Hátíðargusa Margrétar Örnólfsdóttur

Margrét Örnólfsdóttir handritshöfundur og formaður Félags leikskálda og handritshöfunda.
Margrét Örnólfsdóttir handritshöfundur og formaður Félags leikskálda og handritshöfunda.

Við skrifum handrit svo allir hinir viti hvað þeir eigi að gera. Fyrst ég er komin í þá kjöraðstöðu sem handritshöfundar lenda ekki oft í, að þið neyðist til að hlusta á mig, þá langar mig að vekja athygli á því að upphaf hverrar einustu kvikmyndar má rekja til huga handritshöfundar. En það er reyndar talsverð einföldun. Eitt er að fá hugmynd, hver sem er getur fengið sæmilega hugmynd að kvikmynd, annað er að skrifa þetta helvíti. Því, svo ég vitni í slagorð spænsku handritshöfundasamtakanna sem heita því fallega nafni ALMA, sem þýðir SÁL: No se escriben solas, þetta skrifar sig ekki sjálft.

Já, það þarf að skrifa þetta og þá fyrst fara málin að flækjast. Ekki bara vegna þess að fyrir höfundinum liggur sú langa og stanga þrautabraut að koma hugmyndinni, sem hann asnaðist til að skuldbinda sig, í viðunandi form, heldur einnig af þeirri ástæðu að næstum allir halda að þeir geti skrifað kvikmyndahandrit. Eða að minnsta kosti að þeir hafi ógurlega mikið vit á því hvernig á að gera það.

Það er örugglega til bók sem heitir „Writing að screenplay – Everybody can do it!“ En þessi almenna ranghugmynd gerir starf handritshöfundarins, sem er nógu erfitt fyrir, að síendurtekinni martröð. Við erum auðvitað öll haldin vægum kvalalosta, við erum bara orðin svo vel þjálfuð í að bæla hann. Starf handritshöfundarins felst ekki síst í því að reyna að halda lágmarkseinbeitingu, með her fólks, alskonar fólks! á sitt hvorri öxlinni sem þreytist ekki á að segja sína skoðun.

Ekki misskilja mig, margt er bæði mjög hjálplegt og mikilvægt, en það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að hlusta á margar raddir í einu án þess að tapa glórunni. Því á sama tíma og allar þessar utanaðkomandi raddir vilja koma sínu að eru jafnvel enn ágengari raddir (sem eiga okkar á milli sagt oftast mun meira erindi) sem verður að hlusta á.

Þær raddir koma að innan – rödd sögunnar, raddir persónanna sem heimta skilyrðislausa athygli, ást og umönnun höfundarins, og ekki síst rödd hjartans. Sú síðastnefnda er lágværust en jafnframt mikilvægust því án hennar á sagan ekkert erindi og er best geymd í óframleiddu handriti. Kvikmyndahandrit er nefnilega fyrst og síðast uppskrift að þeim sálfræðihernaði sem kvikmyndin er. Þetta snýst um snertingu og að hafa áhrif á fólk í gegnum þennan magnaða miðil. Þegar vel tekst til eru þau áhrif varanleg.

Kvikmyndahandrit er ekki bókmenntaverk. Það fer engin heilvita manneskja með handrit upp í rúm á kvöldin ótilneydd. Fyrir utan örfáa sem vonandi bera gæfu til þess að mynda með sér sjálfshjálparsamtök. Handritið er ekki sjálfstætt verk heldur aðeins vísir að því sem getur orðið. Til þess að handritið sé pappírsins virði þurfa að koma til allir þeir kraftar sem með sameiginlegu átaki magna upp seiðinn sem endar á hvíta tjaldinu. Eða einhverjum skjánum. Í góðu handriti eru það ekki orðin sjálf sem hafa mest gildi, ekki heldur myndirnar sem þau lýsa og draga upp, heldur loftið á milli þeirra, eins og þagnirnar í tónlistinni, sem gefur svigrúm fyrir allt þetta ósýnilega og ósagða og óútskýrða – galdurinn sem allir hinir sem að verkinu koma hafa möguleika á að fullkomna. Kvikmyndahandrit er með öðrum orðum töfraformúla.

