Fúsi Dags Kára Péturssonar hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2015 sem afhent voru í Hörpu í kvöld. Þetta er annað árið í röð sem íslensk kvikmynd vinnur þessi verðlaun.
Þakkarræðu Dags Kára má sjá hér.
Myndin segir frá Fúsa, rúmlega fertugum manni sem býr með móður sinni og þorir ekki að flytja að heiman. Dagur Kári skrifaði handritið og leikstýrði og með helstu hlutverk fara Gunnar Jónsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Sigurjón Kjartansson og Margrét Helga Jóhannsdóttir.
Fúsi hlaut þrenn verðlaun á Tribeca- kvikmyndahátíðinni í New York í apríl. Þá sagði Dagur Kári í viðtali við RÚV að það hefði verið hálfgert brjálæði að gera myndina samhliða því að vera í fullu starfi sem yfirkennari leikstjórnardeildar danska kvikmyndaháskólans. Á Tribeca var Fúsi valinn besta leikna kvikmyndin, Gunnar Jónsson – Gussi – var valinn besti karlleikarinn og myndin fékk einnig verðlaun fyrir handrit.
Í fyrra hlaut Hross í oss Benedikts Erlingssonar kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs. Á verðlaunaafhendingunni vakti Benedikt athygli fyrir harða gagnrýni á íslensk stjórnvöld fyrir að skera niður framlög til kvikmyndagerðar og hvatti hátíðargesti til að gefa sig á tal við íslenska ráðherra í veislunni eftir verðlaunaafhendinguna og ræða kurteislega við þá um menningu og sagnaarf Norðurlandanna.