Sjónvarpsstöðin SkjárEinn er í opinni línulegri dagskrá frá og með deginum í dag. Stöðin verður hins vegar í áskrift sem gagnvirk efnisveita. Með þessu ætlar Síminn að herja á nútímasjónvarpsmarkað.
Kjarninn greinir frá:
„Fyrirmyndin er fengin úr tónlistar- og leikjaheiminum á netinu. Við erum algjörlega sannfærð um að það reynist vel á sjónvarpsmarkaði og finnum fyrir miklum áhuga,“ segir Pálmi Guðmundsson sjónvarpsstjóri í tilkynningu um breytingarnar. Uppskiptingin með þessum hætti er byggð á íslensku hugviti og var þróuð hjá Símanum.
SkjárEinn fór í loftið árið 1999 og var í opinni dagskrá allt til ársins 2009, eða í tíu ár. Frá þeim tíma hefur stöðin, og tengdar stöðvar Skjásins, verið áskriftarstöðvar, þangað til í dag. Tilkynnt var um þessar breytingar um miðjan september, en miklar breytingar hafa átt sér stað hjá SkjáEinum á árinu, en sjónvarpsstöðin og annað sem heyrði undir Skjáinn er nú rekið beint undir hatti Símans.