Og nú þegar ég hef sannfært ykkur um stjarnfræðilegt mikilvægi handritsins spyr ég: Hvernig stendur þá á því að sá sem oftast gleymist að geta í tengslum við kvikmyndir er handritshöfundurinn? Við skiljum alveg að þegar hins beina framlags okkar er ekki lengur þörf, þegar í krafti handritsins er búið að fjármagna verkið og lokka leikara og aðra lykilpósta um borð, þegar búið er að brjóta handritið niður fyrir tökur svo það líkist varla lengur hinni upprunalegu lokaútgáfu höfundarins … og svo framvegis, þá er handritshöfundurinn fólki ekki endilega efst í huga. En ekki gleyma okkur alveg. Við viljum bara réttmæta hlutdeild í ævintýrinu og ef okkur yrði nú boðið með á eina og eina kvikmyndahátíð, mama mía, við tækjum Gunnar á Hlíðarenda á það!

Ég ólst upp í hinu hverfula íslenska kvikmyndavori og æskuheimili mitt var reglulega veðsett upp í topp vegna kvikmyndagerðar. Brennt barn forðast ekki eldinn nema síður sé, eldurinn hefur einfaldlega alltof mikið aðdráttaraf.

Hinsvegar er annað máltæki sem mér hefur alltaf þótt mark á takandi: Heimskt er heimalið barn. Það var nefnilega stór þáttur í íslenska kvikmyndavorinu að soga í sig eins mikið af ferskum og framandi straumum og hægt var að komast í tæri við. Þegar ég var þrettán ára, átti ég þess fyrst kost að leggjast í kvikmyndahátíðarsukk. Í gamla Regnboganum. Þarna varð ég fyrir einhverjum kjarnasamruna sem markaði mig fyrir lífstíð. Eins og sést. Í gegnum kvikmyndir frá líklegustu og ólíklegustu stöðum kannaðist ég loksins við sjálfa mig. Uppgötvaði að ég tilheyrði fyrst og fremst heiminum og að góð saga er sammannleg og henni er skítsama um öll landamæri.

Þrátt fyrir ungan aldur og smæð er íslensk kvikmyndagerð alþjóðlega viðurkennd og þykir jafnvel hafa viss sérkenni. En það er örlítil skekkja, eða gloppa, í þeirri mynd. Strákarnir okkar gera myndir sem ferðast og sigra heiminn. Það er frábært. En hvað getum við gert margar áhugaverðar myndir um skrítna sveitamenn sem eiga í tilfinningasambandi við hin ýmsu séríslensku húsdýr? Dýralíf á Íslandi er með því fábreyttasta sem um getur, það er tæmandi uppspretta. Mannlífið er það hins vegar ekki og samkvæmt hagtölum skiptist þjóðin sirka til helminga í kalla og kellingar.

Við samgleðjumst strákunum innilega en líkt og í tilfelli handritshöfundanna viljum við einfaldlega fá að vera með í leiknum. Ég get ekki beðið eftir því að litið verði á íslenska kvikmyndagerð sem blandaða íþrótt. Þegar tvær kvikmyndagerðakonur koma saman og tala um eitthvað annað en Baltasar Kormák. Þegar við förum að kalla okkur kvikmyndagerðarfólk og hættum að deila stöðugt um hlutföll og réttláta skiptingu. Það verður ný mynd sem heimurinn fær að sjá – þar sem skrítnar kellingar og kallar glíma við alls konar. Jafnvel með dýrum. Hún verður öðruvísi en örugglega áhugaverðari og sannari.

Kvikmyndamiðstöð verður markvisst að vinna á móti einsleitni, og það ekki bara í kynlegu samhengi. Hysjum upp um okkur og framleiðum meira af barna- og fjölskyldumyndum. Hvað með þau 10 prósent þjóðarinnar sem eru af svokölluðu erlendu bergi brotin? Endurspegla íslenskar kvikmyndir þá tölfræði? Burt með snobb og þjóðrembu. Mjóddin er alveg jafnmyndræn og Mýrdalssandur. Flíspeysan hefur ekki síður menningarlegt gildi en lopapeysan. Við eigum ekki að vera eitthvert landkynningarapparat til að hala inn fleiri túrista. Með fullri virðingu fyrir túristum. Gerum myndir um túrista!

Njótum þess nú að líta út um heimóttargluggann um stund og sjá allar þessar myndir frá öllum þessum stöðum sem allar eru tilkomnar vegna þess að einhver skrifaði handrit að sögu sem segir okkur eitthvað um okkur sjálf og heiminn um leið – Gleðilegan kjarnasamruna!

Margrét Örnólfsdóttir
Margrét Örnólfsdóttir
Margrét Örnólfsdóttir er handritshöfundur og formaður FLH, Félags leikskálda og handritshöfunda.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR