangi þessar forsendur ekki allar eftir sé reksturinn hins vegar ósjálfbær.
Breytt neytendahegðun
Í skýrslunni segir ennfremur: „Frá stofnun RÚV ohf. hefur skuldsetning félagsins verið mikil. Á árunum 2012-2014 jukust vaxtaberandi skuldir RÚV hlutfallslega mest, eða um eina og hálfa milljón króna á dag að jafnaði. Nýverið tilkynnti RÚV um sölu, með ákveðnum fyrirvörum, á byggingarétti fyrir 1,5 ma. kr. sem gert er ráð fyrir að gangi til lækkunar skulda. Fjármagnsgjöld RÚV hafa undanfarin ár verið um 6% af heildargjöldum.“
Skýrsluhöfundar benda á að miklar breytingar sé að verða í neytendahegðun, sem komi fram í miklum samdrætti í áhorfi á hefðbundna sjónvarpsdagskrá, sérstaklega hjá ungu fólki. Mikilvægt sé að endurskoða þjónustuhlutverk RÚV í ljósi þessarar þróunar.
Þá sé mikilvægt að gerður verði nýr þjónustusamningur í samræmi við lög um Ríkisútvarpið og í honum verði skilgreind sú þjónusta sem RÚV beri að sinna og hvaða fjármunir eigi að koma fyrir þá þjónustu út samningstímann. Með nýjum þjónustusamningi fáist tækifæri til þess að ramma betur inn hlutverk, skyldur og forgangsröðun RÚV. Lögbundið eftirlit fjölmiðlanefndar og Ríkisendurskoðanda sé ekki virkt vegna þess að nýr þjónustusamningur hafi ekki verið gerður.
Sjá nánar hér: Skýrsla um RÚV: Ósjálfbær hallarekstur | RÚV